Fyrsta brugghúsið komið með leyfi til bjórsölu

Hér má sjá stofnendur Smiðjunnar fagna þessum áfanga.
Hér má sjá stofnendur Smiðjunnar fagna þessum áfanga. Ljósmynd/ Smiðjan brugghús

Smiðjan brugghús, í Vík,  er fyrsta brugghúsið sem fær í hendurnar leyfi til þess að selja bjór á framleiðslustað í samræmi við breytt lög um smásölu áfengis. Fyrsti bjórinn verður seldur klukkan tólf að hádegi á morgun. 

„Það er meiriháttar að geta loksins farið að selja okkar vöru og að það sé ekki lengur ólöglegt,“ segir Sveinn Sigurðsson, einn stofnenda Smiðjunnar. 

Munu gera sérstakt rými fyrir söluna

Hann bendir á að meirihluti þeirra sem heimsæki brugghúsið séu erlendir ferðamenn, sem geti nú loks tekið bjór með sér heim og kynnt fyrir vinum sínum og bjóráhugamönnum í sínu heimalandi. 

„Við erum með veitingastað og bar. Í augnablikinu verður smásölunni bara bætt við barinn. Við erum að stækka brugghúsið og auka framleiðslugetuna um helming. Við ætlum þá í leiðinni að útbúa sérstakt rými fyrir söluna.“

Erlendir ferðamenn vilja geta keypt bjór og kynnt hann fyrir …
Erlendir ferðamenn vilja geta keypt bjór og kynnt hann fyrir bjóráhugamönnum í heimalandi sínu.

Vildi svo heppilega til að sveitarstjórn kom saman

Frumvarp um smásölu bjórs af framleiðslustað var einnig lagt fram á síðasta þingi en náði ekki fram að ganga. Sveinn viðurkennir að hafa allt eins átt von á því að örlög frumvarpsins yrðu þau sömu í þetta skipti. 

Sótt var um leyfi fyrir Smiðjuna um leið og eyðublöðin birtust á netinu. „Það hitti síðan svo skemmtilega á að það var akkúrat sveitarstjórnarfundur í seinustu viku, en vanalega eru sveitarstjórnirnar í fríi á þessum tíma. Þá var þetta samþykkt.“

Bjórinn langbestur ferskur

Sveinn er ekki viss um að því fylgi sérstakt samkeppnisforskot, þó Smiðjan hafi náð leyfinu á undan öðrum brugghúsum. Hann er þó sannfærður um að þessu skrefi fylgi mikil tækifæri, bæði tekjumöguleikar og kynningarmöguleikar. 

„Við höfum verið að bjóða upp á kynningarferðir um brugghúsið þar sem fólk getur smakkað bjórinn, en svo getur það ekki keypt hann af okkur að loknum kynningum. Við höfum þurft að benda því á ríkið [ÁTVR] , en þar færðu bjórinn ekki yngri en vikugamlan.“

Bjórinn sem verður til sölu á morgun verður eins til tveggja daga gamall bjór, að sögn Sveins. „Bjór er ferskvara, hann er langbestur þegar hann er alveg nýr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK