1. október 2015 kl. 10:20

Strönduð orka og lítil arðsemi

Í kjölfar nýlegs fundar Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um mögulegan sæstreng milli Íslands og Bretlands hafa orðið nokkrar umræður og skrif um ágæti eða ómöguleika slíks verkefnis. Í þessu sambandi er vert að árétta nokkur atriði sem valda því að sæstrengur af þessu tagi er áhugavert tækifæri fyrir Íslendinga. 

Þau jákvæðu tækifæri sem sæstrengur býður okkur upp á felast m.a. í möguleikanum á aukinni og jafnvel stóraukinni arðsemi af raforkusölu. Eins og útskýrt var í síðustu grein minni hér á viðskiptavef mbl.is. Að auki býður sæstrengur t.d. upp á aukið orkuöryggi á Íslandi og að ná betri nýtingu af orkufjárfestingunum hér. Þarna er þó ýmis óvissa fyrir hendi og afar mikilvægt að skoða málið vel og af kostgæfni og fagmennsku. Hér verður fjallað um nokkur mikilvæg atriði vegna sæstrengsverkefnisins.

Sæstrengur skapar Íslandi tækifæri til að losna af strandstað

Ísland er langstærsti raforkuframleiðandi heims miðað við höfðatölu. En vegna þess að Ísland er aflokað raforkukerfi er orkan hér strönduð. Skortur á aðgangi okkar að stærri raforkumarkaði með mikla eftirspurn er líkt og ef t.d. Noregur eða Katar ættu enga möguleika á að selja olíu eða jarðgas til útlanda.

Ef Noregur og Katar væru í slíkri stöðu væri e.k. offramboð af olíu og gasi í þessum löndum - og verðið lágt og arðsemin miklu lægri en ella. Sama má segja um íslensku orkuna. Eins og staðan hér er, og hefur verið, er orkan hér strönduð. Og mikilvægt hagsmunamál fyrir þjóðina alla að a.m.k. hluti orkunnar eigi aðgang að erlendum mörkuðum, þar sem gott verð býðst.

Norðmenn sjá eðlilega mikinn hag í útflutningi á bæði jarðgasi og olíu (og það jafnvel þó svo þetta séu ekki endurnýjanlegar auðlindir). Ef við Íslendingar höfnum tækifæri til raforkuútflutnings væri það álíka eins og Norðmenn höfnuðu því að flytja út olíu og gas.

Ættu Norðmenn ekki að stunda útflutning á orku?

Með slíkri einangrunarstefnu væri eldsneytisverð vissulega mögulega eitthvað lægra í Noregi en er - vegna mikils framboðs af olíu í landinu. En með slíkri stefnu nytu Norðmenn miklu minni skatttekna - og ættu engan olíusjóð. Sá mikli sjóður og skatttekjurnar, sem tryggja þeim stöðu og lífskjör sem einhver allra auðugasta þjóð heims, væru þá ekki svipur hjá sjón.

Það er reyndar svo að með sömu rökum og þeim sem beitt hefur verið gegn útflutningi á raforku frá Íslandi, þá ættu þjóðir yfirleitt ekki mikið að vera að stússa í útflutningi. Því það sé svo áhættusamt - eða þá að svoleiðis leiði bara til þess að sama vara verði dýrari en ella á heimamarkaðnum. Slíkur málflutningur stenst auðvitað ekki hagfræðilega. Ef það er unnt tæknilega að flytja út íslenska raforku og selja hana þannig á háu verði, þá er þar um að ræða mjög áhugavert efnahagslegt tækifæri fyrir Íslendinga. Eðlilegt er að skoða þetta tækifæri af alvöru og fordómalaust.

Nánari könnun og viðræður eru mikilvægar

Einangrunarstefna Norðmanna gagnvart olíu og jarðgasi væri augljóslega firra. Sama gildir um málflutning þeirra sem tala gegn sæstrengshugmyndinni. Sá málflutningur er að megninu til tóm vitleysa, þar sem farið er rangt með staðreyndir um breska hvatakerfið um endurnýjanlega orku og nefndar kostnaðartölur um sæstreng sem styðjast ekki við neinar haldbærar röksemdir.

Einnig má oft sjá í skrifum gegn sæstrengshugmyndinni að menn setji fram fyrirframgefnar niðurstöður. Svo sem um að útilokað sé að fá nógu hátt verð fyrir orkuna, sæstrengurinn verði alltof dýr og/eða að stórkostlegar tækniframfarir séu handan við hornið sem muni tryggja heiminum ótakmarkaða raforku á lágu verði.

Þetta er skrýtinn málflutningur. Því það er augljóst að umræddri óvissu um t.d. orkuverð og kostnað verður ekki eytt nema með ítarlegri könnun og viðræðum. Hið eina rétta í stöðunni er að ganga þar til verks, þ.e.a.s. að kanna málið ítarlega. Og þ.á m. að eiga viðræður við bresk stjórnvöld og fá á hreint hvort þarna væri unnt að ná saman um orkuverð og orkumagn.

Ýmislegt bendir til þess að þarna sé afar áhugavert tækifæri fyrir hendi, sem geti skipt miklu fyrir hagsmuni Íslendinga og verið jákvætt fyrir íslenskan efnahag. Það er samt ekki víst að verkefnið sé raunhæft eða nægjanlega arðbært. Það mun koma í ljós með nánari athugun og viðræðum. 

Þjóðarhagsmunir að leiðarljósi

Auðvitað veit allt hugsandi og fordómalaust fólk að það er skynsamlegt að huga að slíkum möguleikum til aukinna útflutningstekna - og kanna hvort slíkt geti verið ábatasamt og farsælt fyrir þjóðina. Fólk veit líka að málflutningur gegn því að slík tækifæri séu könnuð til hlítar er fyrst og fremst til kominn vegna þess að verið er að gæta einhverra sérhagsmuna.

Þar virðist einkum og sér í lagi markmiðið að hygla hagsmunum erlendra stóriðjufyrirtækja á Íslandi. Vissulega eru svo aðrir sem tala gegn strengnum sem einfaldlega virðast ekki skilja hvað hugmyndin gengur út á eða misskilja hana. Ég vil taka það skýrt fram að ég lít á málið út frá hreinum þjóðarhagsmunum og engu öðru. Og vona svo sannarlega að stjórnvöld geri það líka.

Könnum tækifærið af kostgæfni og gætum okkur á sérhagsmunum

Það er alls ekki víst að hugmyndin um sæstreng gangi upp. Verkefnið er of skammt á veg komið til að hægt sé að fullyrða um það. En að hafna tækifærinu og sleppa því að kanna það til hlítar væri bæði tákn um kjánaskap og yfirgengilegt metnaðarleysi.

Hagsmunabarátta í íslensku atvinnulífi er oft ansið mikil. Og það eru til bæði fyrirtæki hér og atvinnugreinar sem myndu sennilega fagna því mjög að þetta tækifæri til tengingar við annan raforkumarkað væri skoðað sem minnst. Þar kemur áliðnaðurinn kannski fyrst upp í hugann.

Sá iðnaður notar hátt í 3/4 allrar þeirrar raforku sem framleidd er á Íslandi - og kærir sig af eðlilegum ástæðum alls ekki um að fá þar umtalsverða samkeppni. Enda nýtur áliðnaðurinn hér og stóriðjan þess að fá raforkuna á afar lágu verði vegna lítillar eftirspurnar sem hér er miðað við orkumagnið. Í sumum tilvikum er þar um að ræða sannkallað botnverð. Og sökum þess að þar eru stórir raforkusamningar að losna eftir einungis örfá ár (2019) er nú kominn í gang mikill áróður gegn sæstrengshugmyndinni.

Áróður gegn sæstreng til að vernda sérhagsmuni

Fólk ætti að spyrja sig af hverju allt í einu eru komin fram svo mikil skrif gegn sæstreng og reyndar líka gegn Landsvirkjun eins og raun ber vitni. Hvað eru menn hræddir við? Gæti kannski komið í ljós að sæstrengur sé bæði geysilega arðsamt tækifæri fyrr Ísland og raunhæft verkefni?

Þarna eru geysilegir hagsmunir í húfi. Í því sambandi er t.d. ágætt að hafa í huga að bara á síðustu átta árum nam rekstrarhagnaður Norðuráls (EBITDA) meira en einum milljarði USD. Þetta er í reynd að megninu til auðlindaarður af nýtingu íslenskra orkuauðlinda. Staðan í dag er sem sagt sú að þarna þjónar arðurinn af nýtingu umræddra vatnsafls- og jarðvarmaauðlinda fyrst og fremst þeim tilgangi að halda uppi hlutabréfaverði Century Aluminum. Og um leið hífa upp hlutabréfaverð stærsta eiganda Century; hrávörurisans Glencore. Þetta er ástand sem umrædd fyrirtæki vilja og reyna af öllum mætti að viðhalda. Og vilja koma í veg fyrir alla umtalsverða aukna samkeppni um orkuna. Til að tryggja sér sterka samningsstöðu í tengslum við endurnýjun orkusamninga.

Vert er að minna á að umræddur áróður gegn sæstreng færðist mjög í aukana í kjölfar þess að ég skrifaði grein þar sem ég benti einmitt á að stórir orkusamningar væru senn að renna hér út. Það var þá sem framkvæmdastjóri hjá Norðuráli spratt fram með afar ósvífna grein þar sem reynt var að gera lítið úr mínum málflutningi. Sú grein var uppfull af rangfærslum og útúrsnúningum og var sannkallað vindhögg. Í kjölfarið komu svo fótgönguliðarnir - með hverja þvælugreinina á fætur annarri. Taki þeir til sín sem eiga.

Upplýst og hlutlaus ákvörðun mikilvæg

Slíkur áróður er til allrar hamingju dæmdur til að mistakast. Þ.e. að skila engum árangri til handa viðkomandi stóriðjufyrirtækjum. Fótgönguliðar viðkomandi fyrirtækja geta hamast eins og þeir vilja í fjölmiðlum og annars staðar með barnalegan áróður sinn og rökleysu. Stjórnvöld og skynsamur almenningur sér léttilega í gegnum þann áróður. Og veit að eðlilegt er að kanna sæstrengstækifærið til fulls.

Slík skynsamleg viðhorf komu einmitt skýrt fram hjá fjármálaráðherra í erindi hans á áðurnefndum fundi Bresk-íslenska viðskiptaráðsins. Ráðherrann er vel að merkja sá sem skipar stjórn ríkisfyrirtækisins Landsvirkjunar. Sem undanfarið hefur ásamt stjórnendum Landsvirkjunar leitast við að auka arðsemi fyrirtækisins og auka arðgreiðslur í ríkissjóð. Slíkt er öllum landsmönnum til heilla.

Með upplýstri umræðu og meiri athugun á sæstrengsverkefninu getum við vitað hvaða skref er farsælt að þjóðin taki með þetta mál. Það er alls ekki víst að sæstrengsverkefnið reynist framkvæmanlegt. En það er ekki fyrr en slík vinna hefur farið fram, að komnar verða góðar forsendur til að komast að niðurstöðu í málinu - og taka ákvörðun um framhaldið. Hver sú ákvörðun verður er ómögulegt að sjá fyrir. En vonandi mun sú ákvörðun byggja á staðreyndum og þjóðarhagsmunum en ekki á áróðri og sérhagsmunum.

25. september 2015

Jákvæður áhugi á sæstreng

Nú í vikunni fór fram áhugaverður fundur á vegum Bresk-íslenska viðskiptaráðsins um mögulegan sæstreng og raforkuviðskipti milli Bretlands og Íslands. Þar talaði m.a. fjármálaráðherrann, Bjarni Benediktsson, ásamt Herði Arnarsyni, forstjóra Landsvirkjunar og fólki úr breska og bandaríska orkugeiranum. Þeirra á meðal voru Charles Hendry, fyrrum orkumálaráðherra Bretlands, og meira
16. september 2015

Skipulagður áróður gegn aukinni arðsemi Landsvirkjunar og OR

Undanfarið hefur mátt sjá ýmis skrif og ummæli sem endurspegla áhyggjur eða ótta álfyrirtækjanna hér. Áhyggjur af minnkandi hagnaði fyrirtækjanna því Íslandi kunni að opnast tækifæri til að fá hærra verð fyrir raforkuna. Til að sporna gegn þessu tækifæri Íslands hefur m.a. Samál (Samtök álfyrirtækja á Íslandi) verið virkjað til að breiða út villandi upplýsingar. Allt virðist þetta meira
10. september 2015

Upplýsingadeild Samáls breiðir út rangar upplýsingar

Framkvæmdastjóri Samtaka álfyrirtækja á Íslandi, Pétur Blöndal, heldur áfram að bera á borð villandi upplýsingar fyrir lesendur mbl.is. Í nýrri grein Péturs er með ýmsum hætti reynt að láta líta svo út að álverin á Íslandi séu almennt að greiða býsna hátt raforkuverð í alþjóðlegum samanburði. Og þar vísað til upplýsinga frá CRU Group; upplýsinga sem Pétur virðist ekki átta sig á að eru meira
mynd
7. september 2015

Ævintýrið á Drekanum að byrja?

Við bíðum ennþá eftir Drekamyndinni æsilegu frá Arnaldi og Balta. Aftur á móti er olíuleitin loks að byrja á Drekasvæðinu. Með hljóðendurvarpsmælingum sem beinast að leitarsvæði kínverska olíufyrirtækisins CNOOC. Skv. upplýsingum á vef Orkustofnunar er CNOOC með 60% hlut í þessu leitar- og vinnsluleyfi. Og er þar framkvæmdaaðilinn. Íslenska fyrirtækið Eykon Energy á meira
25. ágúst 2015

Hydro Québec hækkar verð til álvera

„Hlutverk Samáls er að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað.“ Þannig segir í grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastóra Samáls (samtaka álframleiðenda á Íslandi). Þetta er verðugt hlutverk; að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað. En því miður virðist hlutverk Samáls eitthvað hafa skolast til. Það er a.m.k. svo að þegar litið er til málflutnings meira
12. ágúst 2015

Kanada er óraunhæft fordæmi

„Raforkuverð í Kanada hefur einnig lækkað. [...] Nýlega hafa verið gerðir stórir orkusamningar við þrjú álver í Kanada sem framleiða yfir milljón tonn af áli eða meira en sem nemur allri álframleiðslu hér á landi. [...] Meðal orkuverð í þeim samningum er mjög svipað og meðalverð til álvera á Íslandi er í dag samkvæmt CRU eða 28 til 31 USD eftir því við hvaða álverð er miðað.&ldquo meira
mynd
27. júlí 2015

Raforkuverð Landsvirkjunar til álvera á Íslandi 2005-2014

Eftirfarandi graf sýnir hvert raforkuverð Landsvirkjunar til álveranna hér á Íslandi var árin 2005-2014. Öll verð sem hér eru sýnd eru með flutningi. Álverin eru þrjú; rauði liturinn er raforkuverðið til álvers Norðuráls á Grundartanga (Century Aluminum), græni liturinn er raforkuverðið til álversins í Straumsvík (Rio Tinto Alcan; RTA) og ljósblái liturinn er verðið til meira
20. júlí 2015

Er offramboð forsenda sæstrengs?

Er offramboð af íslenskri orku nauðsynleg forsenda sæstrengs milli Íslands og Bretlands? Svo mætti halda þegar lesin er nýleg grein á miðopnu Morgunblaðsins. Greinin sú er eftir Elías Elíasson, sem titlar sig fyrrverandi sérfræðing í orkumálum hjá Landsvirkjun. Umræddri grein Elíasar virðist einkum beint að grein Óla Grétars Blöndal Sveinssonar í Fréttablaðinu, þar sem meira
13. júlí 2015

Upprunavottorð raforku eru áhugaverð tekjulind

Undanfarnar vikur hefur skapast nokkur umræða í fjölmiðlum og víðar um upprunavottorð eða upprunaábyrgðir vegna grænnar raforku. Því miður hefur þessi umræða einkennst af talsverðum misskilningi og vanþekkingu. Og margir þeirra sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa bersýnilega lítt reynt að kynna sér efnið áður en þeir fjölluðu um það og ennþá síður löggjöfina sem um þetta fjallar. Hér meira
6. júlí 2015

Hagsmunir Century Aluminum í öndvegi?

Það virðist vinsælt þessa dagana að halda því fram að hugmyndir sem Landsvirkjun hefur sett fram um sæstreng milli Íslands og Bretlands séu lítt raunhæfar. Nú síðast skrifaði Skúla Jóhannsson, verkfræðingur, grein um þessi efni í Morgunblaðið. Skúli hefur ítrekað lýst efasemdum um ágæti sæstrengs og sagt Landsvirkjunar þurfa að nálgast málið af meira raunsæi. Og lagt áherslu á meira
26. júní 2015

Samál á villigötum

Rangfærslur og villandi upplýsingar hafa upp á síðkastið borist frá snyrtilegum skrifstofum framkvæmdastjórnar Norðuráls og Samáls. Þar er því m.a. haldið fram að meðalverð til á álvera á Íslandi sé 29-30 USD/MWst. Sem er augljóslega rangt. Hér verður fjallað um þetta meðalverð og hvernig Norðurál og Samál hafa flækt sig í delluboðskap. Sem felst í því að vitna til talna sem eru gefnar upp í meira
16. júní 2015

Sumarkoma í raforkugeiranum

Eftirfarandi er opið bréf til Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls. Samál eru hagsmunasamtök álframleiðenda á Íslandi og eru félagar samtakanna þrír talsins; fyrirtækin sem reka hér álverin þrjú. Sæll Pétur. Tilefni þessara skrifa er grein sem þú birtir nýlega á viðskiptavef mbl.is. Vegna þeirrar greinar þinnar vil ég benda þér á eftirfarandi atriði. Eplin og appelsínurnar flækjast meira
13. júní 2015

Norðurál í 35 USD/MWst

Það styttist í að raforkusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls (Century Aluminum) frá 1999 renni út. Sú orka nemur um þriðjungi af raforkunotkun álversins í Hvalfirði. Samkvæmt yfirlýsingu Michael Bless, forstjóra Century, eru viðræður byrjaðar milli fyrirtækisins og Landsvirkjunar um nýjan raforkusamning. Gera má ráð fyrir að þar verði ekki samið um lægra verð en 35 USD/MWst. Verðið gæti þó meira
7. júní 2015

Ísland og staðarval gagnavera

Fréttir liðinnar viku voru margar góðar. Meðal annars sú frétt að Ísland sé heppilegur staður fyrir gagnaver. Phil Schneider um Ísland og gagnaver Það var á föstudaginn var að fram fór opinn fundur á vegum Landsvirkjunar undir yfirskriftinni Gagnaver í leit að staðsetningu. Að afloknum markvissum inngangsorðum Björgvins Skúla Sigurðssonar frá Landsvirkjun meira
26. maí 2015

Tímamót í efnahagssögu Íslands

Í þessari grein er fjallað um nokkur mikilvæg atriði, sem munu hafa afgerandi áhrif á arðsemi í raforkuframleiðslu Íslands á komandi árum. Meðalverð er um 20 USD/MWst: Í fyrsta lagi er hér fjallað um meðalverð á raforku til stóriðju á Íslandi. Það er nú um 20 USD/MWst, sem er mjög lágt í alþjóðlegu samhengi; með því lægsta í heimi. Tímamót árið 2019: Í öðru lagi er hér fjallað um meira
15. maí 2015

Spurningar um sæstreng

Í grein á vef mbl.is er í fyrirsögn spurt hvort sæstrengur sé glapræði eða gróðamylla? Í greininni eru að auki settar fram a.m.k. fimm aðrar spurningar af hálfu höfundarins, Sveins Valfells. Sveinn gerir aftur á móti lítið í því að reyna að svara spurningunum og er því væntanlega að beina þeim til lesenda. Sjálfum þykir mér spurningarnar  athyglisverðar og vil því beina athygli að meira
5. maí 2015

Raforkuframleiðsla - viðskipti eða veðmál?

Vegna óvenju mikillar óvissu á álmörkuðum og yfirvofandi aukins útflutnings á áli frá Kína eru mörg álfyrirtæki í heiminum að draga úr framleiðslu sinni. Og jafnvel að breyta viðskiptamódeli sínu og horfa til annarra framleiðslu sem er vænlegri til að skapa meiri arð en álframleiðsla. Ég mun fljótlega fjalla nánar um þá þróun. Hér er umfjöllunarefnið aftur á móti hvernig Landsvirkjun hefur meira
28. apríl 2015

Álflóðið frá Xinjiang

Áliðnaður í Kína hefur byggst upp geysilega hratt og hraðar en kínversk eftirspurn eftir áli. Þetta hefur skapað offramboð af áli innan Kína, álverð þar er lágt og taprekstur mjög útbreiddur í kínverska áliðnaðinum. Nýlega hafa kínversk stjórnvöld ákveðið að lækka raforkuverð til nokkurra iðngreina og þær lækkanir munu koma kínverska áliðnaðinum til góða. Við þetta meira
20. mars 2015

Grillir í sólkórónu sæstrengs

Iðnaðarráðherra hefur ekki viljað þekkjast boð Breta um að ræða um sæstrengsmálið (mögulegan rafstreng milli Bretlands og Íslands). Hefur sagst vilja skoða málið betur áður en komi til slíkra viðræðna - jafnvel þó svo viðræðurnar yrðu óskuldbindandi og fyrst og fremst í því skyni að upplýsa málið betur. Hér verður athyglinni beint að nýlegu erindi sem varpar ljósi á stefnu iðnaðarráðherra í meira

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Höfundur starfar að ráðgöf og viðskiptaþróun á sviði orkumála. Hann er lögfræðingur frá HÍ, MBA frá Copenhagen Business School (CBS) og er framkvæmdastjóri Askja Energy Partners ehf.

Meira