Skortur á kokkum og þjónum

„Það eru allir á fullu að reyna að klára að …
„Það eru allir á fullu að reyna að klára að manna,“ segir Bjarnheiður. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Mikill skortur er á starfsfólki í sumar greinar innan ferðaþjónustunnar. Sérstaklega vantar kokka og framreiðslufólk fyrir sumarið á landinu öllu. Þetta segir Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við Morgunblaðið.

Það sé áskorun að ná að manna stöður áður en háannatíminn í ferðaþjónustunni hefjist.

Hún segist ekki hafa heildaryfirsýn yfir stöðuna enda sé erfitt að verða sér úti um nákvæmar tölur um ráðningar en hún hafi grennslast fyrir um stöðuna víða.

Bjarnheiður Hallsdóttir.
Bjarnheiður Hallsdóttir. mbl.is/RAX

„Það ríkir ekki neyðarástand og þetta hefur gengið, að hluta til, betur en við reiknuðum með. Þetta er misjafnt eftir því hvar við berum niður,“ segir Bjarnheiður og bætir við að til dæmis hafi gengið vel að manna skrifstofustörfin í ferðageiranum.

„Það er þáttur sem gleymist oft en það eru auðvitað þúsundir sem starfa við skipulagningu ferða, markaðssetningu, sölu og slíkt. Þar hafa flestir komið til baka í gömlu störfin sín.“ Henni hefur líka skilist að það hafi gengið vel að manna störf herbergisþerna víðast hvar.

„En það er skortur á kokkum og þjónum, almennur skortur á þessu fólki alls staðar.“

Spurð hvort þessi störf séu að miklu leyti mönnuð af erlendu starfsfólki segir Bjarnheiður að það sé nokkuð blandað en bætir þó við:

„Fólkið sem rekur hótelin og veitingastaðina er mikið að ráða erlenda starfsmenn. Það eru allir á fullu að reyna að klára að manna og leita allra leiða til þess og það er mjög mikið erlendis.“

Gengur betur ef húsnæði fylgir

Í þessu samhengi nefnir Bjarnheiður að húsnæðismál starfsfólksins skipti máli þegar kemur að ráðningum. „Fyrirtækjum sem geta boðið starfsfólki sínu upp á húsnæði gengur betur en hinum í þessu. Það skiptir í rauninni ekki máli hvar á landinu þau eru hvað það varðar.

Mörg af þessum hótelum í dreifðu byggðunum eru búin að koma sér upp húsnæði og gerðu það bara strax í upphafi vegna þess að það þýðir ekkert annað. Svo hafa hótel hér í bænum líka farið út í að kaupa íbúðir til þess að tryggja starfsemi sína. Það eru dæmi um það hér á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK