Frosti nýr framkvæmdastjóri Olís

Frosti Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Olís.
Frosti Ólafsson, nýr framkvæmdastjóri Olís. Ljósmynd/Aðsend

Frosti Ólafsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Olíuverzlunar Íslands ehf.

Þetta kemur fram í tilkynningu Haga.

Frosti hefur áður starfað sem forstjóri ORF líftækni, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og ráðgjafi hjá McKinsey & Company þar sem hann sá meðal annars um stefnumótun, rekstrargreiningu og umbreytingarverkefni fyrir alþjóðleg fyrirtæki. Auk þess sem hann hefur setið í stjórnum ýmissa íslenskra fyrirtækja. Hefur hann lokið MBA-námi frá London Business School og B.Sc.-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands.

Kemur fram í tilkynningunni að Frosti búi yfir víðtækri reynslu sem stjórnandi og ráðgjafi, bæði hérlendis og erlendis.

„Frosti býr að víðtækri og farsælli reynslu af fyrirtækjarekstri, stefnumótun og umbreytingarverkefnum, bæði hér heima fyrir og erlendis. Hann þekkir einnig vel til starfsemi Olís og Haga eftir þátttöku í stefnumótunarvinnu á vegum félaganna síðustu misserin,“ er haft eftir Finni Oddssyni, forstjóra Haga.

„Það er því sérlega ánægjulegt að fá Frosta til liðs við öflugt teymi hjá Olís, til að takast á við fjölbreytt og áhugaverð verkefni sem bíða félagsins. Það eru spennandi tímar fram undan á eldsneytis- og þægindamarkaði, m.a. vegna orkuskipta og breyttrar neysluhegðunar viðskiptavina. Við bjóðum Frosta velkominn í hópinn og hlökkum til samstarfsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK