Taugaveiklun fyrir helgi

Öll félög hafa hækkað í verði í kauphöll Íslands í …
Öll félög hafa hækkað í verði í kauphöll Íslands í dag. Ljósmynd/Aðsend

Úrvalsvísitala aðallista Kauphallar Íslands hefur hækkað um 2,39% í dag og hafa öll félög á markaðnum hækkað í verði.

Stefán Þór Bogason, hlutabréfagreinandi hjá ráðgjafarfyrirtækinu IFS ráðgjöf, segir greinilegt af viðbrögðum íslenska markaðarins það sem af er degi að aðilar á markaði hafi verið dálítið taugaveiklaðir fyrir helgi vegna kosninganna og þá sérstaklega vegna sjávarútvegsfyrirtækjanna í Kauphöllinni, en þau hafa hækkað talvert í dag.

Þannig hefur hástökkvari dagsins, Brim, hækkað um 7,27% í 296 milljóna króna viðskiptum og Síldarvinnslan um 6,45% í 402 milljóna króna viðskiptum.

Stefán segir að óvissa hafi litað markaði síðustu tvær vikur, einnig út af væringum í Kína þar sem áframhaldandi rekstur fasteignaþróunarfélagsins Evergrande er í uppnámi. Félagið skuldar 300 milljarða Bandaríkjadala.

„Erlendir markaðir hafa aðeins verið að hækka aftur í dag eftir talsverðan óróa í síðustu viku.“

Eins og Stefán bendir á leggst óvissa jafnan illa í fjárfesta og nú þegar útlit er fyrir stöðugleika í stjórnmálunum sjáist það skýrt á mörkuðum.

Verðbólguvæntingar eru að síga

Fram kom í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag að verðbólguálag hefði hækkað í aðdraganda þingkosninganna. Tengdi Agnar Tómas Möller, sjóðstjóri hjá eignastýringu Kviku banka, það við óvissu um þróun efnahagsmála með nýrri ríkisstjórn. 

Snorri Jakobsson, eigandi Jakobsson Capital, segir viðbrögð markaðarins benda til að dregið hafi úr þessari óvissu eftir að úrslit kosninganna urðu ljós.  

„Verðbólguvæntingar eru aðeins að síga. Það er ekki sama fjörið og á hlutabréfamarkaðnum,“ segir Snorri og vísar til hækkana í kauphöllinni í dag. 

Með því séu líkur á ósjálfbærri aukningu ríkisútgjalda, með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og stýrivexti, metnar minni en fyrir kosningarnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK