Kaupmáttur á niðurleið

Kaupmáttur á Íslandi er á leið niður á við þó svo að hann sé enn mikill, að því er fram kemur í Hagsjá Landsbankans. Þar segir að launavísitalan hafi hækkað um 0,2% milli febrúar og mars samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.

„Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,1%, sem er eilítið lægri árstaktur en verið hefur síðustu þrjá mánuði,“ segir í Hagsjánni.

Þar kemur fram að verðbólga í mars hafi mælst 6,7% en árshækkun launavísitölu hafi verið 7,1%.
 
„Kaupmáttur launa jókst því um 0,4% milli marsmánaða 2021 og 2022 þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttur í mars var engu að síður 1,6% lægri en hann var í janúar 2022, en þá var kaupmáttur sá hæsti í sögunni.“

Launavísitalan hækkaði um 3,7% milli mánaða þegar áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda 1. janúar í fyrra og 1. janúar í ár.

„Nýjar tölur Hagstofunnar sýna að hækkunin á almenna markaðnum frá desember til janúar var 3,3% á meðan hún var 4,1% á þeim opinbera, 4,4% hjá ríkinu og 3,6% hjá sveitarfélögunum.“

Laun á almenna markaðnum hækkuðu áfram minna en á þeim opinbera ef litið er til launabreytinga hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli janúarmánaða 2021 og 2022.

„Launin hækkuðu um 6,9% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 8% á þeim opinbera, þar af 8,2% hjá ríkinu og 7,7% hjá sveitarfélögunum.“

Í Hagsjánni segir jafnframt að óvenju mikið bil hafi myndast milli launaþróunar á opinbera og almenna markaðnum í upphafi síðasta árs og virðist það ekki fara minnkandi.

„Í janúar 2021 hækkuðu laun á almenna markaðnum þannig um 2,9% en um 5,6% á þeim opinbera. Miðað við útgangspunkt í upphafi ársins 2015 hefur hækkun launa því verið mun meiri á opinbera markaðnum en á þeim almenna og opinberi markaðurinn verið leiðandi í launabreytingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK