c

Pistlar:

29. ágúst 2012 kl. 9:32

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Opið bréf til stjórnar LSR

Kæra stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR),

Lífeyrissjóður ykkar hefur verið um árabil einn helsti lánveitandi húsnæðislána á Íslandi.  Mikilvægt er því hvernig haldið er á slíkum málum hjá ykkur.  Sjóðurinn veitir lán með bæði föstum vöxtum (sem breytast því ekki í takti við markaðsvexti, hvort sem þeir hækka eða lækka) og breytilegum vöxtum.  Skuldarar ykkar með breytilega vexti taka á sig hærra vaxtastig ef það hækkar en bera aftur á móti lægri vaxtakostnað ef að vaxtastig lækkar, eða svo ætti það í það minnsta að vera.

Á heimasíðu LSR (www.lsr.is) voru breytileg vaxtakjör sjóðsfélaga í mörg ár lýst með þeim hætti að tekið væri meðaltal af ávöxtunarkröfu helstu verðtryggðu skuldabréfaflokka á markaði (síðan 2004 hafa það verið íbúðabréf, síðustu ár hafa það verið flokkar HFF24, HFF34 & HFF44) og bætt við 50-75 punkta álagi.  Þetta var auk þess skýrt á síðu 30. í ársskýrslu sjóðsins árið 2005 en þar stendur orðrétt: Við ákvörðun fastra vaxta er horft til markaðsaðstæðna hverju sinni en breytilegu vextirnir eru endurskoðaðir á 3ja mánaða fresti miðað við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa.

Þetta viðmið hélst í nokkur ár og hækkaði vaxtakostnaður sjóðsfélaga ykkar með breytileg vaxtakjör um tíma talsvert.  Síðastliðinn 3 ár hefur raunvaxtastig á Íslandi hins vegar lækkað mikið.  LSR brást við þessu með því að bæta við á heimasíðu sinni að breytilegir vextir væru miðaðir við ávöxtunarkröfu á markaði en þó yrðu þeir aldrei lægri en 4%.  Af hverju þessu var bætt við veit ég ekki né skil hvernig hægt sé að breyta forsendum lána með þessum hætti eftir á.

Síðan þá hefur LSR einmitt verið að breyta forsendur lána með einhliða og vafasömum hætti.  Á heimasíðu sjóðsins er ekki lengur fjallað um hvernig breytilegir vextir eru ákvarðaðir.  Þeir í það minnsta fylgja ekki lengur þeim viðmiðum sem fram kom á heimasíðu ykkur og sjóðsfélagar sem tóku lán með breytilegum vöxtum ættu að treysta og jafnvel hafa lagalegan rétt á.  Eitt er ljóst; breytilegir vextir LSR hafa á marga mánuði verið miklu hærri en þau vaxtakjör sem sjóðsfélögum var kynnt sem viðmið við ákvörðun við lántöku hjá ykkur.

Þann 1. apríl lækkuðu breytilegir vextir LSR niður í 3,60% (sem er neðar en 4% mörkin sem um tíma voru auglýst sem lágmarksvextir). Miðað við ávöxtunarkröfu íbúðabréfa á þeim tíma hefðu lánakjörin átt að vera í kringum 2,50% til 2,75%.  Miðað við forsendur sem LSR veitti varðandi slík lán er verið að rukka vaxtakostnað sem má áætla að sé í kringum 0,85%% umfram upphaflegum forsendum.  Á ársgrundvelli þýðir þetta að fjölskylda sem skuldar LSR 20 milljónir með breytilegum vöxtum greiðir 170.000 krónur í vaxtakostnað sem samkvæmt ykkar eigin heimasíðu ætti ekki að vera til staðar.

Á sama tíma hefur Lífeyrissjóður Verzlunarmanna (LIVE) rukkað sína sjóðsfélaga með breytileg vaxtakjör á lánum sínum um vexti síðastliðið hálft ár sem ég lauslega áætla hafi verið 0,6% lægri (LIVE skrásetja sín viðmið á heimasíðu sinni, www.live.is).  Þetta þýðir það að sjóðsfélagar LIVE með sömu lánsfjárhæð og í dæminu að ofan, þ.e. 20 milljónir, greiða í dag á ársgrundvelli 120.000 krónur minna í vaxtakostnað en sjóðsfélagar LSR.  Það munar því mánaðarlega um 10.000 krónur í mismun á milli þessara lífeyrissjóða með sömu forsendum vaxtakjara fyrir venjulega fjölskyldu.

Einhverra hluta vegna hafa vaxtakjör LSR ekki verið uppfærð í töluverðan tíma.  Miðað við meðalvexti íbúðabréfa í dag, sem eru nú rétt rúmlega 2%, ættu næstu breytilegu vextir* LSR að vera að miðað við hámarksálag í kringum 2,75%, og allt niður í 2,50%. Ég vona að bætt verði úr þessu þannig að sjóðsfélagar ykkar njóti þess að markaðsvextir lækki með sama hætti og þeir þurftu að greiða hærri vexti þegar að vaxtastig hækkaði.

Virðingarfyllst,

Már Wolfgang Mixa

*Almennt er miðað við meðaltal vaxta tímabilsins áður en þar sem að LSR hefur ekki uppfært breytilega vexti lengi og hafa snuðað sjóðsfélaga sína í töluverðan tíma þá ætti einfaldlega að "taka mynd" af núverandi stöðu. Einnig er rétt að benda á að fleiri lífeyrissjóðir hafa verið óduglegir við að uppfæra breytileg vaxtakjör sjóðsfélaga sinna, það er að færa þau niður í samræmi við markaðsvexti.  Vegna stærðar sinnar er hins vegar hægt að færa rök fyrir því að LSR sé almennt leiðandi afl í vaxtaákvörðunum sjóða.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira