„Talsverð lækkun“ enn inni hér á landi

Heimsmarkaðsverð á Brent-hráolíu hefur lækkað skart í dag og í …
Heimsmarkaðsverð á Brent-hráolíu hefur lækkað skart í dag og í gær. Framkvæmdastjóri FÍB segir lækkun síðustu vikna skila sér hægt í lækkanir hér á landi. AFP

Í gær lækkaði heimsmarkaðsverð á Brent-Norðursjávarolíu um 9,5% og fór niður í 102,77 Bandaríkjadali á tunnu. Í dag hefur verðið svo sveiflast nokkuð, en eftir hádegi fór það að lækka nokkuð og hefur lækkað um 3,3% og fór undir 100 dali á tunnu og hefur ekki verið lægra frá því í lok apríl.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir olíuhækkanir fyrr á árinu hafa komið skart fram hér á landi, en að verðlækkanir fylgi hægt þegar heimsmarkaðsverð lækki. Segir hann að inni ætti að vera lækkun upp á um 20 krónur hér á landi.

Eftir að heimsmarkaðsverð á Brent-olíunni hafði lægst verið undir 70 dölum fyrir áramót tók það að hækka í janúar. Það var svo 8. mars sem verðið fór hæst í tæplega 128 dollara á tunnu. Eftir það sveiflaðist verðið nokkuð, en frá því í byrjun maí tók verðið að hækka og fór í byrjun júní upp í um 123 dali á tunnu. Frá 8. júní hefur heimsmarkaðsverðið verið á niðurleið og í gær lækkaði það sem fyrr segir um 9,5% og í dag stendur lækkunin í 3,3% til viðbótar.

Runólfur Ólafsson, formaður FÍB.
Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. mbl.is/Árni Sæberg

Hægt brugðist við lækkunum undanfarið

Runólfur segir að þrátt fyrir lækkun á heimsmarkaði undanfarin hafi eldsneytisfyrirtækin lítið brugðist við þangað til í morgun að verð hafi lækkað á útsölustöðum hér. Þá lækkaði N1, ÓB og Olís lítrann um 2,5 krónur á meðan Orkan hafði lækkað um 0,5 krónur. „Við gagnrýnum það fornkveðna. Menn eru fljótari upp en niður, en þetta skiptir fólk verulegu máli því hver króna vegur mikið,“ segir Runólfur. Bendir hann á þessi hæga breyting hér sé ekki í anda við það sem sjáist á nágrannamörkuðum. Runólfur segir að freystivandi gæti verið til staðar yfir háönn í ferðalögum, en hann vilji þó ekki gera mönnum það upp. Vandamálið sé hins vegar að í fákeppni geti verið þægilegt að stilla verðið við aðra frekar en að elta markaðsverðið.

„Innistæða fyrir allavega 20 kr lækkun“

Runólfur segir núverandi útsöluverð bensínstöðva á bæði bensíni og dísilolíu ekki endurspegla verðið á Brent-hráolíunni. „Það er inni talsverð lækkun,“ segir hann og bendir á að viðmiðunarverð hjá N1 hafi verið 328,9 krónur á lítra í byrjun júní og að þegar tekið er mið af þróun á heimsmarkaðsverði og gengi ætti verðið í dag jafnvel að vera lægra.Í hádeginu kostaði lítrinn á fullu verði 349,5 hjá N1. „Það er innistæða fyrir allavega 20 kr lækkun,“ segir Runólfur.

Spurður um eðlilegan viðbragðstíma til verðlækkana vísar Runólfur aftur til þess að sér finnist olíufyrirtækin hér á landi bregðast hægt við. „Það er eðlileg krafa að þessu sé skilað aftur til neytenda sem er að eiga sér stað á heimsmarkaði.“ Hann tekur fram að hingað til hafi Costco veitt talsvert aðhald, en að hann eigi enn eftir að sjá þá bregðast við þessum lækkunum sem nú eigi sér stað.

Rætt var við Runólf fyrir hádegi og hefur olíuverðið sem fyrr segir lækkað um 3,3% síðan þá.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK