Hagnaður upp á 2,3 milljarða á öðrum ársfjórðungi

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hagnaður Landsbankans á öðrum ársfjórðungi nam samtals 2,3 milljörðum króna, en þar með er hagnaður bankans á fyrri hluta ársins kominn upp í 5,6 milljarða. Til samanburðar var hagnaður á öðrum ársfjórðungi í fyrra 6,5 milljarðar og á fyrri hluta ársins 14,1 milljarður.

Nemur arðsemi eiginfjár á fyrri hluta ársins 4,1%, en bankinn hefur sett sér markmið um að arðsemin sé yfir 10%. Í tilkynningu til Kauphallarinnar vegna uppgjörsins kemur fram að þetta sé aðallega tilkomið vegna lækkunar á gangvirði hlutabréfaeignar bankans.

Vaxtatekjur aukast

Hreinar vaxtatekjur bankans (vaxtagjöld að frádregnum vaxtakostnaði) hafa aukist um 13% og voru 11,2 milljarðar á öðrum ársfjórðungi samanborið við 10,3 milljarða á sama tíma í fyrra. Þegar horft er á fyrri hluta ársins í heild nema hreinar vaxtatekjur bankans 21,4 milljarði samanborið við 19 milljarða á sama tíma í fyrra. Í tilkynningunni segir að þetta sé aðallega vegna stærra útlánasafns og hærra vaxtastigs.

Tap af fjáreignum bankans er metið 2,7 milljarðar á öðrum ársfjórðungi og samanlagt 4,8 milljarðar það sem af er ári. Til samanburðar var hagnaður af þessum lið upp á 3,7 milljarða í fyrra á fyrri hluta ársins.

Rekstrarkostnaður bankans lækkar og mælist nú innan við 1,4% af meðalstöðu heildareigna. Var launakostnaður á síðasta ársfjórðungi 3,6 milljarðar, en á sama tíma í fyrra nam hann 3,7 milljörðum.

Fasteignalántakar flykkjast í fasta vexti

Útlán bankans til fyrirtækja hafa aukist um 33 milljarða á fyrri hluta ársins og er það aðallega til fyrirtækja í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Í tilkynningunni er tekið fram að fjölmargir viðskiptavinir hafi undanfarið fest vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Þannig hafi í árslok 2021 um 29% íbúðalána verið með fasta óverðtryggða vexti, en að hlutfallið hafi verið komið í 42% í lok júní.

Eigið fé bankans um mitt ár var alls 267,7 milljarðar og var eiginfjárhlutfallið 24,9%.

166,7 milljarða arðgreiðslur frá 2013

Í mars á aðalfundi bankans samþykkti aðalfundur tillögu bankaráðs um að greiða arð upp á 14,4 milljarða til hluthafa vegna rekstrarársins í fyrra. Lang stærsti hluthafinn er íslenska ríkið. Þá var einnig samþykkt að greiða sérstaka arðgreiðslu upp á 6,1 milljarð og hafa arðgreiðslur bankans frá árinu 2013 nú numið 166,7 milljörðum.

Haft er eftir Lilju Björk Einarsdóttur, bankastjóra Landsbankans, í tilkynningunni að uppgjörið beri með sér traustan rekstur bankans, en að sveifluliðir séu tengdir hlutabréfamörkuðum. Þeir dragi nú úr hagnaði það sem af er ári. Segist hún ánægð með niðurstöðu tímabilsins, en ítrekar jafnframt að bankinn ætli að ná markmiðum um 10% arðsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK