Sveinn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Brimi

Sveinn Margeirsson hefur verið sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá árinu 2020.
Sveinn Margeirsson hefur verið sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá árinu 2020. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Margeirsson, sveitarstjóri Skútustaðahrepps, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftlagsmála hjá Brimi, en hann mun taka formlega til starfa 1. ágúst. Greint er frá þessu í tilkynningu frá félaginu.

Hlutverk Sveins verður að skapa tækifæri til verðmætaaukningar í starfsemi og nærsamfélagi Brims og leiða í framkvæmd stefnu félagsins á sviði nýsköpunar, vöruþróunar og loftslagsmála. Viðfangsefni hans er að gæta að virðisauka í öllum starfsþáttum félagsins og heildarhagsmunum Brims til lengri tíma. Segir í tilkynningunni að Brim stefni að aukinni samvinnu við íslensk og alþjóðleg fyrirtæki, háskóla og rannsóknarstofnanir á sviði sjálfbærrar nýtingar hráefna og vistvæns rekstrar í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Sveinn Margeirsson er með doktorspróf í iðnaðarverkfræði og hefur lokið stjórnunarnámi við Harvard Business School. Sveinn hefur starfað sem sjálfstæður ráðgjafi á sviði nýsköpunar og stefnumótunar, einkum tengt sjávarútvegi og verðmætasköpun í landbúnaði. Hann gegndi starfi forstjóra, sviðsstjóra og deildarstjóra hjá Matís en þar er unnið að nýsköpun og verðmætaaukningu i matvælaiðnaði. Þá hefur Sveinn verið sveitarstjóri Skútustaðahrepps frá 2020.

Í störfum sínum hjá Matís var Sveinn meðal annars í forsvari fyrir örsláturhúsaverkefni, en Matís hafði skoðað mögu­leik­ann á slíkri slátrun í tengsl­um við verk­efni sem miða að því að koma land­búnaðar­vör­um frá fram­leiðend­um til neyt­enda með bein­um hætti, en slíkt geng­ur jafn­an und­ir nafn­inu beint frá býli. 

Komst málið í umræðu eftir bændamarkað á Hofsósi í Skagafirði þar sem meðal annars var selt kjöt frá bæn­um Birki­hlíð, en lömb­um hafði verið slátrað í sam­starfi við Matís og var það gert í sam­ræmi við verklag sem Matís hafði lagt til að gilti um ör­slát­ur­hús. Matvælastofnun var hins vegar ekki á því að reglum hefði verið fylgt, innkallaði kjötið og kærði Svein til lögreglu vegna málsins. Var að lokum gefin út ákæra, en Sveinn var að fullu sýknaður í héraðsdómi.

Eins og fyrr grein­ir var Sveinn for­stjóri Matís, en hon­um var sagt upp störf­um í des­em­ber árið 2018. Sam­kvæmt fund­ar­gerðum stjórn­ar, sem mbl.is fékk aðgang að árið 2019, mátti sjá að stjórn­in var ekki ein­róma um upp­sögn­ina og var ástæða upp­sagn­ar­inn­ar sögð trúnaðarbrest­ur, en deilt var um hvort Sveinn hefði upp­lýst stjórn­ina um heimaslátr­un­ar­verk­efnið. Var bók­un um umræðu um verk­efnið meðal ann­ars tek­in úr fund­ar­gerð áður en þær voru samþykkt­ar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK