Heimila kaupin en Pálmi þarf að selja í Icelandair

Sólarlandaferðir hafa lengi verið stór liður í sölu ferða hjá …
Sólarlandaferðir hafa lengi verið stór liður í sölu ferða hjá ferðaskrifstofum hérlendis.

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða, á grundvelli sáttar sem samrunaaðilar hafa gert við eftirlitið. 

Samkeppniseftirlitið greinir frá ákvörðuninni í dag en sett eru skilyrði fyrir samrunanum. Hin nýja samstæða þarf að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Icelandair hvað varðar eignatengsl en einnig með því að girða fyrir viðskipti á milli fyrirtækjanna.

Pálmi Haraldsson er eigandi Ferðaskrifstofu Íslands.
Pálmi Haraldsson er eigandi Ferðaskrifstofu Íslands. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Eigandi Ferðaskrifstofu Íslands er Pálmi Haraldsson, en hann er jafnframt áttundi stærsti hluthafi í Icelandair Group með 1,49% hlut í gegnum félögin Sólvöll ehf., og Nup holding S.A. Er honum skylt að selja hlut sinn í FÍ og verður óheimilt að hafa afskipti af félaginu hvað eignarhlutinn varðar þangað til.

„Með sáttinni skuldbindur sameinað fyrirtæki sig til þess að grípa til aðgerða sem koma í veg fyrir samkeppnishindranir sem samruninn myndi að öðrum kosti valda. Aðgerðirnar eru þessar:

1. Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að tryggja sjálfstæði þess gagnvart Icelandair samstæðunni, með því að girða fyrir viðskipti milli fyrirtækjanna nema í nánar skilgreindum tilvikum. Sömuleiðis verði eignatengsl á milli sameinaðs fyrirtækis og Icelandair rofin innan tiltekins tímafrests og girt fyrir beitingu atkvæðisréttar þangað til.

2. Sameinað fyrirtæki skuldbindur sig til að gefa öðrum ferðaskrifstofum færi á að nýta sætaframboð í flugi á vegum sameinaðs fyrirtækis með heildsölu á flugsætum. Í sáttinni eru þessir aðilar nefndir „endurseljendur“. Með því er keppinautum, og þar með neytendum, gefinn kostur á að njóta mögulegrar hagkvæmni sem af samrunanum getur hlotist að mati samrunaaðila. Ferðaskrifstofustarfsemi á vegum Icelandair nýtur ekki þessara réttinda.“

Með þessum samruna munu Heimsferðir, Úrval/Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir komin í eina sæng. 

Með samrunanum er bundinn endir á yfirráð Arion banka hf. yfir Heimsferðum, en þau yfirráð voru til þess fallin að hindra samkeppni, segir einnig í greinagerð Samkeppniseftirlitsins.

„Eftir sem áður mun Arion banki fara með stóran eignarhlut í sameinuðu fyrirtæki. Af þeim sökum er að mati Samkeppniseftirlitsins mikilvægt að bankinn gæti áfram að þeim sömu atriðum og fjallað er um í skilyrðum sáttarinnar fram að þeim tímapunkti þegar bankinn hefur selt allan eignarhlut sinn í sameinuðu fyrirtæki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK