c

Pistlar:

21. mars 2017 kl. 13:07

Bjarni Már Gylfason (bjarnigylfason.blog.is)

Vafasamur samanburður

Fasteignaverð hefur hækkað mikið að undanförnu. Síðustu 12 mánuði hefur fasteignaverð hækkað um ríflega 14% á höfuðborgarsvæðinu og um tæp 20% á landsbyggðinni. Horfur eru á að verð muni að óbreyttu halda áfram að hækka enda er eftirspurnin sterk og spenna á markaðnum. Á sama tíma hefur vísitala byggingarkostnaðar aðeins hækkað um 1,5% og vilja ýmsir velta því upp hvort hagur byggingaverktaka hafi vænkast mikið. Þennan samanburð þarf að varast.

Vísitala byggingarkostnaðar er býsna gallaður mælikvarði þegar kemur að því að mæla hvað kostar að byggja íbúðarhúsnæði. Í fyrsta lagi tekur vísitalan ekki með inni í myndina lóðakostnað sem í mörgum tilfellum getur verið um 20% af byggingarkostnaði og hefur hækkað mikið síðustu misserin. Í öðru lagi tekur vísitalan ekki tillit til hönnunarkostnaðar sem liggur nærri 3% og hefur líka hækkað umtalsvert í kjölfar þess að kröfur byggingareglugerðar hafa aukist. Í þriðja lagi tekur byggingarvísitalan ekki tillit til fjármagnskostnaðar sem liggur nærri 12% af heildarbyggingarkostnaði og jafnvel enn meiri þegar um er að ræða flókin og tímafrek byggingaverkefni djúpt inni í borginni. Í fjórða lagi má nefna að vísitalan tekur ekki tillit til þess launaskriðs sem á sér stað á almennum vinnumarkaði því hún horfir eingöngu til kjarasamningsbundinna hækkana og vanmetur þannig launakostnað. Í fimmta og síðasta lagi þá er byggingarvísitalan að mæla sérstakt vísitöluhús sem er bara ekki í takt við það húsnæði sem almennt er verið að byggja á markaðnum í dag á þéttingarreitum. M.ö.o. er vísitalan að mæla kostnað við húsbyggingu sem almennt ekki er verið að byggja. Samanburður á þróun byggingarvísitölu og markaðsverðs húsnæðis er þannig varasamur.

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason

Bjarni Már Gylfason er hagfræðingur að mennt og starfar hjá RioTinto í Straumsvík. Hann var hagfræðingur Samtaka iðnaðarins á árunum 2005-2017. Kenndi áður hagfræði og skyldar greinar við Verzlunarskóla Íslands 2000-2005 og var blaðamaður á Viðskiptablaðinu frá 1998-2000.

Meira