20. mars 2015 kl. 23:03

Grillir í sólkórónu sæstrengs

Iðnaðarráðherra hefur ekki viljað þekkjast boð Breta um að ræða um sæstrengsmálið (mögulegan rafstreng milli Bretlands og Íslands). Hefur sagst vilja skoða málið betur áður en komi til slíkra viðræðna - jafnvel þó svo viðræðurnar yrðu óskuldbindandi og fyrst og fremst í því skyni að upplýsa málið betur. Hér verður athyglinni beint að nýlegu erindi sem varpar ljósi á stefnu iðnaðarráðherra í sæstrengsmálinu. Það er viðeigandi að fjalla um þetta erindi og stefnu ráðherrans og ráðuneytisins að kvöldi þessa ágæta sólmyrkvadags.

Óljós stefna skýrist

Það hefur verið fremur óljóst hvert ráðherra stefnir með málið. En nú hefur birst myndband á netinu þar sem fram kemur hver staða sæstrengsmálsins er. Í því áhugaverða myndskeiði útskýrir Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri í atvinnu og nýsköpunarráðuneytinu, málið og kynnir stöðu verkefnisins og hvað sé þar framundan.

Umrædd kynning eða fundur mun hafa farið fram um miðjan janúar sem leið (2015). Áheyrendur voru verkefnisstjórn og faghópar 3ja áfanga Rammaáætlunar. Kynningin hófst á því að Ingvi sagði sæstrengsverkefnið hafa verið til skoðunar af og til allt frá áttunda áratug liðinnar aldar - en að fram til þessa hafi hugmyndin ekki gengið upp fjárhagslega séð né tæknilega séð. Það hafi breyst á síðustu árum vegna tækniframfara og hærra raforkuverðs í Evrópu. Núna séu því kannski í fyrsta sinn bæði tæknilegar og efnahagslegar forsendur fyrir verkefninu.

Ingvi ræddi í stuttu máli um það hvað sé búið að gerast í sæstrengsmálinu allra síðustu árin og nefndi þar sérstaklega skýrslu ráðgjafarhóps um rafstreng til Evrópu (sem var birt í júní 2013) og álit atvinnuveganefndar Alþingis vegna umræddrar skýrslu (það álit var birt í janúar 2014). Í máli Ingva kom fram að ráðherra telji að skoða þurfi ýmsa þætti málsins ítarlegar, með hliðsjón af umræddri ályktun atvinnuveganefndar Alþingis. Fækka þurfi óvissuþáttum og fá betri og heildstæðari mynd af verkefninu. Það sé grundvöllur upplýstrar og ábyrgrar ákvarðanatöku. Einnig kom fram í máli Ingva að breiður pólitískur samhljómur þurfi að vera um verkefnið, eigi það að koma til framkvæmda.

Átta verkefni framundan

Á fundinum var útskýrt að ráðuneytið hefur tekið saman lista yfir þá rannsóknavinnu sem fara þurfi fram. Þeirri vinnu er skipt í átta mismunandi verkefni. Fyrst þegar þeim verkefnum verði lokið, verði unnt að taka pólitíska ákvörðun um það hvort „fara eigi á fullt“ í sæstrengsverkefnið. Umrædd átta verkefni sem ráðuneytið hefur nú hleypt af stokkunum (eða hyggst senn koma af stað) eru eftirfarandi:

1. Dýpri hagfræðileg stúdía á sæstrengsverkefninu

Ingvi vísaði til áðurnefndrar vinnu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu og að ráðast þurfi í ítarlegri hagfræðilega úttekt á verkefninu. Hann tiltók sérstaklega að kanna þurfi áhrif hækkandi raforkuverðs hér á landi vegna strengsins og kanna mótvægisaðgerðir vegna slíkra hækkana.

Ingvi tiltók einnig að meta þurfi umhverfiskostnað vegna nýrra virkjana og flutningsmannvirkja sem ráðast þurfi í vegna strengsins. Athyglisvert er að hann sagði að sæstrengurinn myndi að lágmarki þurfa að vera 800-1.200 MW, því annars verði ekki efnahagslegt vit í verkefninu. Þetta er vafalítið rétt hjá Ingva. Bersýnilega yrði þó mikill munur á bæði hagfræðilegum áhrifum og umhverfisáhrifum verkefnisins eftir því hvort strengurinn yrði t.d. 800 MW eða 1.200 MW.

Þess skal getið að í því skyni að útvega nánari upplýsingar um ofangreind atriði og fleira sem snýr að hagfræðilegum áhrifum strengsins hefur ráðuneytið í samstarfi við Ríkiskaup nú boðið út sérstakt verk sem nefnist Mat á áhrifum raforkusæstrengs. Í erindi sínu tiltók Ingvi það sérstaklega, að Hagfræðistofnun HÍ sé dæmi um aðila sem gæti unnið það verk.

Samkvæmt vef Ríkiskaupa skal verktakinn m.a. greina áhrif sæstrengs á verðmætasköpun í raforkuvinnslu, áhrif hans á nýtingu orkuauðlinda, áhrif á raforkuöryggi hér á landi, áhrif á nýtingu raforkuflutningskerfisins, áhrif á samkeppnisstöðu innlends atvinnulífs, áhrif á fjárhag heimila og umhverfisleg áhrif. Nánari upplýsingar um þetta verk, sem virðist reyndar vera nokkuð ruglingslegt, má sjá á vef Ríkiskaupa.

2. Umhverfismat áætlana.

Í erindi sínu vísaði Ingvi til laga þess efnis að áætlanir af því tagi sem sæstrengur felur í sér þurfi að fara í umhverfismat. En að það sé í biðstöðu þar til málið verði lengra komið.

3. Meta innlenda raforkuþörf.

Í erindi Ingva kom fram að meta þurfi innlenda raforkuþörf næstu 5 eða 10 árin. Og að sú vinna verði í höndum stjórnsýslunnar, Orkustofnunar og Orkuspárnefndar. Þetta snýr sem sagt að því að gera sér grein fyrir hversu mikil eftirspurn verði hér innanlands eftir raforku nokkur ár fram í tímann.

4. Meta þörf á nýjum virkjunum og flutningsmannvirkjum.

Eins og áður var nefnt virðist iðnaðarráðuneytið (atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið) telja að sæstrengurinn þurfi að lágmarki vera 800-1.200 MW. Í máli Ingva kom einnig fram að strengur milli Íslands og Bretlands verði um 1.400 km langur (áheyrendur nefndu að vegalengdin sé ekki svo mikil og að strengurinn kynni því að verða nokkuð styttri). Að sögn Ingva hafa Landsnet og UK National Grid verið að vinna undirbúningsvinnu sem lýtur að kaplinum og m.a. um það hvar hann eigi að koma í land. Hann tiltók einnig að Orkustofnun sé byrjuð að skoða þetta mál, þ.e. bæði virkjanir og flutningsmannvirki. Og að þetta þurfi að vinnast nánar og þá m.a. innan Rammaáætlunar.

5. Sviðsmyndir um þróun orkumarkaða í Evrópu.

Eitt af þeim verkefnum sem ráðuneytið álítur að ráðast þurfi í núna er að greina hvernig orkumarkaðir innan Evrópu og Evrópusambandsins muni þróast næstu ár og áratugi. Í kynningu sinni nefndi Ingvi það sérstaklega að langtímasamningar við Breta séu mögulegir til 20-25 ára á sérstökum verðum sem taki mið af því að um sé að ræða endurnýjanlega orku (þarna vísar Ingvi væntanlega til sérstaks hvatakerfis Breta sem kennt er við Contracts for Difference, sem gerir ráð fyrir þeim möguleika að greiða mjög hátt raforkuverð fyrir græna orku). Ingvi nefndi réttilega að þróunin er óviss og að í framtíðinni geti mögulega dregið úr styrkjum til endurnýjanlegrar orku í Evrópu. En það stendur sem sagt til að innan stjórnsýslunnar hér verði unnin greining á mismunandi sviðsmyndum um þessi mál.

6. Úttekt á tæknilegum atriðum.

Í máli Ingva kom fram að Landsnet, Landsvirkjun og National Grid hafi nú í 2-3 ár unnið að því að skoða ýmis tæknileg atriði sem lúta að sæstreng. Þar sé m.a. um að ræða atriði sem snerti lagningu strengsins, lendingastaði, bilanatíðni og annað.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli að því að Landsvirkjun hefur um árabil kynnt sín sjónarmið gagnvart svona sæstreng og þau viðhorf því alþekkt hverjum þeim sem vill kynna sér málið. Aftur á móti hefur minna heyrst frá Landsneti, enda virðist það fyrirtæki ekki líta það jafn mikilvægum augum að upplýsa almenning um starfsemi sína og framtíðarmöguleika. National Grid hefur aftur á móti birt kynningar um sín viðhorf gagnvart streng af þessu tagi. Þarna mætti Landsnet standa sig betur. 

7. Reynsla Noregs.

Í erindi Ingva vék hann að því að Norðmenn séu sáttir við sína reynslu af sæstrengjum og séu áhugasamir um fleiri strengi. En hann tók fram að staða Norðmanna sé önnur en okkar og ekki sé unnt að heimfæra reynslu þeirra upp á okkur, en þetta þurfi að skoða. Ekki er alveg ljóst hvað Ingvi átti þarna við, en sennilega er hann fyrst og fremst með það í huga að Norðmenn eru með miklar raforkutengingar við nágrannalöndin (m.a. yfir til Svíþjóðar og sæstrengi til Danmerkur og Hollands). Og raforkumarkaðurinn þar því miklu meiri samkeppnismarkaður en hefur verið hér á landi. Og að þess vegna sé aðstaða Norðmanna ólík okkar.

Það stendur sem sagt til að innan stjórnsýslunnar verði nú kannað nánar hver reynsla Norðmanna sé af sæstrengjum og öðrum millilandatengingum af þessu tagi. Hér má nefna að nú er verið að byrja á rafstreng sem lagður verður milli Noregs og Þýskalands og viðræður eru í gangi milli breska National Grid og norska Statnett um streng milli Noregs og Bretlands. Það virðist því nokkuð augljóst að Norðmenn sjá mikil og góð tækifæri í svona tengingum. En auðvitað er sjálfsagt að við öflum okkur nánari upplýsinga um þessa reynslu þeirra.

8. Sæstrengur sem hvati fyrir smærri virkjanir.

Áttunda atriðið sem Ingvi tiltók að kanna þurfi er hvaða áhrif sæstrengur hefði gagnvart möguleikum til að reisa smærri virkjanir hér á landi. Sæstrengur kann jú að veita slíkum virkjunum tækifæri til að selja raforku á góðu verði um sæstrenginn og sjálfsagt og eðlilegt er að skoða þetta atriði.

Ekkert rætt um orkuverð né orkumagn við Breta

Ingvi vék líka nokkrum orðum að því sem sagt og skrifað hefur verið um að ráðast þurfi í könnunarviðræður við Breta (sem er jú eitt af þeim atriðum sem ég hef skrifað talsvert um og lagt áherslu á). Ingvi gat þess að ríkisstjórnin hafi verið „vör um sig“ og vilji klára ofangreind átta verkefni áður en könnunarviðræður eða samningaviðræður við Breta fari af stað.

Hann nefndi það einnig að „mikil pressa“ sé frá Bretum um að hefja viðræður. Sjálfur myndi ég reyndar fremur nota orðalagið að „mikill áhugi“ sé hjá Bretum í þessu sambandi. Því orkan frá Íslandi mun jú aldrei gjörbreyta neinu á hinum risavaxna breska orkumarkaði. Í augum Breta er kapall til Íslands einungis einn áhugaverður möguleiki af mörgum.

Loks vakti Ingvi athygli á þeirri niðurstöðu ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu að áætlaðar nettó útflutningstekjur af sæstreng gætu orðið á bilinu 4-76 milljarðar ISK árlega. Þessi mikla óvissa um tekjurnar (sem vakti auðheyranlega fliss meðal áheyrenda að erindinu - og jafnvel einnig hjá Ingva sjálfum hafi ég heyrt rétt en hljóðið í upptökunni er reyndar ekki með besta móti) ráðist af því hvernig samningur yrði gerður. Ingvi gat þess sérstaklega að til að þrengja bilið þurfi að setjast niður með Bretum til að fá að vita hvað þeir séu tilbúnir að borga fyrir raforkuna.

Þessi síðastnefnda ábending eða skoðun Ingva er auðvitað laukrétt. Og vert að rifja upp að breski orkumálaráðherrann hefur ítrekað boðið íslenskum starfsbróður sínum upp á viðræður, sem gætu leitt þetta mikilvæga atriði í ljós. En íslenski ráðherrann vill fyrst láta skoða aðra þætti málsins – sem eru reyndar margir hverjir óumflýjanlega afar óvissir einmitt vegna þess að áætlað orkuverð er ennþá á svo breiðu bili. Þannig bítur vinnan sem ráðherra hefur nú sett af stað í skottið á sér, ef svo má segja.

Í umræddri kynningu vék Ingvi einmitt að þessu - og orðaði það mjög kurteisilega og talaði um að þetta „rekist dálítið hvert á annað“. Sem það gerir jú óneitanlega. Þar að auki virðast engin áform uppi hjá ráðuneytinu um að afla upplýsinga um hvað svona strengur kostar. Þetta er að mínu mati óskynsamleg og ónauðsynleg forgangsröðun; ekkert mælir gegn því að hefja viðræður við Breta samhliða þessari vinnu sem lýst er hér að ofan. Og ræða t.d. orkuverð og orkumagn við Bretana og einnig kanna betur kostnað vegna bæði strengs og spennubreyta.

Það hlýtur að verða dokað við með ný stóriðjuverkefni

Það er sem sagt svo að umræddri vinnu, sem lýst er í töluliðunum átta hér að ofan, verður kannski lokið að ári liðnu. Og þá, á árinu 2016, verður kannski loksins álitið tilefni til þess, af hálfu íslenska iðnaðar- og viðskiptaráðherrans í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, að setjast niður með Bretum. Til að ræða þá þætti sem algerlega nauðsynlegt er að fá upplýsingar um til að fá skýra mynd af því hver efnahagsleg áhrif sæstrengs yrðu í raun og veru.

Í millitíðinni væri eðlilegast að bíða með alla nýja stóriðjusamninga eða aðra umfangsmikla orkusölusamninga hér. Því það er varla skynsamlegt að ráðast í slíka orkusölu meðan verið er að rannsaka hvort miklu meiri arðsemi geti verið af orkusölu um sæstreng. Að mínu mati er a.m.k. alveg augljóst að þessi hægagangur sem verið hefur í sæstrengsmálinu af hálfu ráðherra þjónar ekki íslenskum hagsmunum.

PS: Sjá má upptöku af erindi/kynningu Ingva hér á vef YouTube.

12. mars 2015

Grunn olíugreining Landsbankans

Landsbankinn stóð nýverið fyrir áhugaverðum fundi í Hörpu undir yfirskriftinni Hvaða tækifæri skapar lægra olíuverð. Þar flutti m.a. forstöðumaður hagfræðideildar bankans erindi með titlinum Lækkun olíuverðs – orsakir og afleiðingar. Í þessari kynningu var rík áhersla lögð á að sú mikla verðlækkun á olíu sem varð á liðnu ári hafi fyrst og fremst komið til vegna aukinnar og meira
23. febrúar 2015

Alvarlegur misskilningur iðnaðarráðherra

Orkumálaráðherra Bretlands ítrekaði nýlega vilja breskra stjórnvalda til að ræða við Íslendinga um möguleikann á sæstreng milli Íslands og Bretlands. Og bauð um leið fram aðstoð við gagna- og upplýsingaöflun. Iðnaðarráðherra hefur sent svarbréf þar sem tillögu breska ráðherrans er svo gott sem hafnað. Sem er með öllu óskiljanlegt. Aðspurð um þetta mál segir ráðherrann: „Við förum meira
9. febrúar 2015

Mótum leikreglur vegna arðsemi orkuauðlindanna

Í skýrslunni Arðsemi Landsvirkjunar af rafmagnssölu til stóriðju 1966-2010, sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2012, sagði að „arðsemi af rafmagnssölu Landsvirkjunar til stóriðju mundi tæplega standa undir þeim kröfum um ávöxtun sem [gerðar eru] til orkuframleiðslufyrirtækja á frjálsum markaði úti um heim“. Það var m.ö.o. niðurstaða höfunda þessarar skýrslu að meira
21. janúar 2015

Bréfaklemmuspá Goldman Sachs

Olíuverð hefur fallið um meira en helming á innan við hálfu ári. Verðið er nú nálægt 50 USD/tunnu. Greiningafyrirtæki keppast nú við að lækka spár sínar um þróun olíuverðs. Og gefa okkur þessar líka fínu eftiráskýringar um það af hverju olíuverð hefur fallið svo mikið sem raun ber vitni. Goldman Sachs hikstaði í haust sem leið Goldman Sachs er eitt þeirra fyrirtækja sem er nýbúið að meira
2. janúar 2015

Þekking og vanþekking í batnandi veröld

Heimurinn batnandi fer. Og það þó svo margar fréttastofur veraldarinnar kunni að láta ykkur finnast annað. Og þó svo æðstu hershöfðingjar heimsins reyni að láta ykkur finnast annað. Það er staðreynd að heimurinn fer batnandi Sá sem kynnir sér málið kemst brátt að því að nánast sama hvert litið er þá hefur ástand heimsins farið sífellt batnandi síðustu árin og áratugina. meira
8. desember 2014

Raforkusamningurinn vegna Straumsvíkur

Í nýlegum fréttum kom fram að Rio Tinto Alcan, eigandi álversins í Straumsvík, og Landsvirkjun hafi samið um tilteknar breytingar á raforkusamningi fyrirtækjanna. Af þessu tilefni er vert að rifja hér upp þennan raforkusamning, sem er frá árinu 2010. Umræddur samningur Rio Tinto Alcan (RTA) og Landsvirkjunar frá 2010 er merkilegur, því hann er töluvert ólíkur meira
21. nóvember 2014

Sprengisandslína í umhverfismat

Landsnet vinnur nú að undirbúningi að umhverfismati fyrir háspennulínu milli Norður- og Suðurlands. Þ.e. línu frá Þjórsár- og Tungnaársvæðinu um Sprengisand og norður í Bárðardal, sem tengist landsnetinu bæði sunnan heiða og norðan (fyrirhuguð tengivirki yrðu við Langöldu á Landmannaafrétti og við Eyjardalsá vestan Bárðardals). Hér verður athyglinni beint að þessum áætlunum, þ.e. meira
14. nóvember 2014

Útflutningsbann á bergull?

Bergull er verðmæt náttúruauðlind. Og getur skapað þjóðum sem hana nýta mikil verðmæti og góða arðsemi.  Bergull er að vísu svo til einungis unnt að nýta með einum hætti. Hún hentar mjög vel til orkuframleiðslu en hefur fáa aðra nýtingarmöguleika. Þessir orkueiginleikar bergullarinnar eru ýmist nýttir til að framleiða raforku eða hita.  Gul og blá bergull Bergull er þekkt í meira
31. október 2014

Kapalviðræður í frosti

„Áróðurinn fyrir rafmagnskapli til Bretlands fer vaxandi. Áherslan er einhliða á að skapa væntingar um gróða en lítið rætt um áhættuna sem fylgir því að hengja 2.000 MW raforku á einn viðskiptavin, einn kapal sem getur bilað og hvað þá? Sölumenn hjá Landsvirkjun eru komnir langt fram úr umboði sínu þegar þeir áforma að hefja viðræður við bresk stjórnvöld um kapal til Íslands."Þannig meira
14. október 2014

Norðmenn auka verðmætasköpun orkuauðlindanna

Í gærmorgun (mánudaginn 13. okt) tilkynnti norska olíu- og orkumálaráðuneytið að það hafi heimilað Statnett að ráðast í lagningu tveggja nýrra háspennukapla neðansjávar; annars vegar milli Noregs og Þýskalands og hins vegar milli Noregs og Bretlands. Þessar nýju tengingar gefa kost á að nýta sveigjanleika og stýranleika norska vatnsaflsins í enn ríkari mæli og þannig auka arðsemi þess. Þarna meira
11. september 2014

Einangruðu raforkukerfi fylgir áhætta og óhagkvæmni

Nú fyrr í vikunni fór fram fundur á vegum VÍB undir yfirskriftinni arðsemi orkuútflutnings. Þar flutti Ola Borten Moe áhugavert erindi, þar sem hann lýsti reynslu Norðmanna af raforkuviðskiptum við önnur lönd. Ola Borten Moe var olíu- og orkumálaráðherra í norsku ríkisstjórninni 2011-2013 og er varaformaður norska Miðflokksins (Senterpartiet). Flokkurinn sá hefur löngum verið tortryggin gagnvart meira
21. ágúst 2014

Áfangasigur í erfiðu umhverfi

Gjaldeyrishöft, lítill vöxtur í efnahagslífi Vesturlanda og minnkandi uppsveifla í Kína er allt til þess fallið að halda aftur af erlendri fjárfestingu á Íslandi. Það er því jákvætt að undanfarin misseri hafa nokkur iðnfyrirtæki tekið þá ákvörðun að byggja upp framleiðslu hér á landi. Sú fjárfesting mun bæði skapa gjaldeyrisinnflæði og ný störf. Einnig stuðlar þetta að meiri fjölbreytni í hópi meira
14. júlí 2014

Eðlileg orkuskerðing - enginn orkuskortur

Lág staða í miðlunarlónum vegna óhagstæðs veðurfars í vetur olli því að síðla vetrar og í vor þurfti Landsvirkjun að skerða möguleika viðskiptavina sinna á að kaupa raforku sem er umfram það sem fyrirtækinu er skylt að afhenda (í þessu sambandi er ýmist talað um ótrygga orku, umframorku eða afgangsorku, en hugtakið ótrygg orka lýsir þessu sennilega best). Vegna þessara skerðinga spannst meira
23. júní 2014

Vannýttir eiginleikar íslenska vatnsaflsins

Meðal efnis í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála er áhugaverð grein þar sem útskýrt er hvernig íslenska orkan býr yfir mjög sérstökum eiginleika, sem gerir hana afar eftirsótta og gæti skapað okkur áður óþekkt viðskiptatækifæri. Höfundur umræddrar greinar er Björgvin Skúli Sigurðsson, sem er með doktorspróf í verkfræði frá Stanfordháskóla í Bandaríkjunum og gegnir nú starfi meira
4. júní 2014

Raforkuverð mun hækka

Hátt raforkuverð víða í Evrópu veldur því að það væri mjög áhugavert að geta selt íslenska raforku inn á evrópskan markað. En á sama tíma og raforkuverð víða í Evrópu hefur haldist hátt, hefur raforkuverð víða í Bandaríkjunum verið nokkuð lágt og sumstaðar hreint ótrúlega lágt. Þessi mismunur hefur orðið til þess að sumir freistast til að halda að raforkuverðið vestra eigi eftir að haldast lágt meira
21. maí 2014

Draumórar yfirtóku veruleikann í álbransanum

Í gær fór fram aðalfundur Samáls. Þar flutti m.a. Kelly nokkur Driscoll frá ráðgjafa- og greiningafyrirtækinu CRU erindi um horfurnar á álmarkaði. Í hnotskurn spáir Driscoll því að áliðnaðurinn eigi enn eftir að upplifa nokkur erfið ár uns þokkalegt jafnvægi kemst á framleiðslu og eftirspurn á álmarkaði. Og að lítill sem enginn hvati verði til að reisa ný álver utan Kína fyrr en í fyrsta lagi 2017 meira
28. apríl 2014

Nýtum tækifærin í orkustefnu Bretlands

Milljarðar punda streyma nú í ný raforkuverkefni í Bretlandi. Þær fjárfestingar koma til vegna nýsamþykktrar orkustefnu Bretlands. Fyrir okkur Íslendinga er sérstaklega athyglisvert að sjá hvernig þessi nýja orkustefna Bretlands getur nýst íslenskri orkuþekkingu og orkuframleiðslu. Í liðinni viku var tilkynnt um fyrstu lotu orkufjárfestinga vegna hinnar nýju orkustefnu. Þar var um að ræða 12 meira
18. mars 2014

Grunsamlegir viðskiptahættir á álmörkuðum

Eru fjárfestingabankinn Goldman Sachs og hrávörurisinn Glencore Xstrata (sem er aðaleigandi Norðuráls) að reyna að króa álmarkaðinn af? Er alþjóðlegi álmarkaðurinn í London jafnvel með í slíku samsæri? Það er a.m.k. staðreynd að grunur er uppi um að nokkur af særstu fjármálafyrirtækjum í Bandaríkjunum og fyrirtæki sem tengjast áliðnaðinum, stundi ólögmæta viðskiptahætti í því skyni að takmarka meira
23. febrúar 2014

Stærsta efnahagstækifæri Íslands

Undafarið hafa nokkrir þekktir fjölmiðlar fjallað um þá hugmynd að leggja raforkukapal milli Íslands og Bretlands. Sú umfjöllun hefur verið á jákvæðum nótum. Bæði Economist og Finacial Times telja þetta athyglisverðan möguleika. Þessir fjölmiðlar benda á að slíkur kapall myndi bæði skapa Íslandi auknar útflutningstekjur og um leið veita Bretum aðgang að orku sem væri mun meira