Meiri hækkanir en gert var ráð fyrir

Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarið ár.
Fasteignaverð hefur hækkað mikið undanfarið ár. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýlegar tölur frá Þjóðskrá um 2,7% hækkun íbúðaverðs á milli mars og apríl er meiri hækkun en hagfræðideild Landsbankans gerði ráð fyrir og vegna þessa hefur deildin hækkað verðbólguspá sína úr 7,6% upp í 7,7%.

Í nýrri Hagsjá frá hagfræðideildinni kemur fram að markaðurinn hafi verið farinn að sýna merki kólnunar á seinni hluta síðasta árs, en að sú staða hafi breyst og nú mælist 12 mánaða hækkun íbúðaverðs 22,3% og hækki örlítið frá því í mars þegar hún mældist 22,3%. Sérbýli hafa hækkað meira síðasta árið, eða um 25,7% samanborið við 21,5% hækkun á fjölbýli.

Raunverð ekki mælst jafn hátt frá aldamótum

Hagfræðideildin gaf út verðbólguspá fyrir maí í síðustu viku og þar var gert ráð fyrir 0,8% hækkun á vísitölu neysluverðs á milli mánaða og að verðbólga myndi mælast 7,6%. Þar sem húsnæði hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar síðustu mánuði hækkaði deildin spá sína upp í 0,9% milli mánaða og verðbólguna því í 7,7%.

Hagfræðideildin tekur fram að þó að meiri hækkanir hafi mælst hér á landi á 12 mánaða tímabili hefur raunverð íbúða aldrei mælst jafn hátt frá aldamótum. „Það segir okkur að íbúðir hafa aldrei verið jafn dýrar í samanburði við annað vöruverð. Íbúðir hafa einnig hækkað talsvert umfram byggingarkostnað - það hefur aldrei fengist jafn mikið fyrir íbúð og nú í samanburði við það sem kostar að byggja samkvæmt vísitölu byggingarkostnaðar.”

Verðhækkanir komnar nokkuð úr samhengi

Vegna þessa segir hagfræðideildin að hvatinn til uppbyggingar sé mikill núna. Bent er á að þó að raunverðið hafi aldrei verið hærra, þá séu íbúðir þó ekki orðnar jafn dýrar og þær voru árin 2005-2008 með tilliti til launa og þróunar þeirra. Það sé þó farið að muna litlu.

„Við sjáum því merki þess að íbúðaverðshækkanir séu komnar nokkuð úr samhengi við undirliggjandi stærðir sem bendir til þess að nú megi fara að vænta hófstilltari verðþróunar á íbúðamarkaði í takt við hærri vexti,“ segir í Hagsjá hagfræðideildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK