Skopp hoppar á grunni Rush

Þórey Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri og Jóhannes Ásbjörnsson
Þórey Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri og Jóhannes Ásbjörnsson Eggert Jóhannesson

Trampólíngarðurinn á Dalvegi, sem hefur gengið undir nafni alþjóðlegu keðjunnar Rush er nú búinn að skipta um nafn og ber eftirleiðis hið alíslenska nafn Skopp. Garðurinn er til húsa á Dalvegi í húsnæði sem áður hýsti matvöruverslunina Kost. Auk nýja nafnsins hyggst Skopp frumsýna ný og spennandi tæki fyrir alla aldurshópa á árinu 2023.

„Þegar við tókum við rekstri Rush-trampólíngarðsins var ákveðið að hann yrði ekki hluti af alþjóðlegu Rush-keðjunni, heldur alfarið í okkar eigu og rekstri. Þá hófst leitin að nýju heppilegu nafni sem er nú fundið og við erum afar ánægð með,“ segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna, í samtali við ViðskiptaMoggann, en Gleðipinnar tóku við rekstri trampólíngarðsins í lok ársins 2021.

Ný afþreyingartæki

Frá því að Gleðipinnar tóku við rekstri trampólíngarðsins hefur verið lögð áhersla á að auka gæði og fjölbreytni afþreyingar og bæta við nýjum og spennandi tækjum. Til viðbótar við trampólínin, sem leika lykilhlutverk í garðinum, hefur bæst við gagnvirkur fótboltavöllur og nýr klifurveggur. Klifurveggurinn er hannaður í samstarfi við Benjamin Mokry, framkvæmdarstjóra Klifurhússins, og verða í boði þrjár miskrefjandi klifurleiðir.

Gagnvirki fótboltavöllurinn virkar svo þannig að inni í mörkunum eru sérstök skotmörk sem gefa mismörg stig. Spilaðir eru 4 mínútna langir leikir í senn, völlurinn telur svo stigin sjálfur og gefur frá sér hljóðmerki.

Þórey Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri og Jóhannes Ásbjörnsson
Þórey Gunnlaugsdóttir framkvæmdastjóri og Jóhannes Ásbjörnsson Eggert Jóhannesson

Ævintýri fyrir yngstu börnin

Aðgengi yngri barna að trampólíngarðinum Skopp hefur undanfarið verið takmarkað við sérstaka krakkatíma sem eru á milli klukkan 10 og 12 um helgar. Yngri börn mega því eins og staðan er núna ekki hoppa og skoppa innan um eldri og þyngri börn. Voru þær takmarkanir settar til að hámarka öryggi viðskiptavina.

Til þess að bregðast við þessu og mæta þörfum yngstu barnanna verður á næstu vikum opnað nýtt ævintýraland sem sérstaklega er hannað með yngstu börnin í huga.

„Á leiðinni til landsins er stórglæsilegt ævintýraland fyrir yngri börnin þar sem þau koma til með að njóta sín til fulls á meðan þau eldri hoppa. Framleiðandi ævintýralandsins er hollenskt fyrirtæki sem er fremst á sínu sviði í hönnun öruggra leiktækja fyrir börn,“ segir Þórey Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Skopps. Að nokkru leyti minnir Ævintýralandið á það sem var um árabil í Kringlunni, en þetta er bæði stærra og nýtískulegra.

Lesa má meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK