Síminn hagnast um 746 milljónir

Eiginfjárhlutfall félagsins er 43,9%.
Eiginfjárhlutfall félagsins er 43,9%. mbl.is/Hari

Fjarskiptafyrirtækið Síminn hf. hagnaðist um 746 milljónir króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 2,9 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári.

Eignir félagsins námu í lok tímabilsins rúmum 70,4 milljörðum króna og hækkuðu lítillega milli ára en þær voru 69,7 milljarðar á sama tíma í fyrra.

Eigið fé símans er nú 30,9 milljarðar og lækkaði lítillega milli ára en það var rúmur 31 milljarður á sama tíma á síðasta ári.

Eiginfjárhlutfall félagsins er 43,9%

Árið fer ágætlega af stað

Orri Hauksson, forstjóri Símans segir í tilkynningu að árið fari ágætlega af stað og sé í takti við væntingar. „Allt í senn er hóflegur vöxtur í tekjum, EBITDA og EBIT milli ára á fyrsta fjórðungi. Við erum stolt af slíkri þróun í umbreytingaferlinu sem nú fer fram á samstæðunni og því harða samkeppnisumhverfi sem ríkir á mörkuðum fjarskipta og afþreyingar á Íslandi,“ segir Orri.

Hann segir einnig í tilkynningunni að ýmsir ytri þættir séu óvissu háðir, eins og jafnan sé, en þó í óvenjulega miklum mæli nú. „Stríðið í Úkraínu, hækkandi verðlag, þróun ferðamannaiðnaðar á Íslandi og breytingar á gengi krónunnar eru allt þættir sem ekki er hægt að sjá fyrir með vissu. Enn sem komið er hafa þessir þættir samanlagt haft lítil áhrif á rekstur Símans frá því sem gera mátti ráð fyrir og samkvæmt okkar mati má ekki vænta mikilla hreyfinga af slíkum völdum út árið. Þetta mat kemur meðal annars til af því að vissir ytri þættir hafa gagnverkandi áhrif og dempa þannig mögulegt heildarútslag í aðra hvora áttina. Hitt er ljóst, að keðja aðfanga verður áfram hæg af völdum heimsfaraldursins og nú einnig vegna hinna vopnuðu átaka. Hvort tveggja veldur töfum á afhendingu búnaðar. Við getum hins vegar stýrt og haldið jafnvægi í flestum öðrum þáttum rekstrarins og horfum því bjartsýn fram veginn að loknum ágætum fyrsta ársfjórðungi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK