„Það er engum blöðum um það að fletta að heimsviðskiptin eru farin að opnast á ný og markaðinn þyrstir í nýjar vörur. Íslenskar hágæðavörur eru eftirsóttar og vinsældir landsins eru áberandi hérna,“ segir Sigríður V. Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Primex á Siglufirði, sem sótti nýverið heilsuvörusýninguna Vita Foods í Genf, þeirri stærstu í Evrópu, ásamt fleiri íslenskum snyrti- og heilsuvöruframleiðendum.

Primex kynnti þar nýjar sáravörur, undir merkinu ChitoCare Medical. Að sögn Sigríðar hafa þær fengið skráningu sem lækningatæki í flokki III, sem þýðir að fyrirtækið getur fullyrt í kynningum að nota megi kremið á opin sár og aðra húðkvilla. Einnig kynnti Primex aðra framleiðslu, eins og LipoSan-trefjarnar og ChitoCare beauty-húðvörurnar.

Náðu stórum samningum

„Allir þessir vöruflokkar hafa hlotið mikla athygli og erum við nú þegar í viðræðum við væntanlega dreifingaraðila víða um heim,“ segir Sigríður og eru það helst markaðir í Evrópu, Asíu og Mið-Austurlöndum. Hún segir fyrirtækið hafa náð þarna stórum samningum.

„Markaðurinn er að kalla eftir nýjum hágæðavörum með mikla virkni. Að baki ChitoCare-vörunum liggja klínískar rannsóknir á sykursýkisárum og gegn nýjum og gömlum örum,“ segir Sigríður enn fremur.

Primex hefur tekið þátt og sýnt á þessari sýningu í 18 ár en þetta var fyrsta sýningin sem fyrirtækið tók þátt í eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Líkt og undanfarin ár á þessari sýningu voru Primex og Lýsi saman á bás. Einnig kynnti Algalíf sína framleiðslu í Genf og á kynningarbás Íslandsstofu voru fyrirtækin Geosilica, Dropi og Saga Natura með aðstöðu.

Íslensku fyrirtækin fengu heimsókn á sýninguna einn morguninn, þegar Harald Aspelund, fastafulltrúi Íslands hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf, kynnti sér vörur þeirra og framleiðslu.

„Þetta var skemmtileg heimsókn en þessi flottu íslensku nýsköpunarfyrirtæki eiga það sameiginlegt að efla okkar útflutning og hagvöxt,“ sagði Sigríður hjá Primex.