25. ágúst 2015 kl. 9:59

Hydro Québec hækkar verð til álvera

„Hlutverk Samáls er að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað.“

Þannig segir í grein eftir Pétur Blöndal, framkvæmdastóra Samáls (samtaka álframleiðenda á Íslandi). Þetta er verðugt hlutverk; að miðla almennum upplýsingum um íslenskan áliðnað. En því miður virðist hlutverk Samáls eitthvað hafa skolast til. Það er a.m.k. svo að þegar litið er til málflutnings framkvæmdastjórans hér á mbl.is undanfarið, virðist sem hlutverk Samáls sé þvert á móti að villa um fyrir íslenskum almenningi.

Rangar upplýsingar Samáls um orkuverð til álvera á Íslandi

Ekki er gott að segja hvort umræddur villandi málflutningur Samáls sé settur vísvitandi fram með þessum hætti eða að þarna sé einfaldlega um að ræða skort á þekkingu. En í þessu sambandi er vert að rifja upp að framkvæmdastjóri Samáls hefur ítrekað breitt út rangar upplýsingar um meðalverð á raforku til álvera á Íslandi.

Þar segist hann vera í góðri trú með því að vísa til trúnaðarupplýsinga frá CRU Group. En umræddar upplýsingar, sem framkvæmdastjóri Samáls hefur þarna vísað til frá CRU, eru svo augljóslega rangar að það virðist beinlínis einbeittur ásetningur hans að villa um fyrir lesendum og almenningi. Eins og ég hef áður útskýrt. 

Villandi upplýsingar Samáls um meðalverð raforku til Alcoa í Kanada

Annað dæmi um villandi upplýsingar frá Samáli eru nýleg skrif Péturs um meðalverð í nýjum orkusölusamningum við þrjú álver Alcoa í Kanada. Þar birtir Pétur upplýsingar sem gefa ranga eða afar bjagaða mynd af raunveruleikanum. Og vitnar aftur í CRU. Sem er auðvelt og þægilegt að fela sig á bak við. En hver sá sem kynnir sér umrædda samninga sér fljótt að verðmæti þeirra samninga er miklu meira fyrir raforkufyrirtækið Hydro Québec en Pétur lætur líta út fyrir.

Aukin arðsemiskrafa Hydro Québec

Í umræddum skrifum segir framkvæmdastjóri Samáls að raforkuverðið í þessum kanadísku samningum sé nálægt „28 til 31 USD eftir því við hvaða álverð er miðað“. Þetta er nokkuð lúmskt orðalag hjá Pétri, því hann tiltekur ekki hvaða álverð er þarna miðað við.

Það skal þó tekið fram að þegar miðað er við strípað orkuverð skv. umræddum þremur samningum, þá er þessi tala rétt hjá Pétri sem meðalorkuverð skv. samningunum - að því gefnu að miðað sé við álverð á fyrri hluta ársins 2015. En gallinn á framsetningu Péturs er sá að hann lætur alveg vera að nefna að samningarnir þrír hafa að geyma margvísleg önnur ákvæði. Sem gera þá í reynd miklu meira ívilnandi fyrir raforkusalann (Hydro Québec) heldur en ætla má af orkuverðinu einu saman.

Umrædd tilvísun Péturs til kanadísku samninganna við álverin þrjú er sem sagt fjarri því að gefa raunsanna mynd af umræddum orkusamningunum Hydro Québec við Alcoa. Þess vegna eru upplýsingar Samáls þarna enn og aftur villandi. Þetta hefði Pétur mátt sjá með því að kynna sér efni samninganna, í stað þess að vitna bara í þriðja aðila (CRU). Hið rétta er að með nýju raforkusamningunum við Alcoa, vegna álveranna þriggja, eykst arðsemi Hydro Québec af raforkusölunni til Alcoa. Langt umfram það sem Pétur gaf í skyn.

Ekki aðeins hækkaði meðalverðið á raforkunni til Alcoa umtalsvert, heldur var einnig samið um ýmis önnur atriði sem eykur arð Hydro Québec af samningunum. Niðurstaðan er sú að þegar upp er staðið munu samningarnir að meðaltali vafalítið skila Hydro Québec ámóta verði af raforkusölunni til Alcoa eins og Landsvirkjun nýtur með hæsta raforkuverðinu til álvers á Íslandi í dag (sem er álverið í Straumsvík).

Þagað um ívilnanir til handa raforkusalanum

Í umfjöllun sinni sleppti framkvæmdastjóri Samáls því - vísvitandi eða óafvitandi - að taka fram að í umræddum kanadískum samningum var ekki bara samið um sjálft raforkuverðið. Þarna var líka samið um önnur mikilvæg atriði, sem eru mjög ívilnandi fyrir raforkuframleiðandann; fylkisorkufyrirtækið Hydro Québec.

Í fyrsta lagi lét Pétur vera að nefna að umræddir orkusamningar fela í sér nokkuð víðtækar skerðingarheimildir til handa raforkuframleiðandanum yfir vetrartímann. Til að mæta slíkum skerðingum er líklegt að Alcoa þurfi annað hvort að draga úr framleiðslu eða að kaupa raforku annars staðar frá - á verði sem er almennt miklu hærra. Fyrir vikið eru samningarnir ekki jafn hagkvæmir Alcoa eins og ætla mætti af umfjöllun Péturs.

Í öðru lagi þá lét Pétur þess ógetið að mikilvægur hluti samninganna felst í áætlunum Alcoa um að fjárfesta fyrir 250 milljónir dollara í álverunum þremur. Samkvæmt Alcoa verður þeim fjármunum einkum varið til að auka framleiðslu á áli sem notað verði í bifreiðar. Þarna er um að ræða verulega nýfjárfestingu, sem er til þess fallin að draga sjálft orkuverðið niður. Eins og alþekkt er í samningum um raforkusölu til álvera. Það hefði framkvæmdastjóri Samáls átt að nefna.

Í þriðja lagi - og það sem skiptir hér alveg sérstaklega miklu máli - er að Pétur lét vera að nefna að í þessum samningunum Alcoa og Hydro Québec er kveðið á um kvöð á Alcoa um að afhenda Hydro Québec eignarhlut Alcoa í gríðarstórri vatnsaflsvirkjun. Þar er um að ræða samningsákvæði sem er geysilega mikils virði fyrir Hydro Québec. Og er því afgerandi þáttur um það hvaða verðmæti felast í þessum samningum fyrir raforkufyrirtækið. Það er með ólíkindum að framkvæmdastjóri Samáls skuli hafi þagað um þetta mikilvæga atriði.

Norðuráli mun ekki bjóðast lægra verð en um 35 USD/MWst að núvirði

Meðalverð á raforku til álvera í Kanada er vissulega lágt. En það skýrist af sögulegum og óvenjulegum ástæðum, sem má fyrst og fremst rekja til stórra og löngu uppgreiddra virkjana í eigu Rio Tinto Alcan. Þess vegna miðast engir nýir raforkusamningar við það hvaða meðalverð tíðkast til álvera almennt í Kanada.

Það kanadiska meðalverð á raforkunni hefur m.ö.o. nákvæmlega enga þýðingu þegar samið er um raforkusölu til álvera í dag. Og þess vegna er meðalverðið í nýjum samningum Hydro Québec við Alcoa óralangt umfram kanadíska meðalverðið. Og þegar þeir samningar eru skoðaðir sést að verðmæti þeirra fyrir Hydro Québec er í takti við það sem sjá má í samningi Landsvirkjunar við Rio Tinto Alcan vegna álversins í Straumsvík. 

Þessir nýlegu samningar þarna við Alcoa í Kanada eru þess vegna enn ein vísbending um það að ef nýr raforkusamningur verður gerður milli Norðuráls og Landsvirkjunar, þá er útilokað að Norðuráli bjóðist lægra verð en um 35 USD/MWst. Og jafnvel rök til þess að verðið verði eitthvað hærra.

12. ágúst 2015

Kanada er óraunhæft fordæmi

„Raforkuverð í Kanada hefur einnig lækkað. [...] Nýlega hafa verið gerðir stórir orkusamningar við þrjú álver í Kanada sem framleiða yfir milljón tonn af áli eða meira en sem nemur allri álframleiðslu hér á landi. [...] Meðal orkuverð í þeim samningum er mjög svipað og meðalverð til álvera á Íslandi er í dag samkvæmt CRU eða 28 til 31 USD eftir því við hvaða álverð er miðað.&ldquo meira
mynd
27. júlí 2015

Raforkuverð Landsvirkjunar til álvera á Íslandi 2005-2014

Eftirfarandi graf sýnir hvert raforkuverð Landsvirkjunar til álveranna hér á Íslandi var árin 2005-2014. Öll verð sem hér eru sýnd eru með flutningi. Álverin eru þrjú; rauði liturinn er raforkuverðið til álvers Norðuráls á Grundartanga (Century Aluminum), græni liturinn er raforkuverðið til álversins í Straumsvík (Rio Tinto Alcan; RTA) og ljósblái liturinn er verðið til meira
20. júlí 2015

Er offramboð forsenda sæstrengs?

Er offramboð af íslenskri orku nauðsynleg forsenda sæstrengs milli Íslands og Bretlands? Svo mætti halda þegar lesin er nýleg grein á miðopnu Morgunblaðsins. Greinin sú er eftir Elías Elíasson, sem titlar sig fyrrverandi sérfræðing í orkumálum hjá Landsvirkjun. Umræddri grein Elíasar virðist einkum beint að grein Óla Grétars Blöndal Sveinssonar í Fréttablaðinu, þar sem meira
13. júlí 2015

Upprunavottorð raforku eru áhugaverð tekjulind

Undanfarnar vikur hefur skapast nokkur umræða í fjölmiðlum og víðar um upprunavottorð eða upprunaábyrgðir vegna grænnar raforku. Því miður hefur þessi umræða einkennst af talsverðum misskilningi og vanþekkingu. Og margir þeirra sem hafa tjáð sig um þessi mál hafa bersýnilega lítt reynt að kynna sér efnið áður en þeir fjölluðu um það og ennþá síður löggjöfina sem um þetta fjallar. Hér meira
6. júlí 2015

Hagsmunir Century Aluminum í öndvegi?

Það virðist vinsælt þessa dagana að halda því fram að hugmyndir sem Landsvirkjun hefur sett fram um sæstreng milli Íslands og Bretlands séu lítt raunhæfar. Nú síðast skrifaði Skúla Jóhannsson, verkfræðingur, grein um þessi efni í Morgunblaðið. Skúli hefur ítrekað lýst efasemdum um ágæti sæstrengs og sagt Landsvirkjunar þurfa að nálgast málið af meira raunsæi. Og lagt áherslu á meira
26. júní 2015

Samál á villigötum

Rangfærslur og villandi upplýsingar hafa upp á síðkastið borist frá snyrtilegum skrifstofum framkvæmdastjórnar Norðuráls og Samáls. Þar er því m.a. haldið fram að meðalverð til á álvera á Íslandi sé 29-30 USD/MWst. Sem er augljóslega rangt. Hér verður fjallað um þetta meðalverð og hvernig Norðurál og Samál hafa flækt sig í delluboðskap. Sem felst í því að vitna til talna sem eru gefnar upp í meira
16. júní 2015

Sumarkoma í raforkugeiranum

Eftirfarandi er opið bréf til Péturs Blöndal, framkvæmdastjóra Samáls. Samál eru hagsmunasamtök álframleiðenda á Íslandi og eru félagar samtakanna þrír talsins; fyrirtækin sem reka hér álverin þrjú. Sæll Pétur. Tilefni þessara skrifa er grein sem þú birtir nýlega á viðskiptavef mbl.is. Vegna þeirrar greinar þinnar vil ég benda þér á eftirfarandi atriði. Eplin og appelsínurnar flækjast meira
13. júní 2015

Norðurál í 35 USD/MWst

Það styttist í að raforkusamningur Landsvirkjunar og Norðuráls (Century Aluminum) frá 1999 renni út. Sú orka nemur um þriðjungi af raforkunotkun álversins í Hvalfirði. Samkvæmt yfirlýsingu Michael Bless, forstjóra Century, eru viðræður byrjaðar milli fyrirtækisins og Landsvirkjunar um nýjan raforkusamning. Gera má ráð fyrir að þar verði ekki samið um lægra verð en 35 USD/MWst. Verðið gæti þó meira
7. júní 2015

Ísland og staðarval gagnavera

Fréttir liðinnar viku voru margar góðar. Meðal annars sú frétt að Ísland sé heppilegur staður fyrir gagnaver. Phil Schneider um Ísland og gagnaver Það var á föstudaginn var að fram fór opinn fundur á vegum Landsvirkjunar undir yfirskriftinni Gagnaver í leit að staðsetningu. Að afloknum markvissum inngangsorðum Björgvins Skúla Sigurðssonar frá Landsvirkjun meira
26. maí 2015

Tímamót í efnahagssögu Íslands

Í þessari grein er fjallað um nokkur mikilvæg atriði, sem munu hafa afgerandi áhrif á arðsemi í raforkuframleiðslu Íslands á komandi árum. Meðalverð er um 20 USD/MWst: Í fyrsta lagi er hér fjallað um meðalverð á raforku til stóriðju á Íslandi. Það er nú um 20 USD/MWst, sem er mjög lágt í alþjóðlegu samhengi; með því lægsta í heimi. Tímamót árið 2019: Í öðru lagi er hér fjallað um meira
15. maí 2015

Spurningar um sæstreng

Í grein á vef mbl.is er í fyrirsögn spurt hvort sæstrengur sé glapræði eða gróðamylla? Í greininni eru að auki settar fram a.m.k. fimm aðrar spurningar af hálfu höfundarins, Sveins Valfells. Sveinn gerir aftur á móti lítið í því að reyna að svara spurningunum og er því væntanlega að beina þeim til lesenda. Sjálfum þykir mér spurningarnar  athyglisverðar og vil því beina athygli að meira
5. maí 2015

Raforkuframleiðsla - viðskipti eða veðmál?

Vegna óvenju mikillar óvissu á álmörkuðum og yfirvofandi aukins útflutnings á áli frá Kína eru mörg álfyrirtæki í heiminum að draga úr framleiðslu sinni. Og jafnvel að breyta viðskiptamódeli sínu og horfa til annarra framleiðslu sem er vænlegri til að skapa meiri arð en álframleiðsla. Ég mun fljótlega fjalla nánar um þá þróun. Hér er umfjöllunarefnið aftur á móti hvernig Landsvirkjun hefur meira
28. apríl 2015

Álflóðið frá Xinjiang

Áliðnaður í Kína hefur byggst upp geysilega hratt og hraðar en kínversk eftirspurn eftir áli. Þetta hefur skapað offramboð af áli innan Kína, álverð þar er lágt og taprekstur mjög útbreiddur í kínverska áliðnaðinum. Nýlega hafa kínversk stjórnvöld ákveðið að lækka raforkuverð til nokkurra iðngreina og þær lækkanir munu koma kínverska áliðnaðinum til góða. Við þetta meira
20. mars 2015

Grillir í sólkórónu sæstrengs

Iðnaðarráðherra hefur ekki viljað þekkjast boð Breta um að ræða um sæstrengsmálið (mögulegan rafstreng milli Bretlands og Íslands). Hefur sagst vilja skoða málið betur áður en komi til slíkra viðræðna - jafnvel þó svo viðræðurnar yrðu óskuldbindandi og fyrst og fremst í því skyni að upplýsa málið betur. Hér verður athyglinni beint að nýlegu erindi sem varpar ljósi á stefnu iðnaðarráðherra í meira
12. mars 2015

Grunn olíugreining Landsbankans

Landsbankinn stóð nýverið fyrir áhugaverðum fundi í Hörpu undir yfirskriftinni Hvaða tækifæri skapar lægra olíuverð. Þar flutti m.a. forstöðumaður hagfræðideildar bankans erindi með titlinum Lækkun olíuverðs – orsakir og afleiðingar. Í þessari kynningu var rík áhersla lögð á að sú mikla verðlækkun á olíu sem varð á liðnu ári hafi fyrst og fremst komið til vegna aukinnar og meira
23. febrúar 2015

Alvarlegur misskilningur iðnaðarráðherra

Orkumálaráðherra Bretlands ítrekaði nýlega vilja breskra stjórnvalda til að ræða við Íslendinga um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Og bauð um leið fram aðstoð við gagna- og upplýsingaöflun. Iðnaðarráðherra hefur sent svarbréf þar sem tillögu breska ráðherrans er svo gott sem hafnað. Sem er með öllu óskiljanlegt. Aðspurð um þetta mál segir ráðherrann: „Við förum meira
9. febrúar 2015

Mótum leikreglur vegna arðsemi orkuauðlindanna

Í skýrslunni Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2012, sagði að „arðsemi af rafmagnssölu Landsvirkjunar til stóriðju mundi tæplega standa undir þeim kröfum um ávöxtun sem [gerðar eru] til orkuframleiðslufyrirtækja á frjálsum markaði úti um heim“. Það var m.ö.o. niðurstaða höfunda þessarar skýrslu að meira
21. janúar 2015

Bréfaklemmuspá Goldman Sachs

Olíuverð hefur fallið um meira en helming á innan við hálfu ári. Verðið er nú nálægt 50 USD/tunnu. Greiningafyrirtæki keppast nú við að lækka spár sínar um þróun olíuverðs. Og gefa okkur þessar líka fínu eftiráskýringar um það af hverju olíuverð hefur fallið svo mikið sem raun ber vitni. Goldman Sachs hikstaði í haust sem leið Goldman Sachs er eitt þeirra fyrirtækja sem er nýbúið að meira
2. janúar 2015

Þekking og vanþekking í batnandi veröld

Heimurinn batnandi fer. Og það þó svo margar fréttastofur veraldarinnar kunni að láta ykkur finnast annað. Og þó svo æðstu hershöfðingjar heimsins reyni að láta ykkur finnast annað. Það er staðreynd að heimurinn fer batnandi Sá sem kynnir sér málið kemst brátt að því að nánast sama hvert litið er þá hefur ástand heimsins farið sífellt batnandi síðustu árin og áratugina. meira

Ketill Sigurjónsson

Ketill Sigurjónsson

Höfundur starfar að ráðgöf og viðskiptaþróun á sviði orkumála. Hann er lögfræðingur frá HÍ, MBA frá Copenhagen Business School (CBS) og er framkvæmdastjóri Askja Energy Partners ehf.

Meira