Stundvísi minnkar en farþegum fjölgar

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Árni Sæberg

Farþegar hjá flugfélaginu Icelandair verða sífellt fleiri eftir því sem líður á árið og náði fjöldinn yfir hálfa milljón í síðasta mánuði. Samhliða því hefur þó reynst erfiðara fyrir félagið að halda tímaáætlun og hefur stundvísin minnkað úr 67% í júní niður í 64% í júlí.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir félagið ánægt með árangurinn en hann komi þó ekki á óvart. Hann vonast þó til þess að stundvísin fari batnandi en ljóst sé að það verði einhverjar truflanir næstu vikur áfram þar sem flugvellir eru enn undirmannaðir úti í heimi.

Sætanýting tæp 90%

Alls voru farþegar Icelandair 529 þúsund talsins, þar af voru 504 þúsund farþegar í alþjóðaflugi og var sætanýtingin þar 89,6%.

Til samanburðar flutti flugfélagið Play 109.937 farþega í síðasta mánuði, að því er fram kom í tilkynningu frá félaginu, og var sætanýtingin 87,9%. Stundvísi félagsins í júlí reyndist þó mun hærri en hjá Icelandair, eða 79%.

Keðjuverkandi áhrif

„Þjónustuaðilar á flugvöllum úti í heimi hafa átt í erfiðleikum með að manna sig og sinna öllum farþegafjöldanum. Það gerist mjög hratt að flug hefur tekið við sér eftir faraldurinn og það hefur alls ekki tekist á öllum okkar áfangastöðum að byggja þjónustuna upp aftur. Það hefur keðjuverkandi áhrif hjá okkur og inn í okkar leiðakerfi,“ segir Bogi Nils um stundvísina hjá Icelandair.

Gerið þið ráð fyrir því að það staðan verði betri í ágúst?

„Við vonumst til þess að það verði betra ástand í ágúst en þetta er ekki í okkar höndum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK