Revolut hefur bankastarfsemi á Íslandi

Joe Heneghan, framkvæmdastjóri Revolut.
Joe Heneghan, framkvæmdastjóri Revolut. Ljósmynd/Aðsend

Breska fjártæknifyrirtækið Revolut hefur opnað fyrir viðskipti Íslendinga við evrópskan banka fyrirtækisins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Revolut en samhliða þessu opnaði fyrirtækið á viðskipti í níu öðrum Evrópulöndum.

Innistæðuvernd í Litháen

Revolut, sem hefur um 18 milljón viðskiptavini úti um allan heim, fékk í dag sérhæft bankaleyfi á Íslandi. Þeir sem færa viðskipti sín yfir til bankans hljóta innistæðuvernd frá litháenska fyrirtækinu Deposit and Investment Insurance fyrir allt að 100 þúsund evrur, jafnvirði rúmlega 14 milljóna króna. 

Fram kemur í tilkynningunni að með hinu nýútgefna bankaleyfi geti Íslendingar nú fært viðskipti sín yfir til banka Revolut og notið ofangreindrar innistæðuverndar en ferlið tekur aðeins fáeinar mínútur. Tekið er fram að nú þegar séu fleiri en 6.000 Íslendingar í viðskiptum við Revolut.

„Revolut er eitt þeirra fjártæknifyrirtækja sem er í hvað örustum vexti því viðskiptavinir okkar eru hjarta alls þess sem við gerum. Vöruhönnun okkar er næsta óaðfinnanleg, við höfum engin falin gjöld og erum stöðugt að vinna að nýstárlegum fjártæknilausnum,“ er haft eftir Joe Heneghan, framkvæmdastjóra Revolut í tilkynningu frá fyrirtækinu,

Með því að nota Revolut appið geta viðskiptavinir séð nákvæmlega …
Með því að nota Revolut appið geta viðskiptavinir séð nákvæmlega hversu miklu þeir eyða í hverjum mánuði í mismunandi útgjaldaflokka. Ljósmynd/Aðsend

Starfa á 28 mörkuðum innan Evrópusambandsins

Revolut opnaði banka í Póllandi og Litháen árið 2020 og byrjaði á að bjóða upp á lán í báðum löndum. Samhliða komunni á íslenskan markað opnaði félagið á starfsemi sína í níu öðrum löndum og er nú starfandi á alls 28 mörkuðum innan Evrópusambandsins.

Fram kemur að sérhæfða bankaleyfið geri Revolut kleift að veita takmarkaða bankaþjónustu í gegnum app fyrirtækisins ásamt því að bjóða upp á ýmisskonar fjármálaþjónustu og vörur sem önnur fyrirtæki félagsins Revolut Group bjóða upp á.

Með því að nota Revolut appið geta viðskiptavinir séð nákvæmlega hversu miklu þeir eyða í hverjum mánuði í mismunandi útgjaldaflokka, sett upp mánaðarlega útgjaldaáætlun fyrir þessa flokka, stjórnað áskriftargreiðslum, tekið á móti greiðslum frá vinum og millifært á þá sömuleiðis, séð kortayfirlit sitt og safnað aukakrónum.

Þá geta viðskiptavinir Revolut einnig notað appið til þess að versla á netinu, millifæra peninga til útlanda og stunda gjaldeyrisviðskipti með yfir 30 mismunandi gjaldmiðlum.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Revolut.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK