Tap hjá Sjóvá á öðrum ársfjórðungi

Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá
Hermann Björnsson, forstjóri Sjóvá mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggingarfélagið Sjóvá tapaði 153 milljónum á öðrum ársfjórðungi, en tapið helgast af neikvæðri afkomu af fjárfestingarstarfsemi félagsins. Afgangur af vátryggingarstarfsemi var einnig nokkuð undir afgangi starfseminnar á sama tíma í fyrra.

Hermann Björnsson, forstjóri félagsins, segir í tilkynningu vegna uppgjörsins að niðurstaðan sé viðunandi. Talsverður vöxtur var í iðgjöldum á fyrirtækjasviði sem jukust um 22% frá sama tíma í fyrra, en á einstaklingssviði var samdráttur upp á 5%.

Í tilkynningunni kemur fram að tapið á fjárfestingastarfseminni skýrist af því að skráð hlutabréf hafi lækkað umtalsvert á tímabilinu. Upp á móti því tapi vegur þó að virði óskráðra eigna hefur aukist um 1,7 milljarða á fjórðungnum.

Þegar horft er til fyrstu sex mánaða ársins hefur vátryggingastarfsemi fyrirtækisins skilað 598 milljóna hagnaði fyrir skatta og fjárfestingastarfsemi skilað 476 milljóna hagnaði fyrir skatta og heildarafkoma félagsins á fyrri hluta ársins verið jákvæð um 901 milljón.

Félagið gerir ráð fyrir óbreyttum horfum fyrir þetta ár og að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði á bilinu 1.400-1.800 milljónir. Horfur til næstu 12 mánaða gera ráð fyrir að afkoma af vátryggingastarfsemi fyrir skatta verði um 2.200 milljónir. Þá segir í tilkynningunni að fylgst sé grannt með umferðartölum milli mánaða þar sem aukin umferð eykur líkur á tjónum. Hefur umferð um hringveginn á síðustu þremur mánuðum mælst meiri en fyrir sama tímabil árið 2019, sem þá var metár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK