c

Pistlar:

2. nóvember 2016 kl. 10:37

Már Wolfgang Mixa (marmixa.blog.is)

2007 ISK

Hið merka ár 2007 fór ég ásamt fjölskyldu minni í ferðalag til Svíþjóðar. Þar dvöldum við í góðu yfirlæti á Skáni, sem er í suðurhluta landsins, og tók það okkur aðeins um klukkutíma að keyra til Kaupmannahafnar, sem við gerðum tvisvar sinnum í ferðinni. Eins og flestir ferðamenn þá röltum við um á Strikinu og fengum okkur þar veitingar. Almennt er ég sparsamur í svona ferðum en ekki þá. Farið var á skemmtilegan stað sem er líklegast á dýrasta punkti Danmerkur, Cafe Norden, með útsýni á torginu og við hliðina á Illum á Köbmagergade.

Veitingarnar á staðnum eru mjög góðar og staðsetningin er frábær. Verðin á staðnum endurspegla þennan raunveruleika. Sambærilegir staðir hvað varðar gæði matar og íburðar í Danmörku eru töluvert ódýrari. Engu að síður töldum við hjónin þetta vera það ódýrt, í íslenskum krónum talið, að við fórum þangað í bæði skiptin sem við heimsóttum Kaupmannahöfn þetta árið.


cafe norden

Við vorum ekki einu Íslendingarnir á sama máli. Önnur hver manneskja á staðnum talaði íslensku og var hlutfall Íslendinga á staðnum sjálfsagt hærra en hlutfall Íslendinga í dag á flestum veitingastöðum í miðbæ Reykjavíkur. Því má við bæta að við komum þangað aftur árið eftir þegar að íslenska krónan hafði veikst um 40% og voru þá talsvert færri Íslendingar á svæðinu og við takmörkuðum komu okkar við eitt skipti. Árið 2010 kíktum við aftur inn, í orðsins fyllstu merkingu, því við slepptum veitingum og löbbuðum út aftur eftir að hafa litið á matseðilinn og umreiknað hann í íslenskum krónum. Við vorum vart ein á báti í þeim efnum því þá heyrðist ekki lengur stakt orð á íslensku innan staðarins.

Þróun ISK gagnvart DKK

Ein dönsk króna kostaði í ársbyrjun 2007 12,2 íslenskar krónur (samkvæmt miðgengi Seðlabanka Íslands). Í 2007 stemningunni sumarið 2007 kostaði dönsk króna einungis 11,2 krónur og Cafe Norden fylltist af Íslendingum. Óveðursský voru á lofti sumarið 2008 þegar að danska krónan kostaði orðið rúmlega 16 íslenskar krónur og sumarið 2009 kostaði danska krónan orðið um það bil 24 íslenskar krónur.

dkk midgengi

Sé verðbólga í Danmörku tekin með í dæminu, það er hversu margar íslenskar krónur þurfi til að kaupa hverja einingu að meðaltali í Danmörku, þá kostaði hver eining á vöru og þjónustu orðið í dönskum krónum talið í kringum 26 íslenskar krónur (samkvæmt tölum frá Hagstofu Danmerkur) og líklega hafa viðskipti hjá Cafe Norden dregist hressilega saman miðað við veltuna árið 2007. 

medalverd vara i danmorku

Síðan þá hefur íslenska krónan smám saman styrkst gagnvart dönsku krónunni og kostar hver dönsk króna í dag tæplega 17 íslenskar krónur. Sé tekið tillit til verðbólgu í Danmörku þá kostar hver dönsk króna miðað við ársbyrjun 2007 rétt rúmlega 20 íslenskar krónur.

ISK 2007

Fyrir Íslendinga segir ofangreind þróun þó aðeins hálfa söguna. Launavísitalan á Íslandi var samkvæmt tölum Hagstofunnar 311,5 í ársbyrjun 2007. Í dag er hún komin í 586,7 sem þýðir að laun að meðaltali hafa hækkað um tæplega 90% á tímabilinu.

launavisitala island

dkk midad vid laun og verdbolgu i dkkSegja má því að íslenska krónan sé komin í 2007 gírinn. Ég hef ekki komið nýlega til Danmerkur en næst þegar ég fer verður freistandi að fá sér eitthvað á snæða á Cafe Norden. Þá geri ég áreiðanlega smá könnun á því hvort ég heyri jafn margar raddir á íslensku þar og ég heyrði sumarið 2007.

MWM

ps. Fleiri eru að hugsa um stöðu íslensku krónunnar á svipuðum nótum. Á meðan að þessi grein var í prófarkalestri birti Arion banki skýrslu sem fjallar einnig um aukin kaupmátt hérlendis samhliða styrkingu krónunnar. Dregur skýrslan vel saman núverandi stöðu þegar að erlendur gjaldeyrir, að stórum hluta til vegna fjölgun ferðamanna til Íslands, flæðir til landsins í svo miklu magni að Seðlabanki Íslands hefur vart undan við að greiða niður erlendar skuldir. Hana er hægt að nálgast hérna: - https://www.arionbanki.is/library/Skrar/Netpostur/Greiningardeild/Tenglar/Hagsp%C3%A1-Hversu%20sterk%20getur%20kr%C3%B3nan%20or%C3%B0i%C3%B0.pdf - Ég veit einnig af tveimur öðrum dæmum úr fjármálastofnunum í síðustu viku þar sem að fólk var að velta fyrir sér svipuð málefni.

Frakkar hafa einnig áhuga á þeirri þróun sem er að eiga sér stað samhliða auknum ferðamannastraumi. Hér er grein sem var að birtast í Le Monde þar sem meðal annars er vitnað í mig: - http://www.lemonde.fr/economie/article/2016/10/28/inquietudes-et-euphorie-dans-l-islande-d-apres-crise_5021855_3234.html -

Már Wolfgang Mixa

Már Wolfgang Mixa

Lektor í fjármálum við Háskóla Íslands.

Nýlegar greinar:

Þú veist ekki hvaða húsnæði þú ferð í næst - https://www.dropbox.com/s/82in2fz3uzcll7w/tvisynileiki%20og%20upplifun%20leigenda.pdf?dl=0

Nations of Bankers & Brexiteers - https://journals.sagepub.com/doi/epub/10.1177/03063968211033525

Stýrði rannsóknum á fjárfestingum sparisjóðanna við gerð Skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um rannsókn á aðdraganda og örsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, 2013-2014.

Lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík (2015-2022).

Meðdómari í tveimur veigamiklum málum tengd fjármálahruni Íslands.

Einn af höfundum "Costco skýrslunnar" í samstarfi við Zenter rannsóknir.

Starfaði í 15 ár í íslenskum bönkum og sparisjóðum sem forstjóri, yfirmaður verðbréfasviðs, við lausafjárstýringu, eigin viðskipti (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), sjóðastýringu (innlend og erlend hlutabréf & skuldabréf), eignastýringu, FX, miðlun verðbréfa, uppsetningu séreignalifeyrissparnaðar, uppsetningu millibankaviðskipta, uppsetningu erlendra verðbréfaviðskipta,uppsetningu verðbréfafyrirtækja, og greiningu á fjárfestingakostum.

PhD Business Administration - Háskólinn í Reykjavík 2016

MSc Fjármál fyrirtækja - Háskóli Íslands 2009

B.S.B.A. Finance - University of Arizona 1994

B.A. Philosophy - University of Arizona 1994

Löggiltur verðbréfamiðlari - USA 1996 og Ísland 2001

Greinasafn - http://www.slideshare.net/marmixa

https://www.researchgate.net/profile/Mar_Mixa

Besta ráðgjöfin: "When there is a stock-market boom, and everyone is scrambling for common stocks, take all your common stocks and sell them. ... No doubt the stocks you sold will go higher. Pay no attention to this -- just wait for the (recession), which will come sooner or later. When this (recession) -- or panic -- becomes a national catastrophe ... buy back the stocks. No doubt the stocks will go still lower. Again pay no attention. Wait for the next boom. Continue to repeat this operation as long as you live, and you'll have the pleasure of dying rich." Fred Schwed, 1940

Meira