Fyrri hluti árs betri en áætlað var

„Árshlutauppgjör annars ársfjórðungs endurspeglar vel heppnaða byrjun flugrekstrar PLAY. Handbært fé frá rekstri er meira en áætlanir gerðu ráð fyrir þar sem meðal annars kjör færsluhirða eru betri en ráðgert var. Betri kjör má rekja til sterkrar fjárhagsstöðu fyrirtækisins og vel heppnaðs upphafs rekstrar,“ segir í tilkynningu frá Play.

Þá segir að sala farmiða hafi gengið vonum framar og að sumaráætlun félagsins hafi verið vel heppnuð en í júní hófst reglulegt áætlunarflug þriggja flugvéla félagsins.

Í apríl aflaði Play 47 milljóna dollara í lokuðu hlutafjárútboði og styrkti enn frekar stoðir sínar með 34,9 milljóna dollara hlutafjárútboði í júní og var félagið skráð á Nasdaq first Growth Iceland-markaðinn í júlí.

Nærri tvöfalt fleiri farþegar í ágúst en júlí

„Fyrsti heili mánuður Play í flugrekstri var vel heppnaður og markmið fyrirtækisins um öryggi, áreiðanleika og ánægju viðskiptavina náðust. Tíðar breytingar á ferðatakmörkunum af hálfu stjórnvalda og ný bylgja kórónuveirunnar hér á landi í júlí hafði þó óneitanlega neikvæð áhrif á eftirspurn meðal íslenskra farþega,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að miðasala hafi aukist á ný í ágúst en þá flutti Play rúmlega 17.300 farþega en þeir voru nærri tvöfalt fleiri en í júlí. „Tölurnar endurspegla vaxandi eftirspurn íslenskra viðskiptavina í kjölfar fækkunar COVID-19 tilfella. Útlit er fyrir að sætanýting í september muni aukast enn frekar, annan mánuðinn í röð.“

Uppbyggingin krefst fleiri starfsmanna

Segir í tilkynningunni að niðurstöður annars ársfjórðungs sýni að allt sé á áætlun fyrir tengiflug sem stendur til að hefjist næsta vor. Því verði forgangsmál næstu mánaða að undirbúa flug Play til Norður-Ameríku.

Í dag eru starfsmenn Play 131 talsins en uppbyggingin mun krefjast 150 til 200 starfsmanna til viðbótar.

Flotinn stækkar

Play undirritaði í ágúst tvær viljayfirlýsingar við tvo alþjóðlega flugvélaleigusala. Þessar ráðstafanir stækka flota Play úr þremur flugvélum í níu fyrir sumarið 2023. Þá er félagið langt á veg komið í viðræðum um leigu á tíundu flugvélinni. Kjör á þessum samningum eru betri en gert var ráð fyrir í viðskiptaáætlunum félagsins.

Fyrstu þrjár vélarnar verða afhentar á fyrsta ársfjórðungi 2022 og verða því vélarnar sex talsins næsta sumar.

Í tilkynningunni segir einnig að það standi yfir viðræður um viðbætur við flotann fyrir 2024 og 2025 en hann mun þá telja 15 vélar í lok árs 2025.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK