Play tapar um 1,7 milljarði á fyrsta ársfjórðungi

Tap flugfélagsins Play nam 11,2 milljónum dala á fyrstu þremur mánuðum ársins 2022 en rekstartap fyrir fjármagnsliði nam, á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, um 13,3 milljónum Bandaríkjadala. Það er jafnvirði um 1,7 milljarði króna á núverandi gengi. Tapið eykst lítillega frá síðasta ársfjórðungi síðasta árs.

Tekjur félagsins á fyrsta ársfjórðungi námu um 9,6 milljónum dala. Í uppgjörstilkynningu félagsins kemur fram að Ómíkrón-afbrigði kórónuveirunnar hafi haft áhrif á tekjur á ársfjórðungnum og stríðið í Úkraínu hefði haft þau áhrif að olíuverð hækkaði undir lok fjórðungsins, sem hvort tveggja hefði haft neikvæð áhrif á fjárhagslega afkomu félagsins.

Tekjur félagsins af fargjöldum námu um 7,1 milljón dala en tekjur af aukaþjónustu námu um um 2,2 milljónum. Launakostnaður er stærsti útgjaldaliður félagsins, um 4,6 milljónir dala, kostnaður af eldsneyti var um 4,1 milljón dala og leiga á flugvélum nam um 3,4 milljónum dala.

Birgir Jónsson, forstjóri Play, segir í uppgjörstilkynningu að einingakostnaður, að frátöldum eldsneytiskostnaði, fari lækkandi með auknum umsvifum og félagið gerir ráð fyrir að skila jákvæðri rekstrarafkomu á síðari hluta þessa árs.

Gengið aldrei lægra

Gengi hlutabréfa í Play var í lok dags í gær 19,6 kr. á hlut, og hefur aldrei verið lægra frá því að félagið var skráð á markað í júlí í fyrra. Gengi félagsins var þá 24,6 kr. á hlut. Það fór hæst upp í 29,2 kr. á hlut um miðjan október og var um 23 krónur um áramót. Í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu í lok febrúar tók gengið dýfu niður á við og fór lægst í 20,1 kr. á hlut fyrstu vikuna í mars. Gengið hækkaði þó aftur og var komið upp í 25,3 kr. síðla í apríl, en hefur á liðnum mánuði lækkað jafnt og þétt – og sem fyrr segir ekki verið lægra en nú. Gengið hefur þannig lækkað um 21,8% á einum mánuði og 15,7% það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK