18. mars 2014 kl. 20:50

Grunsamlegir viðskiptahættir á álmörkuðum

Eru fjárfestingabankinn Goldman Sachs og hrávörurisinn Glencore Xstrata (sem er aðaleigandi Norðuráls) að reyna að króa álmarkaðinn af? Er alþjóðlegi álmarkaðurinn í London jafnvel með í slíku samsæri?

Það er a.m.k. staðreynd að grunur er uppi um að nokkur af særstu fjármálafyrirtækjum í Bandaríkjunum og fyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum, stundi ólögmæta viðskiptahætti í því skyni að takmarka framboð af áli og halda álverði uppi. Hafin eru umfangsmikil málaferli vestur í Bandaríkjunum í því skyni að stöðva þessar meintu ólögmætu aðgerðir. Reynist niðurstaðan í samræmi við ásakanirnar má búast við háum sektum auk skaðabótakrafna.

Í þessari grein verður fjallað um þessa viðskiptahætti og aðdragandann að umræddum málaferlum. Tekið skal skýrt fram að dómur er enn ekki falinn. Og sá sem þetta ritar tekur enga afstöðu til þess hvort álverði sé eða hafi verið haldið uppi með ólögmætum hætti eður ei. Og ennþá síður hvort álverin hér á Íslandi og/eða eigendur þeirra hafi vísvitandi eða óafvitandi tekið þátt í þeim viðskiptum með einhverjum hætti.

Hér er einfaldlega lýst atburðarás eins og hún birtist í erlendum fjölmiðlum, í opinberum skýrslum, í málsgögnum og í faggreinum í erlendum lögfræðitímaritum. Um leið verður útskýrt hvernig þessi atburðarás kann að hafa valdið Landsvirkjun og öðrum raforkuframleiðendum á Íslandi umtalsverðu tjóni. Greinin er nokkuð löng - en málið er líka umsvifamikið og grafalvarlegt.

Er alþjóðlegi álmarkaðurinn orðinn blekkingaleikur?

Í grunninn snýst þetta mál um meint brot á samkeppnislöggjöf. Slík mál eru oft meðal flóknustu en jafnframt áhugaverðustu lögfræðilegu álitamálanna - og þau hafa stundum haft geysileg áhrif á fjármálalífið og viðskiptahætti. Þar er kannski frægast málið frá því fyrir meira en öld síðan þegar risaolíufyrirtækið Standard Oil var brotið upp í fjölmörg aðskilin fyrirtæki.

Þarna er um að ræða mikla fjárhagslega hagsmuni. Í nýlegir bandarískri úttekt og málsgögnum kemur fram að síðustu þrjú árin hafi þarna - vegna hinna meintu samkeppnisbrota - lagst aukakostnaður á bandaríska neytendur sem nemur um fimm milljörðum dollara. Þar af hefur stærsti hluti þessa kostnaðar fallið til á síðustu 1-2 árum.

Þessir miklu fjárhagslegu hagsmunir þarna vestra eru samt einungis lítill hluti af hinum geysilegu heildarhagsmunum. Niðurstaðan í umræddum málaferlum kann nefnilega að hafa veruleg áhrif á rekstur álvera út um veröld víða.

Málið gæti m.a. haft áhrif á bæði áliðnaðinn og orkugeirann á Íslandi. Sérstaklega myndi þá koma til álita hvort umræddir viðskiptahættir hafa valdið Landsvirkjun tjóni, en fyrirtækið er langstærsti raforkusalinn til álveranna hér og meira en helmingur þeirrar raforkusölu er beintengdur við álverð.

Að auki er vert að hafa í huga að fari málið eins og bandarískar eftirlitsstofnanir leggja upp með, væri það sterk vísbending um að hinn alþjóðlegi álmarkaður á hinum fornfræga London Metal Exchange (LME) sé alls ekki að virka sem skyldi. Þessu mætti jafnvel líkja við það ef kauphöllin í New York hefði aðkomu að því að búa til falska eftirspurn eftir hlutabréfum í fyrirtækjum sem þar eru skráð. Þarna er því vægast sagt mikið í húfi.

Alltof mikil álframleiðsla - aukin spákaupmennska

Gífurleg bjartsýni álframleiðenda utan Kína á fyrsta áratug aldarinnar leiddi til þess að þegar efnahagsbólan á Vesturlöndum sprakk - árið 2008 eða þar um bil - blasti við mikil offramleiðsla á áli. Svo fór að álverð snarféll á árinu 2009. Á sama tíma tóku álbirgðir að safnast hratt upp í vöruhúsum víða um heim; ekki síst í stórum geymslum vestur í Bandaríkjunum en einnig  í Hollandi og víðar.

Segja má að að þessi birgðasöfnun, eða a.m.k. hluti hennar, hafi verið í samræmi við lögmál framboðs og eftirspurnar. Lágt álverð gaf sumum þær væntingar að ál gæti senn hækkað á ný - og að það gæti verið góður hagnaður í að hamstra ál (buy on the dip!) og selja það síðar. Mjög lágir vextir vestan hafs og víða um heim ýttu enn frekar undir slíka spákaupmennsku.

Þess vegna virtist sumum sem mögulegt væri að hagnast vel á því að koma áli í geymslu - þrátt fyrir að leiga á plássi í slíkum vörugeymslum kosti auðvitað sitt. En slík spákaupmennska er þó ekki talin skýra nema hluta af birgðasöfnuninni.

Hvorki bjartsýni um verðhækkanir né stöðuvarnir skýra alla birgðasöfnunina

Sumir eigendur áls ætluðu sem sagt að geyma álið með þá von í brjósti að það myndi brátt hækka. Aðrir sáu sér leik á borði að gera samninga um sölu á áli fram í tímann á verði sem var mun hærra en það lága álverð sem nú var orðið veruleiki. Slíkir seljendur keyptu ál til að tryggja afhendingu þegar þar að kæmi. Og komu því áli í geymslu í umræddum vöruhúsum (nokkuð dæmigert hedging, sem á íslensku væri kannski upplagt að kalla stöðuvörn).

Það voru sem sagt ýmsir sem sáu það sem góðan kost að geyma ál. Og því ekki óeðlilegt að álbirgðir tækju að hlaðast upp. Það er engu að síður svo að bandarískar eftirlitsstofnanir og ýmis fyrirtæki sem þurfa ál í framleiðsluvörur sínar, telja nú að verulegur hluti birgðasöfnunar á áli sé til kominn vegna ólögmætra viðskiptahátta. Þær grunsemdir tengjast nokkuð furðulegri þróun í kjölfar þess að stærstu vörugeymslurnar skiptu um eigendur á árinu 2010. Og nokkrir stærstu viðskiptaaðilarnir á álmarkaði urðu eigendur þeirra fyrirtækja sem eiga og reka umræddar vörugeymslur. Málið virðist sem sagt farið að snúast um það að sömu aðilarnir sitja orðið hvarvetna við samningsborðið þegar kemur að viðskiptum með ál.

Goldman Sachs, JP Morgan Chase, Glencore Xstrata og Trafigura meðal aðalleikenda

Það er stundum sagt að villidýrin renni á blóðlyktina. Árið 2010 urðu viss vatnaskil í viðskiptum með ál. Þá keypti bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs nefnilega geysistórt vörugeymslufyrirtæki í Detroit. Og þetta sama ár keypti JP Morgan Chase annað af stærstu vörugeymslufyrirtækjunum á Detroit-svæðinu.

Sambærileg tilþrif sáust hjá hrávörurisunum alræmdu GlencoreExstrata og Trafigura. Einnig þau urðu umsvifameiri í geymslu á álbirgðum; einkum í stórum vörugeymslum í Antwerpen og Vlissingen í Hollandi en einnig í Bandaríkjunum.

Eftir því sem áðurnefnd fyrirtæki urðu sífellt stærri í rekstri á birgðageymslum fullum af álbörrum fór brátt að bera á nokkuð furðulegri þróun. Kaupendur að áli fóru að lenda í miklum vandræðum með að nálgast álið sitt í vöruhúsunum!

Þegar birgðasöfnunin hófst af alvöru um 2009 var afhendingartími á áli úr vöruhúsunum almennt tryggur með u.þ.b. viku fyrirvara eða þar um bil. En sá biðtími fór nú að verða sífellt lengri og lengri. Nú er svo komið að þeir sem vilja ná áli úr vörugeymslunum mega vænta þess að bíða allt að 16 mánuði (rúmlega 500 daga) eftir því að fá álið afhent! Afhendingatafirnar eru orðnar svo miklar að það þrýstir álverði upp og kann þannig að hafa óeðlileg og jafnvel ólögmæt áhrif á þróun álverðs.

Afhendingatafir þrýsta álverði upp á við

Viðskiptamódelið hjá vöruhúsum Goldman Sachs og félaga felst í hnotskurn í því að geyma ál og fá leigu fyrir þá geymslu. Leigan reiknast miðað við hvert tonn af áli. Eftir því sem leigutíminn lengist leggst óhjákvæmilega meiri leiga á álið.

Þegar afhendingartíminn verður lengri verða leigugjöldin sem sagt sífellt hærri. Sá kostnaður hefur að sjálfsögðu tilhneigingu til að leggjast ofan á álið og þær framleiðsluvörur sem eru unnar úr því.

Önnur afleiðing flöskuhálsins sem vörugeymslufyrirtæki Goldman Sachs og önnur sambærileg fyrirtæki hafa skapað, er sú að þeir sem ekki treysta sér að bíða lengi eftir að fá álið afhent verða að snúa sér annað. En þó svo offramleiðsla sé á áli er alls ekki hlaupið að því að kaupa ál með stuttum afhendingartíma - nema að bjóða verð sem er mun hærra en almennt markaðsverð! Þess vegna er verulegur hluti af álframleiðslunni í dag seldur með sérstöku álagi ofan á markaðsverð. Þannig verður álverð mun hærra en það verð sem skráð er á málmamarkaðnum á LME.

Er búið að króa álmarkaðinn af?

Þetta kann mörgum að þykja nokkuð öfugsnúið. Þ.e. að í mörg ár hefur verið offramleiðsla og offramboð af áli - en samt þarf að borga sérstakt álag til að fá ál keypt og afhent. En þetta ástand er staðreynd og það getur varla verið eðlilegt.

Það er kannski ekki skrýtið að sumum verði hugsað til þess þegar t.d. nokkrir auðugustu menn Bandaríkjanna reyndu að króa silfurmarkaðinn af seint á 8. áratug liðinnar aldar. Umræddar hindranir eða tafir á að fá ál afhent eru að vísu alls ekki orðnar eins dramatískar eins og var í tilviki silfursins á sínum tíma. En það er sem sagt vel þekkt aðferð að reyna að hagnast á hrávöruviðskiptum með því að þrengja að framboði. Og ný þykir sumum sem Goldman Sachs og félagar séu í reynd að reyna að ná svipaðri stjórn á álmarkaðnum eins og De Beers hafði í áratugi á demantamarkaðnum.

Hrávörumarkaðir eru um margt nokkuð furðuleg skepna. Hvort sem um er að ræða t.d. olíu eða ál, þá á mjög stór hluti viðskiptanna sér stað í langtímasamningum. Stundum er einungis tiltölulega lítill hluti af slíkum hrávörum keyptar og seldar á opnum markaði. En þessir „litlu" markaðir hafa engu að síður geysileg áhrif. Fjöldamargir stórir samningar eru beintengdir við verðþróunina á umræddum mörkuðum. Þar að auki hefur verðþróunin þar bein áhrif á hina risavöxnu afleiðumarkaði sem tengdir eru viðkomandi hrávörum. Þess vegna skiptir svo gríðarlegu máli að ekki sé unnt að fikta við skráða markaðsverðið. Og þetta á fullum fetum við álmarkaðinn á London Metal Exchange (LME).

Ótrúleg álhringekja flutningabílanna

En er eitthvað athugavert við hinn langa afhendingartíma? Eru vöruhúsin ekki að gera sitt besta í að stunda örugga geymslu og snurðulausa afhendingu? Er ekki lengri afhendingartíma einfaldlega óhjákvæmileg afleiðing þess hversu mikil eftirspurn er eftir því að láta geyma ál?

Þá er fyrst að geta þess að öll þau fyrirtæki sem eru þátttakendur í viðskiptum með ál á LME þurfa að uppfylla ýmis ströng skilyrði. Meðal þeirra skilyrða eru reglur um hreyfanleika áls út úr vöruhúsum. Þetta eru reglur sem ætlað er að koma í veg fyrir misnotkun á markaðnum og tryggja eðlilega verðmyndun á áli.

Að mati þeirra sem sækja málin gegn fjárfestingabönkunum vestra (um er að ræða tugi dómsmála) er þarna maðkur í mysunni. Rannsókn og vitnaskýrslur benda til þess að flotar flutningabíla keyri fram og aftur milli vöruhúsanna fullhlaðnir af áli - í því skyni einu að láta sem verið sé að uppfylla umræddar reglur markaðarins um hreyfanleika. Fullyrt er að sáralítill hluti álsins sem þarna fer á flutningabílana yfirgefi vöruhúsin, heldur sé það bara flutt úr einni geymslunni í aðra.

Þessi furðulega hringekja flutningabíla með álbarra um daufleit úthverfi Detroit-borgar virðist lygasögu líkust. Málaferlin munu vonandi leiða í ljós hvort þarna séu vöruhúsafyrirtækin einfaldlega að nýta sér einhverja smugu eða ónákvæm skilyrði um hreyfanleika á birgðum - eða hvort þessar tilfæringar teljist þáttur í háttsemi sem miðar að því að takmarka framboð af áli í því skyni að hafa áhrif á álverð með ólögmætum hætti.

Hvað sem öllu líður þá er þetta hið undarlegasta mál og erfitt að átta sig á tilgangi og markmiðum aðalleikendanna. En þessi tilþrif ættu kannski ekki að koma á óvart - þegar t.d. haft er í huga að eitt þeirra fyrirtækja sem þarna eiga í hlut (JP Morgan Chase) var nýverið viðriðið stórt mál um misnotkun á bandarískum raforkumarkaði. Í þessu sambandi má líka minnast nýlegra rannsókna á nokkrum olíufyrirtækjum og hrávörurisum (þ.m.t. Glencore Xstrata) vegna misnotkunar í olíuviðskiptum. Og nefna má aðra vel þekkta nýlega rannsókn á nokkrum helstu bönkum veraldarinnar vegna misnotkunar á millibankavöxtum. Það er því miður engu líkara en efnahagskerfið sé orðið gegnsýrt af... sérkennilegum viðskiptaháttum. Svo ekki sé sterkar að orði komist.

Novelis og Coca Cola segja hingað og ekki lengra

Flest okkar erum vön því að skola niður gosdrykk eða ljúfu öli úr áldós. En við höfum sennilega fæst áhyggjur af því hvort það kostaði krónu minna eða meira að framleiða dósina. Fyrir stærstu álnotendurna horfir málið öðru vísi við. Það skiptir risastór framleiðslufyrirtæki, sem nota ál í vörulínur sínar, geysilegu máli hvert verð á áli er. Og að það verð skapist í eðlilegu samkeppniumhverfi.

Fyrir nokkru síðan kom að því að risafyrirtækin Novelis og Coca Cola sættu sig ekki lengur við stöðuna á álmarkaði. Þ.e. að þurfa að bíða svo lengi eftir að fá ál afhent úr áðurnefndum vörugeymslum. Auk þess töldu fyrirtækin að þessi geysilangi og sívaxandi afhendingartími væri farinn að hafa óeðlileg áhrif á álverð. Þ.e. að tafirnar væru farnar að valda óeðlilega mikilli hækkun á því álagi sem greiða þurfti ofan á skráð markaðsverð á áli.

Það er sem sagt álit fyrirtækja sem nota ál til framleiðslu sinnar að afleiðing flöskuhálsins sem vöruhúsin virðast hafa skapað, sé að álverð verði hærra en ella væri. Undir þetta taka nú bandarískar eftirlitsstofnanir. Og hjá greiningafyrirtækinu Harbor Intelligence hafa menn sagt að þetta sé algerlega tilbúinn óþarfa kostnaður, sem virki sem hlekkir á bandarískt efnahagslíf. Það virðist því nokkuð augljóst að viðskiptahættir vöruhúsanna eru til óþurftar. En hvort þeir eru ólögmætir á enn eftir að koma í ljós.

Ástandið grefur undan efnahagslífinu og dregur mjög úr trúverðugleika LME

Umrætt álag ofan á álverðið sem skráð er á LME hefur farið stighækkandi síðustu misseri og ár. Algengt álag virðist nú allt að 15-20% ofan á skráð markaðsverð á áli! Þetta hefur margvíslegar afleiðingar og fyrir flesta eru þær afleiðingar neikvæðar.

Ein afleiðingin er sú að LME er vart lengur marktækur mælikvarði á álverð. Þetta mætti líka orða þannig að markaðsverð á áli sé alls ekki lengur markaðsverð á áli og verðið á LME sé bara rugl. Þetta er t.d. grafalvarlegt fyrir þau orkufyrirtæki sem selja mikið af raforku til álvera, þar sem raforkuverðið er tengt álverði eins og það er skráð á LME. Sá hluti söluverðsins sem felst í álaginu kemur nefnilega ekki inn í útreikning á raforkuverðinu.

Landsvirkjun er prýðilegt dæmi um slíkt fyrirtæki. Samkvæmt úttekt Morgunblaðsins frá liðnu ári (2013) má gera ráð fyrir að stór hluti þess áls sem álverin hér á Íslandi framleiða sé seldur með álagi. Þá má segja að álverðið sé í reynd sveigt framhjá viðmiðuninni skv. LME. Afleiðingin er sú að raforkufyrirtækin hér missa af tekjum sem þau myndu fá ekki væri miðað við LME-verðið heldur verðið með álaginu. Í úttekt Morgunblaðsins var upphæðin sem íslensku raforkufyrirtækin hafa þarna orðið af á árunum 2008-13 sagt nema tíu milljörðum ISK. Það munar um minna.

Önnur óheppilega afleiðing álagsins er sú að það leiðir þess að óhagkvæm álver halda áfram rekstri mun lengur en ella væri. Þannig seinka þessir viðskiptahættir hugsanlega fyrir því að jafnvægi myndist á milli framboðs og eftirspurnar; álfjallið helst nánast óbreytt og offramleiðslan teygist á langinn. Ennþá ein og mjög alvarleg afleiðing álagsins og umræddra viðskiptahátta er svo sú, að þetta leiðir til hækkana á flestum eða jafnvel öllum þeim vörum sem framleiddar eru úr áli (eins og nefnt var hér að framan í tengslum við kærur Novelis, Coca Cola og reyndar fleiri fyrirtækja). Þannig teygja áhrifin sig væntanlega alla leið inn í vísitölubundnar skuldir venjulegra Íslendinga. Þess vegna ætti öllum okkar að vera ljóst hið gríðarlega mikilvægt  þess að ekki bara stöðva, heldur koma í veg fyrir samkeppnisbrot og samráð fyrirtækja.

Eru forsendur fyrir raforkusölusamningunum brostnar?

Mjög algengt er að álfyrirtæki sækist eftir því að í langtímasamningum þeirra um raforkukaup sé kveðið á um að orkuverðið breytist í takt við álverð. Tilgangur slíkra samninga er að minnka rekstraráhættu álfyrirtækjanna; þegar álverð fer lækkandi þá lækkar raforkuverðið til álveranna, en þegar álverð fer hækkandi þá hækkar raforkuverðið.

Þetta fyrirkomulag dregur mjög úr áhættu álframleiðendanna, en þess í stað leggst aukin áhætta á raforkuframleiðandann. Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum íslensku raforkufyrirtækjanna má ætla að vel rúmlega helmingur allrar raforkusölu til álveranna hér sé með tengingu af þessu tagi (hlutfallið var mun hærra fyrir nokkrum árum, en Landsvirkjun hefur undanfarið unnið að því að lækka þetta hlutfall). Þess vegna skiptir álverð miklu fyrir afkomu íslensku orkufyrirtækjanna.

Umrædd verðtenging  miðast vel að merkja við álverð eins og það er skráð á LME. En í þessum verðtengingum er ekkert tillit tekið til þess álags sem kann að koma ofan á það verð - enda er það jú fremur nýlega til komið að þetta álag sé umtalsvert. Ein áhrif þeirrar þróunar að álkaupendur þurfi sífellt að greiða hærra álag ofan á skráð markaðsverð, eru þau að klippt er á tengslin milli hækkandi álverðs og þess raforkuverðs sem áliðnaðurinn þarf að greiða vegna framleiðslunnar. Álframleiðendurnir njóta að einhverju og jafnvel verulegu leiti þess álags sem leggst ofan á markaðsverðið, en raforkuframleiðandinn situr eftir með sárt ennið.

Samkvæmt áðurnefndri úttekt Morgunblaðsins frá síðasta ári (2013) má ætla að þarna hafi íslensku orkufyrirtækin misst af tekjum sem nema mörgum milljörðum ISK. Ef þetta er rétt hlýtur að koma til skoðunar hvort forsendur séu jafnvel brostnar fyrir raforkusamningunum við álverin hér.

Þegar samið var um tengingu milli raforkuverðs og álverðs var miðað við ákveðnar markaðsaðstæður og viðskiptahætti sem þá tíðkuðust. En nú virðist sem þessi markaður hafi riðlast illilega. Það getur vart verið eðlilegt að sú þróun valdi íslensku raforkufyrirtækjunum tjóni, en álfyrirtækin geti látið sem ekkert sé. Þetta álitamál hlýtur að vera til alvarlegrar athugunar hjá íslensku raforkufyrirtækjunum, sem selja jú mjög stóran hluta raforkuframleiðslu sinnar til álfyrirtækjanna.

Verður réttlætinu fullnægt?

Svo virðist sem það verði sífellt algengara að risafyrirtæki stundi markaðsmisnotkun og samkeppnisbrot. Áður fyrr mátti sjá tekið á slíkum brotum með alvöru aðgerðum, þ.e. að brjóta fyrirtæki upp og vinda ofan af hagsmunaflækjunni sem er oft rót slíkra brota. Nú orðið eru afleiðingar svona lögbrota fremur í formi sektargreiðslna. Sem fyrirtækin virðast fara nokkuð létt með að greiða og halda svo áfram starfsemi líkt og ekkert hafi í skorist. Um leið hefur bankarekstur þróast í þá átt að vafasamar hagsmunatengingar verða sífellt algengari, sem ógnar eðlilegri samkeppni og eðlilegum viðskiptaháttum.

Hin mikla tíðni umfangsmikilla og einbeittra samkeppnisbrota og annarra efnahagsbrota hlýtur að vera talsvert áhyggjuefni. Ekki bara fyrir fólk sem er tortryggið útí kapítalismann, heldur jafnvel ennþá frekar fyrir þau okkar sem telja hann ákjósanlegasta form viðskiptalífsins.

Mjög áhugavert verður að fylgjast með málaferlunum vestra um hina furðulegu viðskiptahætti á álmörkuðum. Það verður einnig áhugavert að sjá hvort umræddir viðskiptahættir á álmörkuðum koma til með að hafa einhver áhrif á stefnu íslenskra stjórnvalda gagnvart uppbyggingu enn eins álvers hér, nú þegar um 75% raforkunnar sem hér er framleidd fer til álvera. Er ekki tímabært að stjórnmálamennirnir átti sig á geysilegu mikilvægi þess að orkukaupendahópurinn verði fjölbreyttari?

23. febrúar 2014

Stærsta efnahagstækifæri Íslands

Undafarið hafa nokkrir þekktir fjölmiðlar fjallað um þá hugmynd að leggja raforkukapal milli Íslands og Bretlands. Sú umfjöllun hefur verið á jákvæðum nótum. Bæði Economist og Finacial Times telja þetta athyglisverðan möguleika. Þessir fjölmiðlar benda á að slíkur kapall myndi bæði skapa Íslandi auknar útflutningstekjur og um leið veita Bretum aðgang að orku sem væri mun Meira
27. janúar 2014

Orkustefna Bretlands verður sífellt áhugaverðari

Orkustefna breskra stjórnvalda er að verða sífellt áhugaverðari fyrir okkur Íslendinga. Í desember sem leið (2013) birti breska orkumálaráðuneytið uppfærða tillögur sínar um orkustefnu, sem ráðgert er að taki gildi nú síðar á árinu (2014). Þar er m.a. er að finna endurskoðuð viðmiðunarverð á raforku vegna nýrra orkuverkefna. Þessar nýju tillögur gefa sterkar vísbendingar um Meira
12. desember 2013

Century vill koma áhættunni yfir á Landsvirkjun

Í fréttum í dag hefur komið fram að Michel Bless, forstjóri Century Aluminium, telji litlar líkur á að álver rísi í Helguvík nema betra orkuverð bjóðist. Og að fátt bendi til þess að það gerist á næstunni.Í frétt Viðskiptablaðsins um þetta segir að Bless „segist tilbúinn að líta á fjárfestingu fyrirtækisins í álveri í Helguvík sem sokkinn kostnað.“ Og að málflutningur hans á Meira
24. nóvember 2013

Notalegur Sunnudagsmorgunn

Þennan Sunnudagsmorgunn spjallaði Gísli Marteinn Baldursson við iðnaðarráðherra. Viðtalið snerist að verulegu leyti um álver í Helguvík. Því miður urðu þær umræður þokukenndari en búast hefði mátt við af hinum skelegga og fríska stjórnanda.Staðan er ekkert óskýrVið þetta tækifæri sagði ráðherrann, Ragnheiður Elín Árnadóttir, að biðstaðan með Helguvíkurverkefnið væri slæm. Betra væri að Meira
31. október 2013

Sæstrengurinn

Í Fréttablaðinu í dag birtist grein þar sem fjallað er um þá hugmynd að leggja rafstreng milli Bretlands og Íslands. Höfundar greinarinnar eru þeir Skúli Jóhannsson og Valdimar K. Jónsson. Greinin einkennist mjög af varnaðarorðum og áherslu á það sem illa gæti farið í tengslum við slíka framkvæmd. Niðurstaða greinarhöfunda er að málið hafi ekki verið nálgast af nægilegu raunsæi. Og þeir telja að Meira
27. september 2013

Snjallir snúningar móðurfélags Norðuráls

Álverð er lágt um þessar mundir og fjölmörg álver í heiminum eru rekin með tapi. En þó svo lágt álverð sé víða að valda áliðnaðinum verulegum vandræðum, þá er greinilegt að sum álfyrirtæki eru lagin við að nýta aðstæður sér í hag. Century eykur álframleiðslu sína á tímum offramboðs Hér verður fjallað um það hvernig bandaríska álfyrirtækið Century Aluminum, sem að stærstu leyti er í eigu Meira
14. september 2013

Svört skýrsla Boston Consulting Group

Vestræni áliðnaðurinn er líkt og staddur á hnífsegg. Upp virðist vera komin afar viðkvæm staða, sem skapar mikla óvissu. Um þessar ógöngur, sem áliðnaðurinn hefur reyndar fyrst og fremst sjálfur komið sér í, er fjallað í nýlegri skýrslu Boston Consulting Group. Skýrslan sú er til umfjöllunar hér:InngangurNú í vikunni birtist viðtal við forstjóra álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík. Þar lýsir Meira
26. ágúst 2013

Hvaða álver á Íslandi lokar fyrst?

Í kosningabaráttunni fyrir Alþingiskosningarnar nú í vor virtist sem sumir þingframbjóðendur teldu það nánast formsatriði að koma framkvæmdum á fullt við byggingu nýs álvers í Helguvík. Þetta viðhorf var sérstaklega áberandi hjá frambjóðendum í Suðurkjördæmi, en innan kjördæmisins eru bæði Helguvík og margir virkjunarkostir. Umrætt viðhorf stjórnmálamannanna bar ekki vott um mikið raunsæi eða Meira
2. júlí 2013

Sviptingar í áliðnaðinum

„Seint á síðasta ári (2007) var Alcan keypt af risafyrirtækinu Rio Tinto Group. Fyrir litla 38 milljarða USD, sem mörgum þótti all hressilegt. [...] Spurning hvort Rio Tinto hafi hugsanlega greitt full mikið fyrir bitann? [...] Og sé hugsanlega að lenda í fjárhagskröggum vegna kaupanna?“Versta viðskiptaákvörðun sögunnar Tilvitnunin hér að ofan er af Orkublogginu frá því október Meira
20. maí 2013

Setjum verðmætasköpun í forgang

Í síðustu grein höfundar hér á viðskiptasíðu mbl.is var bent á að með útflutningi á raforku sé unnt að fá a.m.k. 30% hærra verð fyrir íslenska raforku heldur en stóriðjan hér er að greiða. Þetta myndi auka framleiðni í orkugeiranum hér umtalsvert. Þarna var vel að merkja tekið mið af almennu markaðsverði á raforku í Evrópu. Ef við göngum skrefi lengra og reynum að nýta okkur Meira
17. apríl 2013

Rafmagnskapall milli Evrópu og Íslands

Raforkuverð í vestanverðri Evrópu (heildsöluverð án skatta) er almennt miklu hærra en hér á landi. Munurinn er gjarnan tvöfaldur og stundum þrefaldur eða jafnvel ennþá meiri. Þess vegna gætu raforkuframleiðendur á Íslandi hagnast verulega af tengingu við Evrópu. Með slíkri tengingu væri unnt að fullnýta afl vatnsaflsvirkjananna hér þegar raforkuverðið í Evrópu er hátt, en flytja inn rafmagn (og Meira
13. mars 2013

Olíuþjóð 2035?

Það er skammt stórra högga á milli hér á Klakanum góða. Í janúar sem leið vorum við nánast útnefnd olíuþjóð. Og nú er sagt að við séum líka að verða gullþjóð. Svo voru Norðmenn nýverið að birta nýtt álit sitt á Jan Mayen svæðinu og segja að þar kunni að vera milljarðar tunna af vinnanlegri olíu.Norska Olíustofnunin (NPD) tekur að vísu fram að það sé líka mögulegt að enga olíu né gas að finna Meira
25. febrúar 2013

Jarðvarmaráðstefna í heimsklassa

Í næstu viku fer fram stór og metnaðarfull jarðvarmaráðstefna hér í Reykjavík; Iceland Geothermal Conference 2013. Ráðstefnan stendur yfir dagana 5.-7. mars. Meðal fyrirlesaranna er bæði að finna margt af fremsta vísindafólki heims á sviði jarðvarmans og ýmsa aðra mjög áhrifamikla einstaklinga. Í þeim hópi er fólk sem getur haft mikið um það að segja hvernig uppbygging verður í jarðvarmageiranum Meira
3. febrúar 2013

Afsláttur veittur af Landsvirkjun?

Nei - það verður enginn afsláttur veittur af Landsvirkjun. A.m.k. ekki ef marka má fyrirsögn Viðskiptablaðsins, þar sem rætt er við Helga Magnússon, stjórnarformann Lífeyrissjóðs verslunarmanna. Samkvæmt umræddri frétt í Viðskiptablaðinu segir Helgi að enginn fái að kaupa hluti í Landsvirkjun „nema á fullu verði“. Og að það verði „örugglega hátt verð“.Það er að vísu svo að Meira
15. janúar 2013

Orkugeirinn á uppleið

Nú eru liðin rúmlega fjögur ár frá því íslenska bankakerfið fór á hliðina - nánast allt í einni svipan. Því miður fór svo að þetta fall nokkurra einkarekinna fyrirtækja, sem aðallega skulduðu erlendum kröfuhöfum, bitnaði hart á íslenskum efnahag. Fyrir því eru ýmsar ástæður sem ekki verða raktar hér, enda flestum kunnar. En meðal afleiðinganna var mikið gengisfall íslensku krónunnar og stórlega Meira
24. nóvember 2012

McKinsey talar fyrir sæstreng

Enn og aftur hefur athygli verið vakin á því hversu arðsemi í íslenska orkugeiranum er lítil.Ekki er langt síðan út kom skýrsla unnin af Sjónarrönd, þar sem þessi litla arðsemi var útlistuð. Og nú síðast kom þetta fram í nýrri skýrslu bandaríska ráðgjafafyrirtækisins McKinsey.Skýrsla McKinsey ber yfirskriftina Charting a Growth Path for Iceland. Þar er fjallað um efnahagslega stöðu Íslands og Meira
10. október 2012

Dauflegt útboð í skugga Noregs

Senn líður að því að Orkustofnun taki afstöðu til þeirra þriggja umsókna sem bárust stofnuninni um einkaleyfi til kolvetnisleitar og -vinnslu á Drekasvæðinu. Einungis tvö olíufélög sóttu þarna um. Í báðum tilvikum er um að ræða fremur lítil bresk félög. Þriðja umsóknin barst frá óskráðu íslensku félagi, sem ekki hefur reynslu af olíuleit. Það er athyglisvert að bera þetta útboð saman við nýleg Meira
3. september 2012

Uppgangur á Norðurslóðum

Undanfarin ár hafa nágrannar okkar við norðanvert Atlantshaf sumir hverjir upplifað mikinn efnahagsuppgang. Það á t.d. bæði við um Kanadamenn og Grænlendinga og einnig Norðmenn. Miklar fjárfestingar í þessum löndum má m.a. rekja til þess hversu hrávöruverð hefur verið hátt, þ.e. verð á olíu og á fjölmörgum málmum.Noregur er einn stærsti olíuútflytjandi heims og því streyma tekjurnar þar inn þegar Meira