Orkusalan sektuð fyrir að brjóta gegn góðum viðskiptaháttum

Málið varðar kvörtun Orku nátturunnar yfir viðskiptaháttum Orkusölunnar en ON …
Málið varðar kvörtun Orku nátturunnar yfir viðskiptaháttum Orkusölunnar en ON taldi að Orkusalan hefði fært viðskiptavini þess yfir í viðskipti sín án samþykkis viðkomandi viðskiptavina. Ljósmynd/Colourbox

Neytendastofan sektaði nýverið Orkusöluna um 400.000 kr. fyrir að hafa brotið gegn góðum viðskiptaháttum. 

Fram kemur á vef Neytendastofu að stofnuninni hafi borist kvörtun frá Orku Náttúrunnar (ON) vegna viðskiptahátta Orkusölunnar. Málið varðaði annars vegar flutning tiltekinna viðskiptavina ON yfir til Orkusölunnar án fyrirliggjandi samþykkis viðskiptavinanna og hins vegar upplýsingagjöf Orkusölunnar til nýrra viðskiptavina. 

Gat ekki sýnt fram á að notendur hefðu viljað flytja viðskiptin

Í svörum Orkusölunnar kom fram að um tímabundnar markaðsaðgerðir hafi verið að ræða þar sem nýjum notendum var boðið tilboð. Þeir notendur sem þáðu tilboðið og vildu færa sig yfir í viðskipti til Orkusölunnar voru skráðir niður og í framhaldinu leitaði Orkusalan upplýsinga um umrædda notendur og tilkynnti um söluaðilaskiptin til dreifiveitu. Samhliða tilkynningunni um söluaðilaskipti var notendum sendur staðfestingarpóstur þar sem þeir voru boðnir velkomnir í viðskipti við Orkusöluna. Í staðfestingarpóstinum hafi komið fram upplýsingar um félagið ásamt tilvísun til viðskiptaskilmála þar sem væri að finna nánari upplýsingar um fyrirkomulag greiðslna, afhendingu, uppsögn samnings o.fl., þar á meðal að greiðsla fyrsta reiknings væri talin formleg staðfesting á viðskiptasambandinu, að því er segir á vef Neytendastofu.

Þá kemur fram, að við úrlausn málsins hafi Orkusalan ekki sýnt fram á að upplýsingagjöf vegna fjarsölunnar hafi verið framkvæmd með fullnægjandi hætti. Þá hafi Orkusalan ekki getað sýnt fram á að notendurnir hafi viljað flytja viðskipti sín.

Ekki fallist á það að greiðsla fyrsta reiknings sé staðfest gildi samnings

„Í ljósi framangreinds komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að Orkusalan ehf. hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að færa viðskiptavini án upplýsts samþykkis þeirra. Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að félagið hafi brotið gegn góðum viðskiptaháttum með því að fullnægja ekki upplýsingaskyldu sinni gagnvart nýjum viðskiptavinum við og í kjölfar fjarsölu. Loks vísar stofnunin til þess að ekki sé hægt að fallast á sjónarmið Orkusölunnar að með greiðslu fyrsta reiknings sé staðfest gildi samnings.

Taldi stofnuninni rétt að banna félaginu að viðhafa umrædda viðskiptahætti og taldi rétt með hliðsjón af aðstæðum í málinu að leggja á félagið sekt að fjárhæð 400.000 kr.,“ segir Neytendastofa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK