Málinu haldið í heljargreipum upphlaupa og rangra fullyrðinga

Íslandsbanki.
Íslandsbanki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það voru ýmsar brotalamir á útboði Bankasýslunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka í mars sl. Aftur á móti er engin innstæða fyrir tali um spillingu auk þess er óljóst hvað sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis ætti að rannsaka umfram það sem Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlit Seðlabankans hafa þegar hafið rannsókn á.

Þetta segir þeir Hörður Ægisson, ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja á visir.is, og Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, en þeir eru gestir í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála, sem stýrt er af Gísla Frey Valdórssyni, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu.

Örn segir að hluti þeirra sem harðast hafa gengið í gagnrýni sinni á útboðið, til dæmis meðlimir stjórnarandstöðunnar, hafi ekki þurft að svara þeim rökum sem komið hafa fram í málinu. Þá segir Hörður að umfjöllunin um málið hafi að miklu leyti einkennst af upplýsingaóreiðu, þar sem meðal annars hafa verði fluttar rangar fréttir af því að þátttakendur í útboðinu hafi selt hlut sinn nokkrum dögum eftir útboðið og aðrar fréttir sem eiga ekki við rök að styðjast.

„Við erum að fara á mis við það sem gæti verið býsna gagnleg umræða […] um það hvað fór úrskeiðis þarna, hvað við ætlum að varast næst, hvernig við eigum að selja svona hluti, þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði og fleira. Við gætum lært ýmislegt af þessu. En þessi umræða mun ekki fara fram meðan málinu er haldið í heljargreipum upphlaupa og rangra fullyrðinga,“ segir Örn í þættinum.

Hörður bendir á að minniblað Bankasýslunnar, sem kynnt var opinberlega í janúar, þar sem fjallað var um mismunandi aðferðir við sölu eignarhlutans í bankanum, hafi verið nokkuð ítarlegt og síðar kynnt fjárlaganefnd nánar, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu fyrr í apríl. Örn bætir því við að það minnisblað hefði átt að vera grunnur að frjórri umræðu þingnefnda sem fjölluðu um málið.

Báðir eru þeir þó sammála um að betur hefði farið á því að fara í almennt útboð á hlutunum þar sem almenningi gefst kostur á að taka þátt og fjárfesta í bankanum. Það hefði þó tekið lengri tíma, verið dýrara og að öllum líkindum hefðu tekjur ríkisins fyrir söluna orðið minni. Aftur á móti hefði það verið fórnarkostnaðurinn fyrir pólitíska sátt við ferlið.

Hægt er að hlusta þáttinn í heild sinni hér fyrir neðan:

Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, og Hörður Ægisson, ritstjóri viðskiptamiðilsins …
Örn Arnarson, ritstjórnarfulltrúi á Viðskiptablaðinu, og Hörður Ægisson, ritstjóri viðskiptamiðilsins Innherja á visir.is, eru gestir í hlaðvarpi Þjóðmála.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK