Hefur áhyggjur af þeim sem komast ekki inn

„Ég hef fremur áhyggjur af þeim sem komast ekki inn …
„Ég hef fremur áhyggjur af þeim sem komast ekki inn á markaðinn,“ segir Ásgeir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Staða fólks á fasteignamarkaði er orðinn ráðandi þáttur hvað varðar lífskjör í landinu. Þau sem komin eru inn á fasteignamarkaðinn eru almennt í mun betri stöðu en þau sem ekki hafa náð að festa kaup á fasteign. Þetta segir seðlabankastjóri sem í dag kynnti hækkun á stýrivöxtum um eina prósentu. Slík hækkun hefur ekki sést hér á landi frá hruni.

„Þetta þrengir að heimilunum að einhverju leyti, aðallega hvað varðar fasteignakaup,“ segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri um ákvörðunina.

Hann ræddi við mbl.is eftir kynninguna í morgun.

Aðspurður segist Ásgeir ekki telja að einstaklingar muni missa húsnæði sitt vegna hækkunarinnar þó svo að hún muni leiða til hærri afborgana af húsnæðislánum með breytilegum vöxtum. Hann bendir á að heimilin í landinu hafi aldrei staðið jafn vel ef litið er til kaupmáttar og eignastöðu. Þannig hafi það ekki verið í kjölfar hrunsins þegar atvinnuleysi var mikið og mörg voru með verðtryggð lán.

„Ég hef fremur áhyggjur af þeim sem komast ekki inn á markaðinn,“ segir Ásgeir.

„Staða á fasteignamarkaði er farin að verða mjög ráðandi þáttur varðandi lífskjör í landinu. Þar er fólk í mjög misjafnri stöðu og það er áhyggjuefni. Þeir sem komu inn á fasteignamarkaðinn fyrir einu eða tveimur árum eru bara í mjög góðum málum, hafa fengið hækkun á fasteignaverði, neikvæða raunvexti og hækkun launa.“

„Fólk þarf að fá þak yfir höfuðið

Ásgeir segir húsnæðisskort undirliggjandi. Það má því rétt eins búast við því að ef þrengt verður að fasteignalánum muni leiguverð einfaldlega hækka.

„Fólk þarf að fá þak yfir höfuðið. Þetta vandamál verður bara leyst með auknu framboði og það er vonandi í pípunum að við sjáum það,“ segir Ásgeir sem vill með hækkun vaxta koma í veg fyrir að fólk komi inn á fasteignamarkaðinn á „allt of háu verði.“ 

Fasteignaverð hefur hækkað verulega að undanförnu enda hafa vextir verið fremur hagstæðir síðan Seðlabankinn hóf að lækka vexti fyrir rúmum tveimur árum. Síðan þá hafa þeir aftur verið hækkaðir í skrefum.

Erfitt að ná fram auknum kaupmætti

Ásgeir telur að nauðsynlegt sé að „ná tökum“ á fasteignamarkaðnum.

„Við verðum að ná tökum á fasteignamarkaðnum. Við verðum að breyta fasteignamarkaðnum úr því að vera verðbólguvaldur í að styðja við verðstöðugleika,“ segir Ásgeir.

Verðbólga hér á landi mældist 7,2% í apríl og er stýrivaxtahækkunin viðbragð við henni. Ásgeir bendir þó á að laun hafi hækkað meira en verðbólga. Þá hafi kaupmáttur aukist ár frá ári og sé enn að aukast.

„Úkraínustríðið hefur ekki aðeins valdið hækkun á olíu og málmum heldur einnig matvælum. Það mun koma koma illa við okkur líkt og alla heimsbyggðina. Við þessar aðstæður er einfaldlega erfitt að ná fram auknum kaupmætti,“ segir Ásgeir.

Hann bendir á að lægst launuðu hóparnir í samfélaginu séu að koma verst út úr ástandinu.

„Fókusinn ætti kannski að vera á þá núna.“

„Við erum alla vega ekkert of sein

Hefðuð þið átt að grípa fyrr inn í?

„Já og nei,“ segir Ásgeir sem bendir á að Seðlabankinn hafi hækkað vexti fyrstur vestrænna seðlabanka í maí í fyrra, þá um 0,25%. Hann bætir því við að væntingar hafi staðið til þess að hert skilyrði fyrir lántöku, sem Fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans kom á í fyrra, myndu hafa meiri áhrif. Sömuleiðis hafi stríðið í Úkraínu verið óvænt og valdið neikvæðum áhrifum.

„Við erum alla vega ekkert of sein en verðbólga er aðeins 5% ef litið er framhjá fasteignamarkaðinum. Við erum í góðri stöðu til þess að ná niður verðbólgu þrátt fyrir allt. Ég veit að það er ekki gaman að borga meira í hverjum mánuði [af húsnæðislánum] en staða heimilanna er mjög góð. Ég held að heimilin þoli álagið af því að ná verðbólgunni niður og í framhaldi af því getum við vonandi lækkað vexti aftur,“ segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK