Ráðherrar jákvæðir í garð stýrivaxtahækkunar

Seðlabanki Íslands kynnti stýrivaxtahækkun í gær.
Seðlabanki Íslands kynnti stýrivaxtahækkun í gær. mbl.is/Golli

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eru bæði ansi jákvæð gagnvart stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands, sem kynnt var í gær. Þau voru bæði spurð út í hækkunina að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. 

Stýrivextir hækkuðu þá um 0,25% og standa nú í 1,25% sem teljast má lágt í sögulegu samhengi. 

Þó voru aðilar vinnumarkaðarins ekki sáttir við hækkunina og hafa þeir áhyggjur af framhaldinu. 

Gagnrýna hækkun stýrivaxta

Meðal annars sagði Drífa Snædal, forseti ASÍ, að hún hefði áhyggjur af því að stýrivaxtahækkun myndi bitna á lántakendum í landinu, þá í misræmi við þann ávinning sem lántakendur hlutu við stýrivaxtalækkun á síðustu árum, ávinning sem Drífa segir að hafi ekki skilað sér eins vel og til var vonast. 

Þá sagði Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, að erfitt væri að merkja þá hitnun í hagkerfinu sem peningastefnunefnd seðlabankans segist vera að bregðast við með hækkun stýrivaxta.

Jákvætt að Seðlabankinn sé bjartsýnn

Forsætisráðherra segir að hún heyri áhyggjur atvinnulífsins yfir því að ekki sé tilefni til þess að kæla niður hagkerfið með stýrivaxtahækkunum, vegna þess að enn sé verið að byggja upp frá því að efnahagsskellur kórónuveirunnar reið yfir landið. Hún segir þó að Seðlabanki Íslands virðist bjartsýnn á framhaldið og að það sé gott. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir utan ráðherrabústaðinn. mbl.is/Unnur Karen

„Mér fannst kannski mikilvægustu skilaboðin á þessum fundi peningastefnunefndar að Seðlabankinn sé mjög bjartsýnn, að við séum búin að ná ákveðinni viðspyrnu og að framundan sé mikið framfaraskeið,“ segir Katrín. 

„Mér finnst þetta segja að efnahagsaðgerðirnar, sem ráðist var í, hafi skilað þeirri viðspyrnu sem til var ætlast. Hins vegar hangir framhaldið og áframhaldandi lágt vaxtastig, af því við erum ennþá með lágt vaxtastig, á því að vel gangi í þessu samstarfi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðsaðgerða,“ bætir hún við. 

Góð tíðindi búa að baki vaxtahækkunum

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að það séu jákvæð tíðindi sem liggi að baki ákvörðunar Seðlabankans um að hækka stýrivexti. Hann segir að ekki megi missa sjónar af þeim jákvæðu tíðindum og að verkefnið núna sé að tryggja að ekki skapi ástand þar sem verði að hækka vexti frekar.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir utan ráðherrabústaðinn.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fyrir utan ráðherrabústaðinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við skulum skoða það sem liggur að baki þessari ákvörðun peningastefnunefndar, sem eru mjög jákvæð tíðindi fyrir okkur sem erum að koma hérna út úr efnahagslægð. Það sem við sjáum er uppgangur í atvinnulífinu, atvinnuleysistölur eru á réttri leið, við sjáum að hagvöxtur er meiri en spáð var og við finnum fyrir því í ríkisrekstrinum að tekjur vaxa hraðar en áður var gert ráð fyrir. Þannig við skulum ekki missa sjónar af því sem er jákvætt og liggur að baki þessari ákvörðun Seðlabankans,“ segir Bjarni og bætir við:

„Við erum eftir sem áður með sögulega lága vexti og nú held ég að við ættum að beina sjónum okkar að því að halda ástandinu þannig að ekki gerist þörf á frekari vaxtahækkunum á komandi misserum. Þar er bara gömul saga og ný, að það þarf samspil stjórnvalda, vinnumarkaðar og Seðlabanka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK