Stýrivextir hækkaðir um 0,5 prósentustig

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Golli

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,5 prósentustig. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 6,5%.

Verðbólga jókst í janúar og mældist 9,9% en undirliggjandi verðbólga hélst óbreytt í 7%. Þótt tekið hafi að hægja á húsnæðismarkaði og alþjóðleg verðbólga hafi minnkað lítillega er verðbólguþrýstingur enn mikill og verðhækkanir á breiðum grunni, segir í tilkynningu. 

Versnandi verðbólguhorfur

Fram kemur að verðbólguhorfur hafi versnað frá síðasta fundi nefndarinnar. Þótt verðbólga hafi líklega náð hámarki taki lengri tíma að ná henni niður í verðbólgumarkmið bankans en áður var talið.

„Lakari horfur skýrast einkum af því að nýgerðir kjarasamningar á almennum vinnumarkaði fela í sér töluvert meiri launahækkanir en þá var gert ráð fyrir. Einnig hefur gengi krónunnar lækkað og útlit er fyrir meiri framleiðsluspennu á spátímanum. Við þetta bætist að útlit er fyrir að aðhald fjárlaga verði minna en gert var ráð fyrir í nóvemberspá bankans þrátt fyrir að dragi úr hallarekstri ríkissjóðs í ár. Verðbólguvæntingar til lengri tíma eru enn vel yfir markmiði og raunvextir bankans hafa lækkað frá síðasta fundi,“ segir í tilkynningunni.

Þörf á auknu aðhaldi á næstunni

Bent er á að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans hafi hagvöxtur í fyrra verið 7,1%, sem er töluvert minna en gert var ráð fyrir í nóvember. Horfur eru á minni hagvexti í ár.

„Peningastefnunefnd telur líklegt að auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK