c

Pistlar:

8. september 2015 kl. 15:19

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Forgangsmál að lækka tryggingagjald

Í nýju fjárlagafrumvarpi sem kynnt var í dag er ekki gert ráð fyrir lækkun tryggingagjalds umfram smávægilega lækkun sem lögfest var fyrir tveimur árum síðan.

Tryggingagjald er þungur skattur upp á 7,49% sem leggst á öll laun og skilar ríkissjóði um 80 milljörðum í tekjur á þessu ári og samkvæmt áætlun um 86 milljörðum á því næsta. Til samanburðar má reikna með að tekjuskattur einstaklinga á þessu ári verði um 123 milljarðar en 150 á því næsta. Tryggingagjaldið er falinn skattur þó svo að hann leggist á laun. Skatturinn er greiddur af fyrirtækjum en ólíkt tekjuskattinum sést hann ekki á launaseðli. Það er kannski ein ástæða þess að stjórnmálamenn kjósa frekar að lækka tekjuskatta en tryggingagjald eins og áætlanir í fjárlagafrumvarpinu gera ráð fyrir. Fyrir launamenn í landinu er það jafnmikið hagsmunamál að tryggingagjald lækki eins og aðrir skattar. Það hefur bein áhrif á kjör landsmanna og getu fyrirtækja til að greiða laun og ráða fólk í vinnu. 

Tryggingagjaldið kemur sérstaklega illa við lítil fyrirtæki þar sem sérhver ráðning starfsmanns vegur þungt. Ennfremur finna mannauðsfrek fyrirtæki óþyrmilega fyrir gjaldinu þar sem launahlutfall er hátt og veldur því að fyrirtækin vaxa hægar en ella og verðmætasköpun verður minni.

Tryggingagjald samanstendur af almennu tryggingagjaldi og atvinnuleysistryggingagjaldi. Almenna gjaldið rennur að mestu til Tryggingastofnunar og fæðingaorlofssjóðs en atvinnutryggingagjaldið fer til atvinnuleysistryggingasjóðs. Gjaldið í heild sinni hækkaði mikið árið 2009 samhliða stórauknu atvinnuleysi. Hins vegar hefur það ekki lækkað í hlutfalli við minnkandi atvinnueysi og því má segja að skattlagning á launagreiðslur hafi hækkað verulega. Hækkun gjaldsins á sínum tíma var almennt álitin tímabundin aðgerð til að bregðast við erfiðum aðstæðum en á nú ekki lengur við.

Á þessu ári og því næsta standa fyrirtækin í landinu frammi fyrir miklum kjarasamningsbundnum launahækkunum – raunar meiri en efnahagslífið rís undir ef horft til lítils framleiðnivaxtar. Við þær aðstæður er hætt við að verðbólguþrýstingur aukist vegna samninga. Lækkun tryggingagjaldsins væri mikilvægt mótvægi við samningsbundnar launahækkanir og myndi þannig slá á verðbólguþrýsting. Kjarasamningarnir einir og sér hækka gjaldstofn tryggingagjaldsins um næstum 10% og þar með skatttekjur ríkisins um 5-6 milljarða bara vegna samninganna. Það er sanngjörn krafa að gjaldið lækki á móti um að minnsta kosti 1 prósentustig – það er allra hagur.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira