Guðný Helga ráðin sem forstjóri VÍS

Guðný Helga Herbertsdóttir hefur verið ráðin sem forstjóri VÍS.
Guðný Helga Herbertsdóttir hefur verið ráðin sem forstjóri VÍS.

Guðný Helga Herbertsdóttir, sem verið hefur starfandi forstjóri tryggingafélagsins VÍS síðan 10. janúar, hefur nú verið ráðin í starf forstjóra félagsins. Guðný Helga hefur verið í framkvæmdastjórn félagsins síðan 2017. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Frá síðasta vori hefur Guðný starfað sem framkvæmdastjóri sölu og þjónustu en var áður framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar. Hún hóf störf hjá félaginu árið 2016 sem markaðsstjóri.

Í tilkynningu kemur fram að Guðný Helga hafi verið í leiðandi hlutverki í stefnumótun félagsins á undanförnum árum. Hún stýrði stafrænni umbreytingu félagsins og innviða uppbyggingu í upplýsingatæknimálum. Hún hefur leitt stefnumarkandi verkefni s.s. Ökuvísi, þróun þjónustugáttar félagsins og nýtt vildarkerfi.

Guðný Helga er með stjórnunargráðu (AMP) frá Viðskiptaháskólanum IESE í Barcelona á Spáni. Hún er jafnframt með meistaragráðu frá Viðskiptaháskólanum í Árósum í Danmörku og B.S. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands.

Í síðustu viku var tilkynnt um viðræður VÍS og Fossa um kaup á hlutafé þess síðarnefnda. Guðný Helga mun leiða tryggingahluta starfseminnar í sameinuðu félagi.

Haft er eftir Stefáni Héðni Stefánssyni, stjórnarformanni VÍS að Guðný njóti mikils trausts stjórnar og starfsfólks. „Ég tel að hún sé sú rétta til þess að leiða tryggingafélagið til framtíðar. Guðný Helga hefur starfað hjá félaginu undanfarin rúm sex ár og hefur tekið þátt í þróun og stefnumótun þess. Þekking hennar, reynsla og styrkleikar eiga eftir að leika lykilhlutverk í vegferðinni framundan,“ kemur þar fram auk þess sem hann segir aukna áherslu lagða á sókn félagsins.

Guðný Helga segir í tilkynningunni að ný og spennandi verkefni taki nú við. „Það er okkar verkefni að gera tryggingar skiljanlegar og aðgengilegar. Við munum halda áfram að breyta því hvernig tryggingar virka og hafa hugrekki til þess að fara ótroðnar slóðir. VÍS er öflugt félag sem býr yfir framúrskarandi mannauði  ̶  og nú tökum við enn stærri skref til móts við nýja tíma með hagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi. Ég hlakka til vegferðarinnar sem er framundan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK