c

Pistlar:

9. október 2015 kl. 3:18

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

Erlent innflæði fjármagns - lægri vaxtakostnaður

Í gamla daga, það er árin 2005-2007, tóku margir erlendir fjárfestar töluverða áhættu með því að fjárfesta í íslenskum skuldabréfum sem veittu hærri vexti en sambærileg skuldabréf í eigin löndum. Framarlega í flokki voru þýskir bankamenn,sem töpuðu síðan gífurlegum fjárhæðum á slíkum fjárfestingum.

Þar með er þó ekki sagt að óviturlegt sé að fjárfesta í skuldabréfum út um allan heim. Það er þvert á móti eðlileg áhættudreifing að setja ekki öll fjárfestingareggin í heimabyggð. Vandræðin byggðust á því að í fjárfestingarumhverfi þar sem að allt of mikið fjármagn var til staðar var verið að lána til íslenskra aðila upphæðir sem voru glórulausar og juku þenslu allt of mikið hérlendis hvað atvinnulíf varðaði og mynduðu lánin einnig bólu á íslenskum fjármála- og fasteignamarkaði.

Með væntu afnámi hafta er aftur farið að bera á því að erlendir fjárfestar séu farnir að fjárfesta í íslensk ríkisskuldabréf. Hver hefði trúað þessu fyrir nokkrum árum síðan? 

Uppgangur í íslenska efnahagslífinu og samhliða því niðurgreiðslur á skuldum ríkis og einstaklinga hefur aukið traust alþjóðlegra fjárfesta á íslenskt viðskiptalíf á nýjan leik. Með afnámi hafta fara fjárfestar að bera saman íslensk skuldabréf við sambærileg erlend skuldabréf. Ávöxtunarkrafa íslenskra skuldabréfa, bæði hvað varðar nafnvexti og raunvexti, er töluvert hærri en ávöxtunarkrafa ríkistryggðra erlendra bréfa. Slíkt misvægi hefur minnkað síðan tilkynnt var um afnám hafta og tel ég líklegt að sú þróun hafi ekki enn runnið sitt skeið. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa í Portúgal er til að mynda miklu lægri en á Íslandi þrátt fyrir að lánshæfismat Portúgala sé orðið töluvert lægra. Ekki má líta framhjá því að verðbólguvæntingar á Íslandi eru háar næstu tvö árin. 

Vegna aukinnar eftirspurnar á íslenskum skuldabréfum hafa sumir ráðamenn lýst yfir áhyggjum. Þær eru byggðar á þeirri óheillaþróun sem átti sér stað í gamla daga. Það eru auk þess mörg þekkt dæmi í fjármálasögunni um að erlent fjármagn hafi ollið ofþenslu í smærri ríkjum og er Tælandi gott dæmi um slíkt á tíunda áratug síðustu aldar. Það er vart að ég þori að taka svona til orða en nú eru hlutir öðruvísi. Fjármagnið sem nú streymir inn er ekki í sama mæli og áður. Það er ekki jöklabréfafaraldur. Búið er að vonast eftir erlendu fjármagni í mörg ár og loksins þegar að það kemur hafa menn áhyggjur.

Lítil umræða hefur þó átt sér stað um jákvæðu áhrif þess að fá erlent fjármagn til landsins. Ávöxtunarkröfur skuldabréfa hafa lækkað töluvert mikið, sérstaklega óverðtryggðra bréfa, meðal annars vegna áhuga erlendra fjárfesta. Þegar verið er að veita langtímalán þá skipta þær tölur mestu máli. Því er viðbúið að vaxtabyrði óverðtryggðra lána minnki næstu misseri svo lengi sem að erlendir fjárfestar sýni þeim áfram áhuga. Auk þess hefur ávöxtunarkrafa verðtryggðra Íbúðabréfa aldrei verið jafn lág, aldrei.

Lánakostnaður fyrirtækja lækkar einnig með tilkomu erlends fjármagns á íslenskum skuldabréfamarkaði. Íslensk ríkisskuldabréf mynda gólf á því hversu lág ávöxtunarkrafa skuldabréfa útgefnum af fyrirtækjum getur orðið. Jafnvel þó að stýrivextir hækki og skammtímalán því líka, þá gæti fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja lækkað næstu misseri  því að þau hafa bæði meiri möguleika á því að fjármagna sig með lengri lánum en þau hafa haft síðustu ár og geta auk þess gert slíkt jafnvel á betri kjörum en áður.

Erlendar fjárfestingar í íslensk ríkisskuldabréf eru því eins og staðan er í dag ekkert annað en jákvæð þróun fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Fögnum því.

MWM

ps. ég fjalla ítarlega um áhrifin af losun fjármagnshafta í nýjasta hefti Frjálsrar verslunar.

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira