Meirihluti hlynntur sölu bjórs í matvöruverslunum

Samkvæmt nýrri könnun Maskínu eru 51,6% aðspurðra hlynntir því að selja létt áfengi, þ.e. áfengi með minna en 22% áfengisinnihald, í matvöruverslunum.

Þetta er í fyrsta sinn frá því að Maskína hóf að mæla afstöðu landsmanna til sölu létts áfengis í matvöruverslunum sem að það mælist meirihluti fyrir því.

Töluvert minni stuðningur er við sölu sterks áfengis, þ.e. vörur með meira en 22% áfengisinnihald, í matvöruverslunum. Alls sögðust 25,2% vera hlynnt því. Það er þó mesti stuðningur sem mælst hefur við sölu sterks áfengis í verslunum frá því að Maskína fór að mæla það.

Yngra fólk og karlar frekar fylgjandi

Ef afstaðan er skoðuð eftir aldurshópum, sést að yngra fólk er almennt hlynntara sölu áfengis í matvöruverslunum en eldra fólk. Mestur stuðningur mælist við sölu létts áfengis í matvöruverslunum í aldurshópnum 30 til 39 ára, eða rúmlega 65%, en minnstur stuðningur er í aldurshópnum 60 ára og eldri, þar sem tæp 32% segjast vera hlynnt sölu létts áfengis í matvörubúðum.

Sama er upp á teningnum þegar afstaða til sölu sterks áfengis í búðum er skoðuð eftir aldurshópum. Þar mælist mestur stuðningur meðal fólks á aldrinum 40 til 49 ára, en minnstur stuðningur meðal 60 ára og eldri.

Athygli vekur að töluverður munur er á afstöðu kynjanna til málsins, en karlmenn eru almennt hlynntari sölu áfengis í matvöruverslunum en konur. Rétt tæp 60% karla segjast hlynntir sölu létts áfengis í matvöruverslunum, á meðan að aðeins 47% kvenna eru hlynntar því. Sömu sögu er að segja í afstöðu kynjanna til sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. Þar segjast tæplega 33% karla vera hlynntir því, á meðan að aðeins 17% kvenna eru hlynntar sölu sterks áfengis í matvöruverslunum.

Ríkisstjórnin klofinn í afstöðu til málsins

Meirihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins, Miðflokksins og Viðreisnar segjast fylgjandi sölu létts áfengis í búðum.

Mestur er stuðningurinn meðal kjósenda Framsóknar, en 63,6% eru fylgjandi, en um 62% kjósenda Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar segjast hlynntir sölu létts áfengis í matvöruverslunum. Minnihluti kjósenda Pírata, Flokks fólksins, Samfylkingar, Sósíalista og Vinstri grænna eru hlynntir að leyfa sölu létts áfengis í búðum. Minnstur er stuðningurinn meðal kjósenda Vinstri grænna, eða tæp 30%.

Afstaðan til sölu sterks áfengis í matvöruverslunum er sambærileg, þegar hún er skoðuð út frá stjórnmálaskoðunum. Mestur er stuðningurinn meðal kjósenda Viðreisnar, rúm 36%, en stuðningur meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins er tæp 35%. Líkt og í afstöðu til létts áfengis, er minnstur stuðningur við sölu sterks áfengis í matvöruverslunum meðal kjósenda Vinstri grænna, en 14,5% eru hlynntir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK