Þáðu gjafir í tengslum við útboðið

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna og formaður fjárlaganefndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vínflöskur, flugeldur og konfektkassar voru meðal þeirra gjafa sem Bankasýsla ríkisins þáði frá aðilum í tengslum við söluna á hlut ríkisins Íslandsbanka. Þetta kom fram í svari Jóns Gunnars Jónssonar forstjóra Bankasýslunnar á opnum fundi fjárlaganefndar í morgun.

Þar hafði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og formaður nefndarinnar, spurt hvort að Bankasýslan, stjórn hennar eða starfsmenn hafi nýtt sér eða þáð boð, gjafir, risnur eða eitthvað slíkt í kjölfar eða aðdraganda beggja útboða.

Jón Gunnar svaraði því játandi og sagði einnig að fulltrúar á vegum stofnunarinnar hafi átt hádegis- og kvöldverði með ráðgjöfum. „En það er ekkert annað,“ bætti hann svo við.

Lárus Blöndal stjórnarformaður Bankasýslunnar kannaðist þó ekki við að hafa fengið gjafir.

„Ég hef ekkert fengið,“ sagði hann.

Vill minnisblað og ítarlegri upplýsingar

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata fór í kjölfarið fram á að fá formlegt minnisblað um gjafirnar og matarboðin, og kostnað vegna þeirra. 

Eyjólfur Ármannsson bað sömuleiðis um upplýsingar um hvaða staðir þetta voru og hversu dýrar þessar máltíðir og vínflöskur voru.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK