Iðunn leiðir 850 milljóna fjárfestingu í Köru

Stofnendur Köru connect, þau Þorbjörg Helga og Hilmar Geir Eiðsson.
Stofnendur Köru connect, þau Þorbjörg Helga og Hilmar Geir Eiðsson.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Kara connect hefur safnað 6 milljónum evra, eða sem nemur um 850 milljónum króna, í fjármögnunarferli sem leitt var af Iðunni framtakssjóði.Eftir fjármögnunina verður Iðunn stærsti hluthafi Köru, en fyrir höfðu meðal annars Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Crowberry capital og aðrir einkafjárfestar fjárfest í félaginu. Kara býður upp á lausnir fyrir fjarheilbrigðisþjónustu.

Í tilkynningu vegna fjárfestingarinnar segir að fjármögnunin verði nýtt til að byggja upp sölu- og markaðsteymi fyrir erlenda markaði. Segir þar jafnframt að Kara bjóði upp á aðgengislausn sem eigi vel við heilbrigðis- og velferðarsviðið.

Pétur Richter fjárfestingastjóri Iðunnar mun taka sæti í stjórn Köru í kjölfar fjármögnunarinnar. Í tilkynningunni er haft eftir honum að stefnan sé nú sett á frekari landvinninga erlendis.

Iðunn framtakssjóður slhf. er sérhæfður framtakssjóður sem leggur áherslu á fjárfestingar á sviði lífvísinda og heilsutækni. Sjóðurinn er 7,3 milljarðar króna að stærð. Fjárfestingartímabil Iðunnar er 5 ár og horft er til fyrirtækja með áætlanir um viðskiptaþróun og stjórnendagetu til að stýra vexti og undirbúa félögin í næsta fasa uppskölunar. Kara Connect er þriðja fjárfesting Iðunnar en áður hefur Iðunn fjárfest í samheitalyfjaframleiðandanum Coripharma og lyfjaþróunarfélaginu EpiEndo Pharmaceuticals.

Kara var stofnað árið 2015 af Þorbjörgu Helgu Vigfúsdóttur fyrrverandi borgarfulltrúa og námssálfræðingi og Hilmari Geir Eiðssyni hugbúnaðarsérfræðing.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK