c

Pistlar:

29. júní 2014 kl. 0:41

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Sparsamir Belgar

Almennt gengur fjármálafræði út frá forsendum um að flestir einstaklingar hegði sér með svipuðum hætti. Slíkt háttalag er oftast talið vera nálægt því að vera bundið almennri skynsemi. Eitt af því sem ég hef verið að rannsaka er fjármálahegðun fólks. Slíkar rannsóknir eru ekki takmarkaðar við atferli fólks, til dæmis hvernig fólk hegðar sér stundum óskynsamlega í fjármálum (til dæmis nokkur ár fram að hruni þegar að kolamolar virtust geta breyst í gull) heldur einnig hvernig fólk hegðar sér mismunandi á milli landa.

Íslendingar eru lítt gefnir fyrir að spara þrátt fyrir almenna umræðu um mikinn sparnað hérlendis. Á árunum 1997 til 2005 var neysla almennings í kringum 5-10% hærri en ráðstöfunartekjur samkvæmt gögnum frá Hagstofunni. Sparnaðarhlutfall Íslendinga er meðal hið lægsta í heiminum þrátt fyrir alla þá áherslu sem lögð er á reglubundin sparnað (hugsanlega er það einmitt vegna þess en það er efni í annan pistil). Sparnaðargleði Norðurlandabúa er til dæmis miklu meiri en við erum í svipuðum flokki og Grikkland og Portúgal þegar kemur að sparnað.

Þetta gefur vísbendingu um að hér sé "þetta reddast" hugmyndin enn í fullu fjöri þegar kemur að fjármálum. Eins og ég hef oft bent á er til að mynda miðað við 3,5% raunávöxtun í útreikningum á lífeyri, sem er gjörsamlega fráleitt viðmið (FME var um daginn annað árið í röð að benda á að gatið hjá lífeyrissjóðum er stöðugt að stækka því að skuldbindingar eru miðaðar við ávöxtun sem lífeyrissjóðakerfi getur aldrei uppfyllt, jafnvel með óvarkári fjárfestingastefnu). 

Ein þjóð sem sparar mikið er Belgía. "Þetta reddast" hugsunin á þar lítt upp á pallborðið. Sparnaðarhlutfall Belga töluvert hærra en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Einnig fjárfesta Belgar almennt meira í traustum fjárfestingum en aðrar þjóðir og eru jafnvel tilbúnir til að fá neikvæða ávöxtun þegar að öryggið er meira og aðgengi að fjárfestingum er auðveldara (til dæmis sparnaðarreikningar). Mælingar á Íslandi gefa til kynna að áhættugleðin eftir hrun hafi kolfallið og því sé fólk enn tilbúið til að sætta sig við neikvæða raunávöxtun (verðbólga síðustu 12 mánuði hefur reyndar verið það lág að flestir innlánsreikningar bundnir í þrjá mánuði eða lengur hafa veitt ágætis raunávöxtun). Langtímafjárfestingar fela almennt í sér meiri áhættu en sparnaðarreikningar en veita þó oftast slakari ávöxtun en langtímafjárfestingar.

Fyrrverandi nemandi minn í atferlisfjármálum, Nicolas Lenaerts, skrifaði áhugaverða ritgerð um þetta efni. Hann ber saman sparnaðarvitund Belga við aðrar nærliggjandi þjóðir og einnig áhættufælni þeirra. Hann telur sjálfur að hluti af skýringunni sé að Belgar hafi oft verið á milli steins og sleggju þegar stríð hefur geisað í Evrópu og séu því minna áhættusæknir þegar kemur að fjárfestingum. Lenaerts færir jafnvel góð rök fyrir því að Belgar mættu vera meira áhættusæknir þegar kemur að fjárfestingum og ættu að dreifa betur fjárfestingum sínum í verðbréf sem hugsuð séu sem langtímafjárfestingar.

Lenaerts hefur góðfúslega veitt mér leyfi til að birta ritgerð hans og er hægt að nálgast hana á þessari slóð:  

https://www.dropbox.com/s/davw96oa0njutiy/The%20impact%20of%20the%20financial%20crisis%20on%20the%20Belgian%20saving%20behaviour%20Nicolas%20Lenaerts.pdf

MWM 

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira