5. maí 2015 kl. 17:17

Raforkuframleiðsla - viðskipti eða veðmál?

Vegna óvenju mikillar óvissu á álmörkuðum og yfirvofandi aukins útflutnings á áli frá Kína eru mörg álfyrirtæki í heiminum að draga úr framleiðslu sinni. Og jafnvel að breyta viðskiptamódeli sínu og horfa til annarra framleiðslu sem er vænlegri til að skapa meiri arð en álframleiðsla. Ég mun fljótlega fjalla nánar um þá þróun. Hér er umfjöllunarefnið aftur á móti hvernig Landsvirkjun hefur undanfarið snúið af braut veðmála yfir í það leggja höfuðáherslu á heilbrigð viðskipti og aukna arðsemi í raforkusölunni.

Sú stefnubreyting var alls ekki sjálfsögð. Einungis eru örfá ár liðin síðan til stóð að auka áhættu Landsvirkjunar ennþá meira og gera fyrirtækið ennþá háðara sveiflum í álverði. Það að ég beini athyglinni hér sérstaklega að álinu er ofureðlilegt. Það er jú svo að um 3/4 allrar raforkusölu á Íslandi fer til álvera. Hjá Landsvirkjun er þetta hlutfall nú um 73%.

Jafnvel þó svo þetta hlutfall muni vonandi fara lækkandi til framtíðar (því raforkusala til álvera skilar lágmarksarðsemi til orkufyrirtækja) mun raforkusalan til álveranna hér verða afgerandi áhrifaþáttur fyrir arðsemi Landsvirkjunar á komandi árum. Þess vegna skiptir svo miklu máli hvernig Landsvirkjun hefur náð að draga úr áhættu sinni í raforkusölunni til áliðnaðarins. 

Tvöfalda átti álframleiðslu á Íslandi á örfáum árum

Hér í upphafi er vert að rifja upp að um það leiti sem dró að efnahagshruninu hér á Íslandi voru miklar áætlanir um byggingu nýrra álvera hér. Álframleiðsla á Íslandi, sem þá var um 800 þúsund tonn á ári, var talin geta verið komin í um 1.500 þúsund tonn árið 2015. Þar var horft til nýrra álvera í Helguvík og á Bakka við Húsavík, auk stækkana núverandi álvera. Það var meira að segja rætt um að áliðnaður hér gæti vaxið í að framleiða um 2.500 þúsund tonn af áli árlega, en þar var horft til lengri tíma. Reyndin hefur orðið sú að áliðnaðurinn hér framleiðir nú um 850 þúsund tonn árlega. Og stefnir líklega í að ársframleiðslan verði senn 900 þúsund tonn (vegna framleiðsluaukningar hjá Norðuráli í Hvalfirði).

Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig áliðnaðurinn hér mun þróast. En það er alþekkt að a.m.k. sum álfyrirtæki hafa mikinn áhuga á að auka framleiðslu sína hér og reisa fleiri álver (sbr. einkum fyrirhugað álver Century Aluminum í Helguvík). Ástæða þessa áhuga er fyrst og fremst sú að hér hafa álfyrirtækin löngum fengið svo hagstæða raforkusamninga að rekstur þeirra hefur verið með eindæmum áhættulítill. Þar að auki er skattkerfið hér álverunum hagkvæmt, svo og reglur um reikningsskil (t.d. engar reglur um hámark skuldsetningar eða lágmark eigin fjár, en slíkar reglur þekkjast víða erlendis).

Hagkvæmni raforkusamninganna fyrir álfyrirtækin hér birtist bæði í fremur lágu grunnverði og að raforkuverðið er tengt sveiflum í álverði á LME (London Metal Exchange). Í þessi sambandi má rifja upp að skv. Century Aluminum nýtur fyrirtækið svo hagkvæms raforkuverðs hér að fjárflæði álversins á Grundartanga er jákvætt svo til sama hvert álverð er hverju sinni: Grundartangi smelter in Iceland generates significant free cash flow in virtually all price environments.

Álfyrirtæki sækjast eftir að velta áhættu yfir á raforkufyrirtæki

Fyrir álfyrirtækið virkar raforkusölusamningur sem tengdur er við álverð á LME fyrst og fremst sem áhættuvörn. Fyrir raforkufyrirtækið svipar þetta aftur á móti meira til veðmáls. Raforkufyrirtækið fær ábata ef álverð hækkar yfir viðmiðunarverð, en missir af tekjum ef álverð lækkar. Raforkufyrirtækið er því að veðja á að álverð hækki.

Fyrir raforkufyrirtækið getur svona fyrirkomulag vissulega leitt til ábata ef verðþróunin á álmarkaði verður upp á við. En fyrst og fremst setur þetta raforkufyrirtækið í hlutverk spákaupmanns á álmarkaði og eykur áhættu þess. Slíkt hlutverk samrýmist illa þeim tilgangi sem raforkufyrirtæki almennt hafa og þá einkum og sér í lagi raforkufyrirtæki í almannaeigu.

Hér hefur tíðkast að svona álverðstengingar séu í raforkusamningunum við álfyrirtækin. Ástæðan er einfaldlega sú að álfyrirtækin hafa lagt mikla áherslu á að fá slíka tengingu þegar samið hefur verið um raforkuviðskiptin. Enda minnkar slík tenging rekstraráhættu álfyrirtækisins. Þetta má líka orða þannig að áhættu sé velt af álfyrirtækinu og yfir á raforkusalann.

Ekki skal fullyrt um það af hverju orkufyrirtækin hér hafa jafnan fallist á slíka verðtengingu. En það verður varla framhjá því litið að hér hafa gjarnan skapast þær aðstæður að stjórnmálamenn og fleiri áhrifamiklir aðilar hafa lagt mikla áherslu á að landa samningum sem tryggi aðkomu nýrrar stóriðju. Í slíkum tilvikum verður samningsstaða viðkomandi orkufyrirtækis óhjákvæmilega töluvert veikara en ella væri. Niðurstaðan verður gjarnan sú að stóriðjan landar geysilega hagkvæmum samningi. Til að sporna gegn slíkri stöðu er afar mikilvægt að auka sjálfstæði orkufyrirtækjanna - og takmarka hlutverk stjórnmálamanna við það að setja almennar leikreglur.

Til stóð að nýr raforkusamningur vegna Straumsvíkur yrði enn eitt veðmálið

Raforkusamningar orkufyrirtækjanna hér og álfyrirtækjanna eru jafnan gerðir til langs tíma (nokkurra áratuga). Það er eðlilegt og hentar báðum aðilum vel, enda verið að efna til stórra fjárfestinga þar sem mikilvægt er að reksturinn skili sem tryggustum tekjum. Af sömu ástæðu er í sjálfu sér nákvæmlega ekkert óeðlilegt við það að álfyrirtækin sækist eftir að raforkuverðið sé tengt álverði. Aðalatriðið er að samningsstaða aðila sé með þeim hætti að ekki halli óeðlilega mikið á annan aðilann.

Vegna þess hversu raforkusamningarnir eru langir skapast mjög fá tækifæri til að breyta t.d. verðákvæðum í þessum miklu viðskiptum. Á árinu 2008 var langt komið að ljúka við nýjan stóran raforkusamning milli Landsvirkjunar og Rio Tinto Alcan, sem er eigandi álversins í Straumsvík. Umrætt álver er hlutfallslega umfangsmikið í raforkukaupum frá Landsvirkjun, en það kaupir um fjórðung allrar þeirrar raforku sem Landsvirkjun framleiðir.

Í umræddum samningsdrögum var bæði að finna ákvæði um hvert orkuverðið skyldi vera og hversu langur samningstíminn skyldi vera. Einnig var þar kveðið á um að orkuverðið væri tengt álverði. Þar með átti að binda um fjórðung allrar raforkusölu Landsvirkjunar við álverð í marga áratugi enn. En vegna efnahagshrunsins hér tafðist að ljúka við þennan mikilvæga og stóra samning. Þáverandi forstjóri Landsvirkjunar, Friðrik Sophusson, ákvað að láta af störfum og síðla árs 2009 var nýr forstjóri ráðinn að fyrirtækinu, Hörður Arnarson. Hann skyldi taka við starfinu ekki síðar en þá í árslok (2009).

Mikilvæg forstjóraskipti í Landsvirkjun

Í framhaldi af forstjóraskiptunum urðu grundvallarbreytingar á afstöðu Landsvirkjunar til nýs raforkusamnings við Rio Tinto Alcan. Nýi forstjórinn, ásamt yfirstjórn fyrirtækisins, taldi útilokað að semja á þeim nótum sem samningsdrögin gerðu ráð fyrir. Þar kom margt til, en meðal þess var afar langur samningstími án nokkurrar endurskoðunar (nærri 30 ár) og að álverðstengingin væri óviðunandi fyrir Landsvirkjun.

Samningaviðræðurnar héldu nú áfram og varð niðurstaðan sú að bæði var samningstímanum breytt og verðtenging við álverð tekin út (þess í stað er raforkuverðið tengt bandarískri neysluvísitölu). Afleiðing þessa er fyrst og fremst sú að áhætta Landsvirkjunar varð minni en ella. Þar með var fyrirtækinu t.d. auðveldara að fjármagna virkjunarframkvæmdir sem leiddu af samningnum, en þar var um að ræða Búðarhálsvirkjun.

Um þetta má lesa í áliti Eftirlitsstofnunar EFTA um raforkusamninginn, frá því í desember 2011. Þar kemur ýmislegt fleira athyglisvert fram. Svo sem það að árið 2009, um það leiti sem staðið hafði til að gera enn einn risastóran raforkusamning við álver hér með langtíma verðtengingu við verð á áli á LME, var raforkuverð til áliðnaðar á Íslandi það 14. lægsta miðað við 184 álver í heiminum (skv. skýrslu ráðgjafar- og greiningarfyrirtækisins CRU). Orðrétt segir: CRU established that out of 184 aluminium smelters worldwide, Iceland provided the 14th lowest price and 3rd lowest out of 32 smelters in Europe.

Í þessu áliti ESA kemur líka fram að raforkuverðið skv. nýja samningnum við Rio Tinto Alcan sé í upphafi jafnt og eða meira en 30 USD/MWst (vegna hækkunar áður nefndrar bandarískrar vísitölu má ætla að orkuverðið þarna núna sé að lágmarki um 33 USD/MWst). Þetta er sérstaklega athyglisvert þegar haft er í huga að undanfarið hefur uppgefið meðalverð Landsvirkjunar til stóriðju verið nálægt 25 USD/MWst. Þessi nýi samningur er því vafalítið mikilvægur þáttur í því að Landsvirkjun hefur í auknum mæli haft svigrúm til að greiða skuldir sínar og greiða arð til eiganda síns; íslenska ríkisins og þar með til íslensks almennings. Því ber að fagna á þessu ágæta 50 ára afmæli Landsvirkjunar.

28. apríl 2015

Álflóðið frá Xinjiang

Áliðnaður í Kína hefur byggst upp geysilega hratt og hraðar en kínversk eftirspurn eftir áli. Þetta hefur skapað offramboð af áli innan Kína, álverð þar er lágt og taprekstur mjög útbreiddur í kínverska áliðnaðinum. Nýlega hafa kínversk stjórnvöld ákveðið að lækka raforkuverð til nokkurra iðngreina og þær lækkanir munu koma kínverska áliðnaðinum til góða. Við þetta meira
20. mars 2015

Grillir í sólkórónu sæstrengs

Iðnaðarráðherra hefur ekki viljað þekkjast boð Breta um að ræða um sæstrengsmálið (mögulegan rafstreng milli Bretlands og Íslands). Hefur sagst vilja skoða málið betur áður en komi til slíkra viðræðna - jafnvel þó svo viðræðurnar yrðu óskuldbindandi og fyrst og fremst í því skyni að upplýsa málið betur. Hér verður athyglinni beint að nýlegu erindi sem varpar ljósi á stefnu iðnaðarráðherra í meira
12. mars 2015

Grunn olíugreining Landsbankans

Landsbankinn stóð nýverið fyrir áhugaverðum fundi í Hörpu undir yfirskriftinni Hvaða tækifæri skapar lægra olíuverð. Þar flutti m.a. forstöðumaður hagfræðideildar bankans erindi með titlinum Lækkun olíuverðs – orsakir og afleiðingar. Í þessari kynningu var rík áhersla lögð á að sú mikla verðlækkun á olíu sem varð á liðnu ári hafi fyrst og fremst komið til vegna aukinnar og meira
23. febrúar 2015

Alvarlegur misskilningur iðnaðarráðherra

Orkumálaráðherra Bretlands ítrekaði nýlega vilja breskra stjórnvalda til að ræða við Íslendinga um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Og bauð um leið fram aðstoð við gagna- og upplýsingaöflun. Iðnaðarráðherra hefur sent svarbréf þar sem tillögu breska ráðherrans er svo gott sem hafnað. Sem er með öllu óskiljanlegt. Aðspurð um þetta mál segir ráðherrann: „Við förum meira
9. febrúar 2015

Mótum leikreglur vegna arðsemi orkuauðlindanna

Í skýrslunni Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2012, sagði að „arðsemi af rafmagnssölu Landsvirkjunar til stóriðju mundi tæplega standa undir þeim kröfum um ávöxtun sem [gerðar eru] til orkuframleiðslufyrirtækja á frjálsum markaði úti um heim“. Það var m.ö.o. niðurstaða höfunda þessarar skýrslu að meira
21. janúar 2015

Bréfaklemmuspá Goldman Sachs

Olíuverð hefur fallið um meira en helming á innan við hálfu ári. Verðið er nú nálægt 50 USD/tunnu. Greiningafyrirtæki keppast nú við að lækka spár sínar um þróun olíuverðs. Og gefa okkur þessar líka fínu eftiráskýringar um það af hverju olíuverð hefur fallið svo mikið sem raun ber vitni. Goldman Sachs hikstaði í haust sem leið Goldman Sachs er eitt þeirra fyrirtækja sem er nýbúið að meira
2. janúar 2015

Þekking og vanþekking í batnandi veröld

Heimurinn batnandi fer. Og það þó svo margar fréttastofur veraldarinnar kunni að láta ykkur finnast annað. Og þó svo æðstu hershöfðingjar heimsins reyni að láta ykkur finnast annað. Það er staðreynd að heimurinn fer batnandi Sá sem kynnir sér málið kemst brátt að því að nánast sama hvert litið er þá hefur ástand heimsins farið sífellt batnandi síðustu árin og áratugina. meira
8. desember 2014

Raforkusamningurinn vegna Straumsvíkur

Í nýlegum fréttum kom fram að Rio Tinto Alcan, eigandi álversins í Straumsvík, og Landsvirkjun hafi samið um tilteknar breytingar á raforkusamningi fyrirtækjanna. Af þessu tilefni er vert að rifja hér upp þennan raforkusamning, sem er frá árinu 2010. Umræddur samningur Rio Tinto Alcan (RTA) og Landsvirkjunar frá 2010 er merkilegur, því hann er töluvert ólíkur meira
21. nóvember 2014

Sprengisandslína í umhverfismat

Landsnet vinnur nú að undirbúningi að umhverfismati fyrir háspennulínu milli Norður- og Suðurlands. Þ.e. línu frá Þjórsár- og Tungnaársvæðinu um Sprengisand og norður í Bárðardal, sem tengist landsnetinu bæði sunnan heiða og norðan (fyrirhuguð tengivirki yrðu við Langöldu á Landmannaafrétti og við Eyjardalsá vestan Bárðardals). Hér verður athyglinni beint að þessum áætlunum, þ.e. meira
14. nóvember 2014

Útflutningsbann á bergull?

Bergull er verðmæt náttúruauðlind. Og getur skapað þjóðum sem hana nýta mikil verðmæti og góða arðsemi.  Bergull er að vísu svo til einungis unnt að nýta með einum hætti. Hún hentar mjög vel til orkuframleiðslu en hefur fáa aðra nýtingarmöguleika. Þessir orkueiginleikar bergullarinnar eru ýmist nýttir til að framleiða raforku eða hita.  Gul og blá bergull Bergull er þekkt í meira
31. október 2014

Kapalviðræður í frosti

„Áróðurinn fyrir rafmagnskapli til Bretlands fer vaxandi. Áherslan er einhliða á að skapa væntingar um gróða en lítið rætt um áhættuna sem fylgir því að hengja 2.000 MW raforku á einn viðskiptavin, einn kapal sem getur bilað og hvað þá? Sölumenn hjá Landsvirkjun eru komnir langt fram úr umboði sínu þegar þeir áforma að hefja viðræður við bresk stjórnvöld um kapal til Íslands."Þannig meira
14. október 2014

Norðmenn auka verðmætasköpun orkuauðlindanna

Í gærmorgun (mánudaginn 13. okt) tilkynnti norska olíu- og orkumálaráðuneytið að það hafi heimilað Statnett að ráðast í lagningu tveggja nýrra háspennukapla neðansjávar; annars vegar milli Noregs og Þýskalands og hins vegar milli Noregs og Bretlands. Þessar nýju tengingar gefa kost á að nýta sveigjanleika og stýranleika norska vatnsaflsins í enn ríkari mæli og þannig auka arðsemi þess. Þarna meira
11. september 2014

Einangruðu raforkukerfi fylgir áhætta og óhagkvæmni

Nú fyrr í vikunni fór fram fundur á vegum VÍB undir yfirskriftinni arðsemi orkuútflutnings. Þar flutti Ola Borten Moe áhugavert erindi, þar sem hann lýsti reynslu Norðmanna af raforkuviðskiptum við önnur lönd. Ola Borten Moe var olíu- og orkumálaráðherra í norsku ríkisstjórninni 2011-2013 og er varaformaður norska Miðflokksins (Senterpartiet). Flokkurinn sá hefur löngum verið tortryggin gagnvart meira
21. ágúst 2014

Áfangasigur í erfiðu umhverfi

Gjaldeyrishöft, lítill vöxtur í efnahagslífi Vesturlanda og minnkandi uppsveifla í Kína er allt til þess fallið að halda aftur af erlendri fjárfestingu á Íslandi. Það er því jákvætt að undanfarin misseri hafa nokkur iðnfyrirtæki tekið þá ákvörðun að byggja upp framleiðslu hér á landi. Sú fjárfesting mun bæði skapa gjaldeyrisinnflæði og ný störf. Einnig stuðlar þetta að meiri fjölbreytni í hópi meira
14. júlí 2014

Eðlileg orkuskerðing - enginn orkuskortur

Lág staða í miðlunarlónum vegna óhagstæðs veðurfars í vetur olli því að síðla vetrar og í vor þurfti Landsvirkjun að skerða möguleika viðskiptavina sinna á að kaupa raforku sem er umfram það sem fyrirtækinu er skylt að afhenda (í þessu sambandi er ýmist talað um ótrygga orku, umframorku eða afgangsorku, en hugtakið ótrygg orka lýsir þessu sennilega best). Vegna þessara skerðinga spannst meira
23. júní 2014

Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins

Meðal efnis í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er áhugaverð grein þar sem útskýrt er hvernig íslenska orkan býr yfir mjög sérstökum eiginleika, sem gerir hana afar eftirsótta og gæti skapað okkur áður óþekkt viðskiptatækifæri. Höfundur umræddrar greinar er Björgvin Skúli Sigurðsson, sem er með doktorspróf í verkfræði frá Stanfordháskóla í Bandaríkjunum og gegnir nú starfi meira
4. júní 2014

Raforkuverð mun hækka

Hátt raforkuverð víða í Evrópu veldur því að það væri mjög áhugavert að geta selt íslenska raforku inn á evrópskan markað. En á sama tíma og raforkuverð víða í Evrópu hefur haldist hátt, hefur raforkuverð víða í Bandaríkjunum verið nokkuð lágt og sumstaðar hreint ótrúlega lágt. Þessi mismunur hefur orðið til þess að sumir freistast til að halda að raforkuverðið vestra eigi eftir að haldast lágt meira
21. maí 2014

Draumórar yfirtóku veruleikann í álbransanum

Í gær fór fram aðalfundur Samáls. Þar flutti m.a. Kelly nokkur Driscoll frá ráðgjafa- og greiningafyrirtækinu CRU erindi um horfurnar á álmarkaði. Í hnotskurn spáir Driscoll því að áliðnaðurinn eigi enn eftir að upplifa nokkur erfið ár uns þokkalegt jafnvægi kemst á framleiðslu og eftirspurn á álmarkaði. Og að lítill sem enginn hvati verði til að reisa ný álver utan Kína fyrr en í fyrsta lagi 2017 meira
28. apríl 2014

Nýtum tækifærin í orkustefnu Bretlands

Milljarðar punda streyma nú í ný raforkuverkefni í Bretlandi. Þær fjárfestingar koma til vegna nýsamþykktrar orkustefnu Bretlands. Fyrir okkur Íslendinga er sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig þessi nýja orkustefna Bretlands getur nýst íslenskri orkuþekkingu og orkuframleiðslu. Í liðinni viku var tilkynnt um fyrstu lotu orkufjárfestinga vegna hinnar nýju orkustefnu. Þar var um að ræða 12 meira