Niðurstaða um kaup ríkisins á næsta leiti

Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn rísa.
Nýjar höfuðstöðvar Landsbankans við Austurhöfn rísa. mbl.is/sisi

Endanleg niðurstaða um fyrirhuguð kaup ríkisins á um sex þúsund fermetra skrifstofurými í norðurhúsi nýja Landsbankans er á næsta leiti.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu, en mbl.is óskaði eftir svörum frá ráðuneytinu vegna fréttaflutnings í morgun um að kaupin væru komin í strand. Í yfirlýsingunni segir að vonir standi til þess að fá endanlega niðurstöðu um hvort af kaupunum verði á allra næstu vikum.

„Á undanförnum misserum hefur verið unnið að því að skipa húsnæðismálum ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands fyrir með haganlegum hætti, en núverandi húsnæði er dreift og í sumum tilvikum úrelt. Við endurskoðun á þessari skipan hefur verið litið til þess að draga úr rýmisþörf, stuðla að samnýtingu og hagræðingu og auka sveigjanleika í nýtingu húsnæðisins,“ segir í yfirlýsingunni.

„Meðal kosta sem unnið hefur verið með eru möguleg kaup ríkisins á hluta af nýbyggingu Landsbankans við Austurhöfn, sem gæti hentað vel fyrir starfsemi Stjórnarráðsins.“

Fréttablaðið greindi frá því í morgun að óeining sé á milli forsætisráðuneytis og fjármálaráðuneytis um kaupin. Þegar mbl.is ítrekaði spurningu sína um það hvort óeining væri til staðar og hvort viðræður um kaupin væru komin í strand vildi forsætisráðuneytið ekki tjá sig um kaupin að öðru leyti en kom fram í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK