Landsbankinn greiðir 20,6 milljarða í arð á árinu

„Góður rekstur og sterk staða gerir bankanum kleift að greiða …
„Góður rekstur og sterk staða gerir bankanum kleift að greiða 20,6 milljarða króna í arð á árinu,“ er haft eftir Lilju Björk bankastjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 nam 3,2 milljörðum króna eftir skatta samanborið við 7,6 milljarða króna hagnað á sama tímabili í fyrra. Að sögn bankastjórnas gerir þetta bankanum kleyft að greiða 20,6 milljarða króna í arð á árinu.

Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 4,7% á ársgrundvelli, samanborið við 11,7% á sama tímabili í fyrra.  

„Hreinar vaxtatekjur námu 10,3 milljörðum króna samanborið við 8,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður sem er 19% hækkun á milli tímabila. Hreinar þjónustutekjur Landsbankans námu 2,6 milljörðum króna samanborið við 2,1 milljarð króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur voru neikvæðar um 1 milljarð króna en voru jákvæðar um 5,1 milljarð króna á sama tímabili árið 2021. Virðisbreytingar útlána eru jákvæðar um 0,8 milljarða króna það sem af er ári samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 2,5 milljarða króna á sama tíma á síðasta ári,“ segir í tilkynningu frá Landsbankanum. 

Þar kemur jafnframt fram að vaxtamunur í hlutfalli af meðalstöðu eigna hafi numið 2,4% á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 en hann var 2,2% á sama tímabili í fyrra.

„Rekstrarkostnaður bankans var 6,7 milljarðar króna á tímabilinu samanborið við 6,6 milljarða króna á sama tímabili árið áður. Þar af voru laun og launatengd gjöld 3,8 milljarðar króna og standa í stað á milli tímabila. Annar rekstrarkostnaður var 2,9 milljarðar króna samanborið við 2,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður,“ segir í tilkynningunni.

Heildareignir nema 1.734 milljörðum

Heildareignir bankans jukust um 3,8 milljarða króna á tímabilinu og námu 1.734 milljörðum króna í lok fyrsta ársfjórðungs.

„Útlán jukust um 29 milljarða króna á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022, en útlánaaukninguna má bæði rekja til aukningar á lánum til einstaklinga og fyrirtækja. Í lok fyrsta ársfjórðungs voru innlán frá viðskiptavinum 922,6 milljarðar króna, samanborið við 900,1 milljarð króna í árslok 2021 og höfðu því aukist um 22,5 milljarða króna,“ segir í tilkynningunni. 

Þar kemur fram að eigið fé Landsbankans hafi verið 265,3 milljarðar króna þann 31. mars sl. og eiginfjárhlutfallið var 24,3%.

„Aðalfundur bankans, sem haldinn var þann 23. mars 2022, samþykkti tillögu bankaráðs um að greiða arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2021 að fjárhæð 14.409 milljónum króna og að greiðslan yrði tvískipt. Fyrri hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 7.323 var greidd þann 30. mars 2022. Síðari hluti arðgreiðslunnar að fjárhæð 7.086 verður greiddur þann 21. september 2022. Einnig samþykkti aðalfundurinn tillögu bankaráðs um sérstaka arðgreiðslu að fjárhæð 6.141 milljón króna og var hún greidd til hluthafa þann 28. apríl 2022. Arðgreiðslur frá árinu 2013 nema samtals 166,7 milljörðum króna.“

Lítil sem engin bein áhrif af stríðinu

Í tilkynningunni segir að bein áhrif af stríðsátökum í Úkraínu á áhættustöðu bankans séu lítil sem engin. Óbeinu áhrifin komi helst fram í breytingum á markaðsaðstæðum sem geta haft áhrif á viðskiptavini, aukinni verðbólgu á Íslandi og í helstu hagkerfum viðskiptalandanna,  auknu flökti á fjármálamörkuðum og auknum líkum á netárásum.

Í tilkynningunni er eftirfarandi m.a. haft eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans:

„Uppgjörið endurspeglar góða byrjun á árinu hjá Landsbankanum og sýnir stöðugan rekstur og sterka markaðsstöðu bankans. Hreinar vaxtatekjur jukust um 19% og hreinar þjónustutekjur um 28% og er árangurinn einkum vegna aukinnar markaðshlutdeildar og góðs árangur í eignastýringu og markaðsviðskipum. Þá er áfram góð afkoma hjá Landsbréfum eftir frábært ársuppgjör félagsins. Sveiflur á hlutabréfamörkuðum hafa á hinn bóginn neikvæð áhrif á uppgjör fjórðungsins en á móti vega jákvæðar virðisbreytingar. 

Góður rekstur og sterk staða gerir bankanum kleift að greiða 20,6 milljarða króna í arð á árinu en við arðgreiðsluna lækkar eiginfjárhlutfallið lítillega. Lausafjár- og eiginfjárstaða eru þó sem fyrr töluvert umfram kröfur eftirlitsaðila og er áfram gríðarsterk miðað við banka í Evrópu. Eftir vel heppnaðar skuldabréfaútgáfur fyrr á þessu ári er fjármögnunarþörf bankans á næstunni tiltölulega lítil, sem er mjög til bóta þegar farið er inn í enn eitt óvissutímabilið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK