Öryggismiðstöðin verðlaunuð fyrir aðlögunarhæfni

Stjórnendur Öryggismiðstöðvarinnar ánægð með verðlaunin frá vinstri Ómar Brynjólfsson, Auður …
Stjórnendur Öryggismiðstöðvarinnar ánægð með verðlaunin frá vinstri Ómar Brynjólfsson, Auður Lilja Davíðsdóttir, Ragnar Jónsson og Ómar Örn Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Öryggismiðstöðin hlýtur Þekkingarverðlaun Félags viðskipta- og hagfræðinga í ár. Verðlaunin voru í þetta skiptið veitt því fyrirtæki sem að mati dómnefndar þótti hafa sýnt einstaka aðlögunarhæfni á umbrotatímum.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin.

Í mati dómnefndar segir að Öryggismiðstöðin hafi aðlagast breyttum aðstæðum vegna heimsfaraldurs Covid-19 vel með því að leita nýrra verkefna í stað þeirra sem glötuðust. Við það hafi myndast ný þekking. 

„Fyrirtækið tók að sér margvísleg verkefni sem tengdust [Covid-19] en meðal stærri verkefna var sýnataka fyrir heilbrigðisyfirvöld auk þess sem fyrirtækið opnaði 4 sýnatökustöðvar fyrir hraðpróf,“ segir í matinu. 

Ragnar Jónsson forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar tekur við verðlaununum úr hendi Forseta …
Ragnar Jónsson forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar tekur við verðlaununum úr hendi Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Ljósmynd/Aðsend

Haft er eftir Ragnari Þór Jónssyni, forstjóra Öryggismiðstöðvarinnar, í tilkynningu, að fyrirtækið sé stolt af því að hafa tekið þátt í að halda samfélaginu gangandi á tímum Covid-19, „þar sem hægt var með stuttum fyrirvara að þjálfa og sinna sýnatökum, halda landamærunum opnum og á seinni stigum afgreitt hundruð þúsunda hraðprófa í tengslum við fjölbreytta viðburði víðsvegar í samfélaginu.“ 

Fjöldi tilnefninga bárust FVH og voru Öryggismiðstöðin auk Lyfju og Friðheima í úrslitum en þau tvö síðar nefndu hlutu viðurkenningu í vali.

Það var mat dómnefndar að öll þrjú fyrirtækin hefðu sýnt mikla aðlögunarhæfni á umbrotatímum og hvert með sínu lagi sýnt umhyggju og útsjónarsemi í viðbrögðum sínum.

Í dómnefnd sátu Helga Valfells stofnandi og eigandi Crowberry Capital, Þór Sigfússon stofnandi sjávarklasans, Ólöf Skaftadóttir ritstjóri Innherja, Bjarni Herrera framkvæmdastjóri hjá CICERO og stjórnarmaður í FVH ásamt Telmu Eir Aðalsteinsdóttur framkvæmdastjóri FVH.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK