Stríð skall á í miðju ráðningarferli

Andrii Zhuk leiðir teymið en ásamt honum voru Oleksandr Kraplyuk …
Andrii Zhuk leiðir teymið en ásamt honum voru Oleksandr Kraplyuk og Oleksandr Melnichenko ráðnir.

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Tix Ticketing hefur ráðið þrjá reynda úkraínska forritara til starfa. Ráðningarferlið hófst áður en Rússar réðust inn í landið en fyrirtækið ákvað að láta stríðið ekki koma í veg fyrir ráðningarnar og hafa forritararnir þrír því hafið störf. Tveir þeirra vinna fyrir Tix frá Úkraínu en hinn þriðji er farinn úr landi.

„Við erum búin að leita leiða til þess að efla hugbúnaðarteymið okkar í einhverja mánuði. Það hefur eiginlega ekki gengið vel að fá reynda forritara hérna á Íslandi. Því ákváðum við að líta út fyrir Ísland og skoða þessa möguleika,“ segir Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Tix, í samtali við mbl.is.

Aðspurð segir Hrefna því að hvatinn fyrir ráðningunum sé ekki lægri launakostnaður, jafnvel þó úkraínskir kjarasamningar geri það að verkum að ódýrara sé að hafa úkraínska starfsmenn í vinnu en íslenska.

„Við erum búin að auglýsa eftir forriturum hérna og við viljum enn fá íslenska forritara í vinnu. Það er mikill kostur að hafa forritarana hér vegna þess að við erum með höfuðstöðvar Tix hér. Allir okkar núverandi forritarar og flestir okkar vöruhönnuðir eru hér, við myndum klárlega vilja hafa íslenska forritara þó að kostnaðurinn sé aðeins meiri.“

Vildu ekki bakka út

Nokkrum vikum áður en stríð skall á í Úkraínu hófst ráðningarferlið.

„Þrátt fyrir að aðstæður þessara nýju forritara hafi breyst þá ákváðum við samt að keyra þetta áfram, við vildum ekkert bakka út úr þessu,“ segir Hrefna um það. „Svo leist okkur bara mjög vel á þá og við vildum alls ekki bakka út úr þessu, sérstaklega vegna aðstæðnanna í Úkraínu. Við viljum styðja við þessa starfsemi á meðan við erum að efla þeirra teymi.“

Aðspurð segir Hrefna ekki alvarlegt stríðsástand á því svæði sem forritararnir búa á. Tveir búa í nágrenni við Kænugarð en eins og áður segir er sá þriðji farinn úr landi. Úkraínsku forritararnir vinna með íslenska teyminu og er starfseminni því stýrt frá móðurlandi Tix, Íslandi.

Stefnið þið inn á Úkraínskan markað?

„Nei, í rauninni ekki. Við erum núna í átta löndum og höfum ekki hugsað okkur að bæta við nýjum löndum eins og er. Við horfum samt alltaf í kringum okkur ef einhver tækifæri gefast. Ef þetta vekur  einhverja athygli á okkur myndum við alveg skoða það. Það er samt ekki stefnan í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK