Tækifæri til að margfalda tekjur

Alda Music sér um dreifingu á lögum tónlistarkonunnar Bríetar.
Alda Music sér um dreifingu á lögum tónlistarkonunnar Bríetar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Universal Music/InGrooves, stærsta tónlistarfyrirtæki heims, hefur gengið frá kaupum á íslenska útgáfufyrirtækinu Öldu Music. Kaupverð er trúnaðarmál en eigendur Öldu Music voru Sölvi Blöndal, Ólafur Arnalds, Reynir Harðarson og Jón Gunnar Jónsson.

Dagleg starfsemi Öldu mun haldast óbreytt og verður Sölvi áfram teymisstjóri útgáfunnar. Auk þess mun hann leiða samruna Öldu og Universal.

Á sér langan aðdraganda

Sölvi Blöndal.
Sölvi Blöndal. Ljósmynd/Alda Music

Sölvi segir í samtali við Morgunblaðið að viðskiptin eigi sér langan aðdraganda. „Fyrir um það bil tíu árum, þegar streymisveitur fóru að sækja í sig veðrið, töldu margir að sóknarfæri skapaðist fyrir minni tónlistarútgáfur. Raunin varð hins vegar sú að eftir því sem framboðið á streymisveitum hefur aukist, þá verður æ erfiðara fyrir smærri aðila að koma sér á framfæri,“ segir Sölvi.

Því segir hann ómetanlegt að hafa nú öflugan aðila á bak við sig í markaðssetningu íslenskrar tónlistar erlendis. „Ísland er lítið land en með gríðarlega mikið af hæfileikaríku tónlistarfólki. Okkar sýn er að auka útflutning tónlistar. Hvað er betra en að vinna með þeim stærstu og bestu í heiminum að því verkefni,“ spyr Sölvi.

Hafa þekkst í áraraðir

Hann segir að Alda Music hafi þekkt Universal í áraraðir enda unnið með þeim við að flytja þeirra vörur til Íslands. „Það góða við þennan samning er að áhuginn á Íslandi kemur beint frá helstu forsvarsmönnum félagsins, forstjóra og stjórnarformanni Universal, Lucian Grainge, Frank Briegmann, stjórnarformanni og forstjóra Universal Music Central Europe & Deutsche Grammophon, og Bob Roback, forstjóra Ingrooves-dreifingarfyrirtækisins (í eigu Universal Music Group). Það er stór hluti af því að við ákváðum að fara þessa leið. Við sannfærðumst um að þeir ætla sér stóra hluti með íslenska listamenn. Við erum sá aðili sem hefur sinnt íslenskri tónlist og grasrótinni hvað best í gegnum árin og fyrir mér er þessi sala sjálfsagt framhald.“

Spurður hvort alltaf hafi staðið til að selja fyrirtækið í heild sinni játar Sölvi því. „Hjá Universal er að finna marga af stærstu listamönnum í heimi, bæði í nútíð og fortíð. Það sem við kunnum er að finna nýtt hæfileikafólk og hlúa að því en þeir eru sérfræðingar í að kynna það á heimsvísu.“

Hætti að vera bransi

Eins og Sölvi útskýrir þá vill hann að íslenski tónlistarbransinn hætti að vera „bransi“ og verði iðnaður, líkt og annars staðar á Norðurlöndunum. „Besta dæmið er Svíþjóð. Þeirra útflutningur á tónlist hefur verið gríðarlega árangursríkur. Ekki bara útflutningur á stórum nöfnum heldur líka á lagahöfundum sem semja fyrir aðra. Þeir nálgast verkefnið skipulega og eru alltaf alþjóðlegir í sinni nálgun. Þess vegna gengur þeim vel. Það á reyndar ekki bara við um tónlist heldur margt annað eins og nýsköpunargeirann, tölvuleikjageirann o.fl.“

Sölvi segir að salan til Universal þýði að fjárfesting í íslenska tónlistariðnaðinum muni aukast. „Við stofnuðum Öldu fyrir sex árum en þá var engin starfandi tónlistarútgáfa af þessari stærðargráðu á landinu. Nú erum við komin í fasa tvö í verkefninu. Við höfum látið verkin tala og munum gera það áfram.“

Fjárfestingin sem Sölvi talar um snýst um að gefa fólki, lagahöfundum, framleiðendum, flytjendum og öðrum, aukin tækifæri til að einbeita sér að listssköpun. „Við tökum áhættuna og erum í þessu til langframa.“

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK