Marel segir upp starfsfólki

Úrbeiningakerfi Marel.
Úrbeiningakerfi Marel. Ljósmynd/Marel

Marel hyggst fækka starfsfólki um 5% á heimsvísu vegna krefjandi rekstrarumhverfis. Rekstrarniðurstaða félagsins á öðrum fjórðungi var undir væntingum. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar.

„Samkvæmt óendurskoðuðu bráðabirgðauppgjöri Marels fyrir annan ársfjórðung 2022 voru metpantanir að upphæð 472 milljónir evra (2F21: 371m) og tekjur námu 397 milljónum evra (2F21: 328m). Kaupin á Wenger skiluðu pöntunum sem nema 17 milljónum evra og tekjum sem nema 12 milljónum evra í fjórðungnum. Pantanabókin er einnig sterk og nam 775 milljónum evra (mars 2022: 619m og júní 2021: 499m), að meðtaldri pantanabók frá Wenger og Sleegers að upphæð 81 milljón evra,“ segir í tilkynningunni.

Greint var frá kaupum á félaginu Wenger í júní.

Kaupin á Wenger höfðu jákvæð áhrif

„Rekstrarniðurstaða fjórðungsins er undir væntingum með 6,3% EBIT framlegð (2F21: 11,8%). Kaupin á Wenger höfðu jákvæð áhrif á rekstrarniðurstöðuna. Í ljósi áframhaldandi áskorana, tengdum aðfangakeðju og hárri verðbólgu, sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænst var, grípur Marel til aðgerða þegar í stað til að bæta rekstrarafkomuna og styðja við fjárhagsleg markmið sín fyrir árslok 2023.

Til að lækka kostnað hefur sú erfiða ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um 5% á heimsvísu. Áætlað er að þessar breytingar muni skila sér í lægri kostnaðargrunni sem nemur 20 milljónum evra á ársgrundvelli, en einskiptiskostnaður nemur um 10 milljónum evra. Sterk staða pantanabókar og virk verðstýring á vörum Marels styðja við stighækkandi tekjuvöxt og bætta rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins, eins og fram kom í afkomutilkynningu vegna 1F 2022.“

Veikari staða í kjötiðnaði

Þá er í tilkynningunni vikið að stöðu pantana milli greina.

„Pípan af nýjum verkefnum er áfram sterk og drifin áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn um heim allan til að mæta væntum vexti. Eftirspurn í alifugla- og fiskiðnaði er sterk, en veikari í kjötiðnaði sem mun hafa áhrif á samsetningu tekna. Í núverandi umhverfi verðbólgu, skorts á vinnuafli og breytilegri neytendahegðun er Marel í einstakri stöðu til að styðja við matvælaiðnaðinn með hátækni- og hugbúnaðarlausnum sem leiða til meiri sjálfvirkni, öryggis og rekjanleika,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK