Verðbólgan slær á bjartsýni

Verðlag er á uppleið. Verðhækkanir ytra eru meginskýringin.
Verðlag er á uppleið. Verðhækkanir ytra eru meginskýringin. mbl.is/Ómar

Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, telur áhyggjur af verðbólgu farnar að hafa áhrif á væntingar almennings í efnahagsmálum.

Væntingavísitala Gallup var 93,6 stig í júní, en var 93,3 stig í maí síðastliðnum, og hefur hún ekki verið jafn lág síðan í árslok 2020.

Versnandi verðlagshorfur

Andrés bendir á nýja verðbólguspá Landsbankans en samkvæmt henni verður 9,2% verðbólga í júlí og 9,5% verðbólga í ágúst. Það er mikil hækkun milli ára en 4,3% verðbólga var í júlí og ágúst í fyrra.

„Verðlagshorfur verða sífellt svartari. Verðbólguspá Landsbankans fyrir júlí og ágúst er sú hæsta sem hefur birst. Drífa Snædal, forseti ASÍ, hefur réttilega bent á vægi innfluttrar verðbólgu í þessu efni. Þá er aðfangakeðjan enn að hiksta hvert sem litið er og það heldur áfram að hafa áhrif á framboð vöru og þar með verðlag. Það er segin saga að svona svartsýnisspár hafa bein áhrif á væntingar fólks.

Það er ekkert sem bendir til að staðan í heimshagkerfinu muni fara batnandi. Fyrir mánuði sótti ég aðalfund Evrópusamtaka verslunarinnar (EuroCommerce) og á þeim tuttugu árum síðan ég hóf að sækja þá fundi hef ég ekki upplifað jafn mikla svartsýni í smásölu- og heildsölugeiranum í Evrópu. Við áðurnefnda þætti bætist orkukreppan í Evrópu,“ segir Andrés.

Hefur verið mæld frá 2001

Gallup hefur frá mars 2001 mælt væntingavísitöluna mánaðarlega. Einstaklingar 18 ára og eldri eru spurðir fimm spurninga: Annars vegar um mat á núverandi efnahagsaðstæðum og hins vegar um væntingar til efnahagslífsins.

Ef vísitalan er yfir 100 stigum eru fleiri jákvæðir en neikvæðir um horfurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK