Vilja gefa kost á öðrum sjónarmiðum

Míla er dótturfélag Símans.
Míla er dótturfélag Símans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samkeppniseftirlitið segist telja mikilvægt að gefa öllum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Af því tilefni sendi það í dag bréf til helstu hagaðila, er tengjast sölu Símans á Mílu til Ardian, þar sem reifað er frummat þess um áhrif af sölunni. Þá er jafnframt óskað eftir sjónarmiðum um framkomin sjónarmið viðsemjenda og tillögur Ardian í tilefni af sáttaviðræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins (SKE).

SKE hefur til rannsóknar kaup fjárfestingarsjóðsins Ardian á Mílu og hefur rannsóknin staðið yfir frá 8. febrúar eða frá því að fullbúin samrunatilkynning barst. Fyrr í mánuðinum gaf SKE út andmælaskjal, þar sem sett er fram ítarlegt frummat um samkeppnisleg áhrif sölunnar. Var þar m.a. fullyrt að samruni Mílu og Ardi­an raskaði sam­keppni og samrun­inn verði því, sam­kvæmt frumniður­stöðunni, ekki samþykkt­ur af Sam­keppnis­eft­ir­lit­inu án skil­yrða og/​eða með frek­ari út­skýr­ing­um af hálfu fyrirtækjanna. 

Færðu rök fyrir breytingum

Ardian og Síminn brugðust við og sendu Samkeppniseftirlitinu ítarleg sjónarmið, hvort í sínu lagi, þann 15. júlí. Þar var frummati Samkeppniseftirlitsins mótmælt og færð rök fyrir því að breytingar yrðu gerðar áður en endanlegt mat yrði gefið út um áhrif samrunans.

„Þegar samrunaaðilar leggja fram tillögur að breytingum eða skilyrðum í tilefni af frummati samkeppnisyfirvalda er að jafnaði framkvæmt svokallað markaðspróf (e. market test) á viðkomandi tillögum. Í markaðsprófi felst meðal annars að hagaðilum eru kynntar viðkomandi tillögur og óskað sjónarmiða þeirra.

Með vísan til þessa hefur Samkeppniseftirlitið í dag sent helstu hagaðilum bréf, þar sem reifað er frummat Samkeppniseftirlitsins og óskað sjónarmiða um framkomin sjónarmið samningsaðila og tillögur Ardian í tilefni af sáttaviðræðum,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins.

Frestur til 28. júlí

Þar kemur einnig fram að þar sem að viðskipti þessi varði breiðan hóp viðskiptavina á fjarskiptamarkaði, þar á meðal neytendur, stjórnvöld og hagsmunaaðila á ýmsum sviðum, telji Samkeppniseftirlitið mikilvægt að gefa öllum kost á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Í þágu rannsóknar málsins er óskað eftir að það gerist eigi síðar en fyrir lok dags 28. júlí en SKE ber að taka afstöðu til málsins fyrir 18. ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK