Hagar skila fjögurra milljarða hagnaði

Tekjur af dagvörusölu, í Bónus og Hagkaup, jukust um 6% …
Tekjur af dagvörusölu, í Bónus og Hagkaup, jukust um 6% á síðasta fjórðungi rekstrarársins. Ljósmynd/Aðsend

Verslunarfyrirtækið Hagar hagnaðist um fjóra milljarða króna á rekstrarárinu 2021 – 2022 sem lauk 28. febrúar sl. Breytingin milli ára er 59% en félagið hagnaðist um rúma 2,5 milljarða árið á undan.

Eignir Haga jukust á tímabilinu. Þær voru 65,2 milljarðar í lok tímabilsins en 61,6 milljarðar árið á undan.

Eigið fé fyrirtækisins er nú 26,7 milljarðar króna samanborið við 25,2 milljarða á síðasta ári.

Eiginfjárhlutfall Haga er 41% og helst nær óbreytt milli ára.

Skilvirkni hefur aukist

Finnur Oddsson forstjóri félagsins segir í tilkynningu að heilt yfir þá hafi starfsemi Haga gengið vel á síðastliðnu rekstrarári. Skilvirkni rekstrar hafi aukist jafnt og þétt og allar helstu kennitölur styrkst í síðustu uppgjörum. Styrkinguna megi að hluta rekja til aukinnar innlendrar eftirspurnar en ekki síður er hún að sögn Finns merki um að fjölmörg umbótaverkefni frá haustmánuðum 2020 skili nú beinum rekstrarlegum ávinningi.

Kröftug tekjuaukning

Um síðasta ársfjórðung í rekstrinum segir Finnur hann hafa gengið vel og einkennst af áframhaldandi kröftugri tekjuaukningu og góðri afkomu. Vörusala hafi verið 35,3 milljarðar króna sem sé aukning um ríflega 15% frá fyrra rekstrarári. EBITDA hafi verið 2.442 milljónir og hagnaður hafi verið 724 milljónir króna sem sé nokkuð umfram áætlanir stjórnenda.

Finnur Oddsson forstjóri Haga.
Finnur Oddsson forstjóri Haga. Kristinn Magnússon

Finnur segir að niðurstaða fjórðungsins sé ánægjulegur lokahnykkur á gott rekstrarár Haga, þar sem tekjur ársins námu 135,8 milljörðum króna, EBITDA 10,5 milljörðum og hagnaður hafi verið fjórir milljarðar króna, sem sé umtalsverð aukning frá fyrra rekstrarári. „Við erum ánægð með rekstur félagsins á fjórðungnum og á árinu í heild, en afkoma allra stærstu rekstrareiningar Haga, þ.e. Bónus, Hagkaup og Olís, batnaði á milli ára."

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK