Úrslitastund fyrir óverðtryggð lán

Úrslitastund fyrir óvertryggð lán
Úrslitastund fyrir óvertryggð lán mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að nafnvaxtakerfi, sem byggist á óverðtryggðum lánum með breytilegum vöxtum, gangi ekki upp ef óstöðugleiki í íslensku efnahagskerfi heldur áfram.

Hann er þó ekki tilbúinn að gefast upp á kerfinu en segir hætt við því að verðtryggðum lánum vaxi fiskur um hrygg ef fram heldur sem horfir. Seðlabankinn hefur hækkað vexti ellefu sinnum frá því síðasta sumar og eru vextir nú 6,5 prósent.

Verðbólgan fer ekki niður sjálf 

Hann viðurkennir að álag sé á nafnvaxtakerfinu.

„Ég sjálfur hafði séð fyrir mér nafnvaxtakerfi sem gæti gengið og að það gæti gæti verið grundvöllur fyrir virkri peningastefnu og að við myndum ná að halda stöðugleika. En slíkt kerfi gengur ekki upp ef svona verðbólguástand heldur áfram. Þá munu þær afleiðingar verða að við munum aftur sjá verðtryggð lán að megninu til. Ég tel að það yrði mjög óheppilegt en á sama tíma horfum við upp á verðbólgu upp á 9,9 prósent og hún fer ekki niður sjálf," segir Ásgeir í samtali við mbl.is. 

Stór hluti lána sem tekin hafa verið undanfarin ár eru …
Stór hluti lána sem tekin hafa verið undanfarin ár eru óvertryggð. Heimild - Seðlabankinn

Greiðsluþak gæti verið ein útfærsla 

Hann nefnir að eina leiðin til þess að viðhalda nafnvaxtakerfi sé stöðugleiki í ríkisfjármálum og skynsamlegar launahækkanir í vinnumarkaði sem byggi á kaupmætti.

„Ég get bent á að það er ýmis útfærsla á nafnvaxtakerfinu. Til að mynda þannig að þú borgir vexti upp að ákveðnu marki en það sem fer umfram færist á höfuðstólinn. Þannig væri ákveðið greiðsluþak. Það gæti styrkt þetta kerfi,“ segir Ásgeir.

Hann segir skiljanlegt að fólk eigi erfitt með að horfa upp á greiðslur hækka svo ört þó svo höfuðstóll lækki í framtíðinni.

Myndirðu þá segja að nafnvaxtakerfið í núverandi mynd gangi ekki upp?

„Við eigum eftir að sjá það. Ég álít það að ef við náum verðstöðugleika aftur, þá tel ég að við eigum alls ekki að gefast upp á þessu kerfi. En því lengur sem verðbólgan er því erfiðara verður að halda í það," segir Ásgeir.

Margir finna fyrir aukinni greiðslubyrði.
Margir finna fyrir aukinni greiðslubyrði. Ljósmynd/Colourbox

Hörð umræða og allir undir pressu  

Umræða hefur verið hörð í kjölfar nýjustu vaxtahækkunar Seðlabankans. Ásgeir segist hafa skilning á gagnrýninni sem eigi sér ekki síst rætur að rekja í nafnvaxtakerfið þar sem fólk finnur verðbólguna á eigin skinni.

„Þessi breyting þar sem fólk var að færa sig yfir í nafnvexti breytir allri umræðu um verðbólgu. Það var ekki svona hörð umræða um verðbólguþróun þegar fólk var með verðtryggð lán. Fólk finnur náttúrlega verulega fyrir verðbólgunni núna. Ég held að það skýri þessa hörðu umræðu nú. Aðilar vinnumarkaðarins finna fyrir vikið fyrir mikilli pressu og stjórnvöld finna fyrir mikilli pressu," segir Ásgeir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK