Minni hagnaður hjá Marel

Vinnslulína Vísis í Grindavík er með hátæknibúnað frá Marel.
Vinnslulína Vísis í Grindavík er með hátæknibúnað frá Marel. Ljósmynd/Aðsend

Marel hagnaðist um 9,6 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi. Met var sett í mótteknum pöntunum á fjórðungnum.

Til samanburðar hagnaðist félagið um 23,3 milljónir evra á öðrum ársfjórðungi í fyrra.

Þá hagnaðist félagið um 31,3 milljónir evra á fyrri hluta ársins en um 44,5 milljónir evra á fyrri hluta árs í fyrra. 

Endurskoðuð til lækkunar

Markmið um EBIT-framlegð hafa verið endurskoðuð í 14-16% í lok árs 2023 í stað 16% áður, „í ljósi umróts í aðfangakeðjum og alþjóðlegu efnahagsumhverfi“.

Hlutabréfaverð í Marel hríðféll í síðustu viku eftir að fyrirtækið gaf út afkomuviðvörun.

Líkt og mbl.is greindi frá í síðustu viku hyggst Marel fækka starfsfólki um 5% á heimsvísu vegna krefjandi rekstrarumhverfis. Í bráðabirgðauppgjöri fyrirtækisins segir að rekstrarniðurstaða félagsins á öðrum ársfjórðungi sé undir væntingum. Verkefnastaðan sé þó góð og drifin áfram af nýsköpun og aukinni markaðssókn um heim allan.

Reynt að draga úr töfum

Í tilkynningu frá Marel segir að gert sé ráð fyrir betri afkomu á síðari hluta ársins.

„Gert er ráð fyrir bættri rekstrarafkomu á síðari helmingi ársins. Til að lækka kostnað hefur sú ákvörðun verið tekin að fækka starfsmönnum félagsins um 5% á heimsvísu, auk þess sem ráðist hefur verið í aðgerðir til að draga úr töfum í aðfangakeðju. Hærri tekjuvöxtur og virk verðstýring á vörum Marel munu leiða til betri kostnaðarþekju á næstu ársfjórðungum,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Þá er vikið að kaupum Marel á Wenger og Sleegers.

„Kaupin á Wenger og Sleegers höfðu jákvæð áhrif á mótteknar pantanir í fjórðungnum (16,9 milljónir evra), tekjur (12,7 milljónir evra) og pantanabók (80,9 milljónir evra),“ segir þar orðrétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK