c

Pistlar:

3. janúar 2017 kl. 9:14

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Ofeldi tengist ekki aukinni sykurneyslu

Thor Aspelund, prófessor í heilbrigðisvísindum, bendir á í frétt á MBL.is að á árunum 1967-2012 hafi líkamsþyngdarstuðullinn BMI hækkað stöðugt, tíðni sykursýki og annarra lífstílssjúkdóma aukist. Sérstaklega hafi karlar þyngst meira en konur. Þegar prófessorinn er spurður um hvað veldur þessu bendir hann helst á sykurinn og segir það rosalegt að fólk skuli drekka sykrað gos.

En árið 1967 var neysla sykurs á mann 51,7 kg. Árið 2014 var neysla sykurs hins vegar komin niður í 41,8 kg á mann. Vísbendingar eru uppi um að neyslan 2016 hafi síðan minnkað enn frekar, sérstaklega á sykruðu gosi. Með öðrum orðum þá er öfug fylgni milli heildarneyslu sykurs á mann og aukningu á líkamsþyngd. Afar erfitt er að sjá hvernig prófessorinn getur dregið þessa ályktun byggða á gögnum. Ef leita ætti að sökudólgum aukinnar tíðni offitu á Íslandi í fæðuframboðstölum Landlæknisembættisins ætti grunur frekar að beinast að grænmeti og ávöxtum en neysla á þessum vörum hefur aukist stöðugt yfir þetta tímabil. En skynsemin segir okkur að þetta fáist varla staðist enda hollar vörur. Hreyfingarleysi virðist heldur ekki um að kenna enda benda rannsóknir til að fólk hreyfi sig meira en áður. En hvað veldur þá? Hagfræðin á ekkert gott svar við þessu. Hagfræðingar eru ekkert sérstaklega færir í lýðheilsufræðum eða að leggja mat á orsakavald offitu. Hins vegar má með nokkurri vissu segja að að ef offita eykst á sama tíma og sykurneysla dregst saman getur ekkert vitrænt orsakasamband verið þarna á milli.

Til upplýsinga má kynna sér hér fæðuframboðstölur Landlæknisembættisins.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira