Pistlar:

21. apríl 2017 kl. 17:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Sjá Napólí og dey

Napólí er í dag þriðja stærsta borg Ítalíu og höfuðborg suðursins þar sem hún stendur við norðanverðan Napólíflóa. Á báðar hendur eru ógnvekjandi eldfjöll sem hafa í gegnum tíðina umbreytt landslaginu og fært með sér gríðarlega eyðileggingu eins og sest best af eyðingu Pompei og Herculaneum þegar Vesúvíus nánast sprakk árið 79 e. Kr. Vestur af borginni er síðan askjan Campi Flegrei sem á sér ekki síður ógnvekjandi sögu en Vesúvíus. Reglulega kvikna vangaveltur um að önnur hvor eldstöðin sé að fara að taka við sér. Það þarf ekki að hafa mörg orð um áhrif þess. Svæðið byggðist áður en menn áttuðu sig á hættunni, sem getur stafað af Campi Flegrei en saga Vesúvíusar er þekktari en síðast gaus fjallið 1944. Það er því ekki nema von að máltækið, „sjá Napólí og dey”, sé mönnum tamt! Þess má geta að Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hefur mikið rannsakað Vesúvíus og skrifað fróðlegar greinar um fjallið á blogg sitt eins og lesa má hér.

Talið er að fyrsta borg Grikkja á Ítalíu hefi verið Cumae, reist um 800 f. Kr., en Cumae er í austur hluta öskjunnar Campi Flegrei. Skömmu síðar byggðist Napólí, eða Neapolis, Nýborg, nokkurskonar New York forn-Grikkja. Þannig fluttist grísk menning til Ítalíuskaga eins og umfangsmiklar fornminjar bera vott um.napoli  

Borgin á sér langa og umbrotasama sögu og hefur að sumu leyti átt erfitt með að fóta sig í nútímanum. Í borginni sjálfri býr ein milljón íbúa en á Stór-Napólísvæðinu eru um þrjár milljónir manna. Napólí er um margt heillandi með sínar umfangsmiklu menningarminjar en líður fyrir óstjórn og ákveðið sinnuleysi heimamanna. Það er til dæmis ótrúlegt að sjá nánast hvert einasta hús útkrassað í veggjakroti eins og meðfylgjandi mynd sýnir. - Kirkjur og gosbrunnar, ekkert mannvirki er undanskilið. Þá er víða að sjá niðurníddar byggingar þó vissulega séu stórkostleg mannvirki um alla borg. Umgengni er í takt við það þó víða megi sjá breytingar frá því fyrir 14 árum þegar pistlahöfundur var þar síðast. Ný fjármálamiðstöð hefur risið, efnahagurinn hefur verið að batna og samgöngur líka og jarðlestakerfi borgarinnar hefur tekið stakkaskiptum.

En upplifun fólks af Napólí er æði misjöfn, margir taka ástfóstri við hana á meðan öðrum finnst hún óhrein, hávaðasöm og um fram allt, varasöm. Hún er andstæða bæjarins Sorrento sunnan við flóann, þangað sem yfirstétt Norður-Evrópu sótti gjarnan til hvíldar og endurnæringar. Þar sést til dæmis ekki veggjakrot. Einn innfæddur Sorrento-búi sagði við pistlahöfund að Napólíbúar væru latir og sjálfur Mussolini hvað hafa kallað þá ónytjunga og letingja sem aðeins gætu sungið og étið rjómaís! Orðið lazzaróni er komið frá Napólí en það var heiti á lágstéttinni.  

Camorra

En efnahagur Napólí verður tæpast ræddur nema í tengslum við Camorra - hina heimagerðu útgáfu þeirra af mafíunni. Wikipedia segir okkur þá sögu að Camorra hafi upphaflega verið leynisamtök stofnuð af glæpamönnum í Napólí um 1820. Þeir hafi orðið áhrifamiklir í stjórnmálum og síðar alræmdir fyrir fjárkúgun og hermdarverk. Á Ítalíu mun það tíðkast að kenna aðeins Cosa Nostra á Sikiley við mafíu en hópa á skaganum öðrum nöfnum. Uppruni Camorra og heitisins eru lík þar sem veðmálaleikur sem kallaður var „morra” var spilaður í Napólí. Stjórnvöld bönnuðu leikinn ásamt öðrum veðmálum. Fljótlega mútuðu nokkrir menn lögreglunni til að láta þetta í friði og seldu síðan öðrum vernd frá lögreglunni. Og þannig hófst starfsemin sem nær allt til okkar tíma. Camorra er samofin samfélaginu og heimamenn hafa enga trú á að mafían verði rifin upp með rótum. Til þess liggja ræturnar of djúpt. En mafían verður að gæta ákveðins hófs í aðgerðum sínum og til dæmis ekki drepa of marga! Með öðrum orðum, ekki kalla yfir sig athygli. Það er eilífðarvandamál í starfi mafíunnar að þvo peninga og nú um stundir gerir hún það helst með því að fjárfesta í ferðamennsku, meðal annars í Sorrento! Hvort sem það eru til marks um nýja tíma eða ekki þá hafa konur víst verið að komast til aukinn áhrifa innan Camorra síðustu áratugi.napoli2

Tónlistarhöfuðborg

En Thor Vilhjálmsson rithöfundur benti réttilega á að Napólí er höfuðborg hjartans. Og þar á söngurinn heima. Á átjándu öld var Napólí nokkurskonar tónlistarhöfuðborg Evrópu og tónlistarmenn hvaðanæva úr álfunni héldu þangað til að læra og starfa. Á þeim tíma bjuggu innan við hálf milljón manna í borginni sem var mikið á mælikvarða þeirra tíma. Öldina á undan var Napólí næst fjölmennasta borg Evrópu, aðeins París var fjölmennari. Á þessum tíma voru fjórir stórir tónlistarskólar í Napólí en til fróðleiks má geta þess að íbúar Parísar eru í dag um fjórtán milljónir talsins en þar er aðeins einn stór tónlistarskóli.

En það voru ekki einungis margir tónlistarskólar í Napólí. Á þessum tíma voru 2.000 kirkjur í borginni og í hverri kirkju var kór, hljómsveit og tónlistarstjóri sem var tónskáld eða taldi sig í það minnsta vera það. Þau ógrynni af tónlist sem urðu til í Napólí á þessum tíma eru gleymd í dag og Napólí sjálf ekki nema svipur hjá sjón. Fræðimenn hafa eytt ómældum tíma í að fara yfir þau handrit sem enn er að finna í Napólí, en einnig er þar að finna frásagnir af flutningi og uppsetningu verkanna sem er ómetanlegt þegar þau eru búin undir útgáfu.

Mikið tjón í stríðinu

Ítalía hafði ekki mikinn heiður af þátttöku sinni í heimsstyrjöldinni síðari. Eftir að sókn bandamanna hófst norður eftir Ítalíu árið 1944 var lítið eftir af öxulveldunum og það kom í hlut Þjóðverja að verjast sókn bandamanna. Ítalir sjálfir vildu ljúka stríðinu sem fyrst en landið varð fyrir talsverðu tjóni. Er talið að í stríðinu hafi um 20.000 hús eyðilagst í Napólí. Hverfin kringum höfnina urðu fyrir sprengjum og það gekk seint að byggja upp aftur.

Ekki verður minnst á Napólí án þess að geta matarmenningarinnar en þar eru margir Michelin staðir. Þess má geta að árið 2015 voru 332 veitingastaðir á Ítalíu sem höfðu fengið viðurkenningu Michelins, 285 staðir voru með eina stjörnu, 39 með tvær stjörnur og átta með þrjár stjörnur. Pizzan á sinn fæðingarstað í Napólí og þangað verður varla komið án þess að snæða eins og eina, þó að þjónustan geti verið hæg eins og pistlahöfundur fékk að kynnast í ferð sem einmitt byggðist á þröngum tímaramma! Við snæddum á veitingastað sem stofnaður var um miðja 18. öld - í gömlu borgarhliði og þjónninn hvarf í hádegismat þegar hann hafði tekið pöntunina!

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.

mynd
9. apríl 2017

Laskað bankakerfi hrjáir Ítali

Það er erfitt að halda því fram að efnahagur Ítalíu sé beinlínis heilbrigður. Það væri nær að segja að hann sé hrjáður af langvarandi uppdráttarsýki sem hefur verið viðvarandi í ítölsku efnahagslíf allt síðan evran kom til sögunnar. Á þeim tíma hefur landsframleiðsla á mann á Ítalíu dregist saman. Nú er staðan þannig að opinberar skuldir eru komnar upp í 134% af vergri landsframleiðslu (VFL). Til meira
mynd
2. apríl 2017

Græna ríkið Danmörk

Flestir sem fylgjast með viðskiptum og efnahagsmálum vita að Danir taka flestum fram þegar kemur að sölu- og markaðsmálum. Það á sér að hluta til sögulegar forsendur en Danmörk hefur frá fornu farið verið í þjóðleið á milli norðurs og suðurs og nýtt sér það á allan hátt. En um leið þá var Danmörk lengst af talin vera snauð af náttúruauðlindum. Rétt eins og á við um annað hugvitsamt samfélag meira
mynd
27. mars 2017

Hljóðlát orkubylting

Nú er um það bil áratugur síðan vinnsla á leirgasi hófst fyrir alvöru í Bandaríkjunum. Óhætt er að segja að fátt hefur haft meiri áhrif á orkuiðnaðinn og orkuverð í heiminum eins og lesa mátti í nýlegri fréttaskýringu í Financial Times. Að sumu leyti hefur þessi þróun horfið í skuggann af breytingu á ýmsum öðrum sviðum orkuiðnaðarins, svo sem gríðarlegri aukningu sólar- og vindorku. meira
mynd
21. mars 2017

Verslun og þjónusta í skýjunum

Verslun og þjónusta er ef til vill sú atvinnugrein sem mun breytast mest næstu áratugi vegna aukinnar sjálfvirkni. Í verslun starfa gríðarlega margir í dag, oft í fremur lágt launuðum þjónustustörfum. Af mörgum er því spáð að breytingarnar geti orðið hraðar og miklar á þessu sviði eins og Doug McMillon, forseti og forstjóri Walmart verslanarisans, upplýsti nýlega á ráðstefnu á vegum World Economic meira
mynd
10. mars 2017

Letiparadísin Tenerife

Það er augljóslega freistandi fyrir marga Íslendinga að stytta veturinn með því að skjótast eitthvert þar sem hægt er að ganga um með sólarhatt og njóta lífsins lystisemda í mat og drykk. Já, og jafnvel gera hagstæð innkaup. Síðasta þriðjudagskvöld lentu sex vélar á Keflavíkurflugvelli með farþega frá Tenerife og öðrum eyjum í Kanaríeyjaklasanum. Augljós að staða krónunnar gerir það að verkum meira
mynd
20. febrúar 2017

Hagvöxtur á Íslandi i hæstu hæðum

Hagstofa Íslands greinir frá því í nýrri og endurskoðaðri þjóðhagsspá sinni að landsframleiðsla á Íslandi hafi aukist um 5,9% á árinu 2016. Er það umtalsvert meiri vöxtur en stofnunin gerði ráð fyrir í spá sinni í nóvember síðastliðnum. Þá var gert ráð fyrir að landsframleiðslan myndi aukast um 4,8% yfir árið. Tölurnar sem útreikningar Hagstofunnar byggjast á ná til þriðja ársfjórðungs 2016. meira
mynd
16. febrúar 2017

Verður 2017 ár rafmagnsbílsins?

Með Morgunblaðinu í morgun fylgdi stórt og mikið fylgirit um rafmagnsbíla. Fróðlegt er að lesa hvað er að gerast á þeim vettvangi en margir spá því að árið 2017 verði árið sem rafbíllinn slær í gegn. Lestur á blaðinu staðfestir þá skoðun margra sérfræðinga en gríðarlegar breytingar eru nú að eiga sér stað á helsta samgöngutæki mannkynsins, bílnum. Evrópusambandið vinnur að tilskipun um að öll ný meira
mynd
12. febrúar 2017

Aukið öryggi sjómanna

Fyrirferðamikill forstjóri sagði í Vikulokunum í Ríkisútvarpinu í gær að sjómenn ættu að fá hærra kaup vegna þess hve margir sjómenn hefðu farist við Íslandsstrendur í gegnum tíðina. Það er einkennileg röksemd. Nær væri að segja að öryggi sjómanna ætti að vera á oddinum vegna þess hve margir sjómenn hafa slasast eða beðið bana í gegnum tíðina. Sem betur fer hefur þar orðið mikil breyting eins og meira
mynd
7. febrúar 2017

Hans Rosling 1948 - 2017

I am not an optimist. I’m a very serious possibilist. It’s a new category where we take emotion apart and we just work analytically with the world. Þessi orð eru eftir læknirinn og fræðimanninn Hans Rosling sem nú er látinn, aðeins 68 ára að aldri. Það er eðlilegt að heimsbyggðin minnist hans en ekki var annað hægt en að hrífast með þegar Rosling lét gamminn geysa í fyrirlestrum meira
mynd
31. janúar 2017

Mannfólkið fram yfir hugmyndafræði

Í lok árs 1957 og byrjun árs 1958 fór Halldór Kiljan Laxness í mikla heimsreisu með Auði konu sinni. Hann kom þá í fyrsta skipti til hinna fornu stórvelda Kína og Indlands og skildi Guðbrandsbiblíu eftir í hvoru landi - gjöf til stórveldanna, erindi sem hinn íslenski menntamálaráðherra hafði beðið hann að sinna enda var Halldór þá nokkurskonar menningarsendiherra Íslands. Móttökurnar meira
mynd
23. janúar 2017

Pólitísk eyðilegging í kjölfar tæknibyltingar

Árið 1942 kom út bók Joseph Alois Schumpeter (1883 – 1950), Kapítalismi, jafnaðarstefna og lýðræði (Capitalism, Socialism and Democracy). Hún átti eftir að verða metsölubók og enn þann dag í dag er vitnað til hennar eins og lesa mátti í áramótaleiðara breska efnahagsritsins The Economist. Schumpeter hefur alltaf verið hafður í hávegum hjá blaðinu sem nefnir einn af dálkum sínum eftir honum. meira
mynd
17. janúar 2017

Tæknin tekur yfir - Veröld ný og góð

Árið 1998 voru starfsmenn Kodak 170.000 talsins og félagið seldi um 85% af öllum ljósmyndapappír í heiminum. Allt virtist leika í lindi og framtíðin virtist blasa við fyrirtækinu og starfsmönnum þess. Eigi að síður var  viðskiptamódel þeirra ónýtt og félagið lýst gjaldþrota þremur árum síðar. Saga sem við höfum svo sem oft áður heyrt, en segja má að ný tækni - sú stafræna - hafi kippt meira
mynd
8. janúar 2017

Vinnslustöðin 1946-2016

Íslendingar eiga mikið undir því að sjávarútveginum vegni vel og Vestmannaeyjar eiga mikið undir því að Vinnslustöðin gangi vel. Í þeirri miklu og viðvarandi umræðu sem fer fram um fyrirkomulag sjávarútvegs á Íslandi er of þarft að kíkja á sögu þess rekstrar sem við blasir í dag. Áhugavert innlegg um það er ný bók eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann en hann er höfundur bókarinnar Sjötug og meira
mynd
4. janúar 2017

Vélvæðing og gervigreind um áramót

Vélvæðing og gervigreind voru leiðarstef í mörgum þeim hugleiðingum sem lesa mátti um áramótin. Stóra spurningin er vitaskuld sú hvort gervigreind (artificial intelligence) bæti líf okkar eða hreinlega taki það yfir? Egill Helgason, pistlahöfundur á Eyjunni, gerði þetta að umræðuefni undir heitinu Vélarnar taka yfir og störfin hverfa. Semsagt, frekar dystópía en útópía og kom ekki á óvart að hann meira
mynd
28. desember 2016

Skattaraunir sólkonungsins

Sólkonungurinn Loðvík 14 (1638 –1715) ríkti lengur en dæmi eru um, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri 77 ára gamall. Faðir hans dó árið 1642 þegar Loðvík var 4 ára. Hann ríkti því í 72 ár og 110 daga yfir fjölmennasta ríki Evrópu á þeim tíma, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum Evrópu. Til samanburðar má nefna að Elísabet II meira
mynd
19. desember 2016

Fjölmiðlasagan skráð

Blaðamennska er ekki starf, heldur skapgerðargalli var einu sinni haft í flimtingum meðal blaðamanna. Hvað sem hæft er í því er blaðamennska og starfsemi fjölmiðla mikilvægur liður í lífi þjóðarinnar og snar þáttur í atvinnu- og menningarsögu okkar. Þessu öllu er gerð ágæt skil í bókinni Í hörðum slag, Íslenskir blaðamenn II sem Blaðamannafélag Íslands hefur nú gefið út. Í bókinni greina 15 meira
mynd
14. desember 2016

Markmið fyrir okkur öll

Stundum er eins og áhuginn slokkni í augum fólks þegar viðmælendur þeirra fara að ræða um markmið eða aðra heldur óáþreifanlega hluti. Jafnvel eitthvað sem á að gerast í óskilgreindri framtíð og hafa áhrif eftir enn lengri tíma. Samt er það nú þannig, að hverjum manni er nauðsynlegt og jafnvel hollt að setja sér einhver markmið, til skemmri eða lengri tíma, eitthvað áþreifanlegt til að stefna meira
mynd
30. nóvember 2016

Framleiðni, arður og hagræði í sjávarútvegi

Á árinu 2015 störfuðu um 7.800 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4,2% af vinnuafli landsins og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra frá árinu 2008 þegar það náði lágmarki í 4% en þetta má  lesa um í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Skýrslan er hin prýðilegasta samantekt um þessa mikilvægu atvinnugrein og verður hér tæpt á nokkrum atriðum hennar. Skýrslan sýnir að við erum meira
mynd
23. nóvember 2016

Efnahagslegur auður tryggir ekki félagslegar framfarir

Þau tíu svæði innan Evrópusambandsins (ESB) sem skapað hafa íbúum sínum bestu samfélagslegu innviði eru í Finnlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sístu tíu svæðin eru í Rúmeníu og Búlgaríu. Þetta má sjá á nýjum lista Social Progress Imperative (SPI) stofnunarinnar yfir gæði félagslegra framþróunar innan ESB. Þessi listi var kynntur í Brussel í október síðastliðnum en eins og lesendur meira
Sigurður Már Jónsson

Sigurður Már Jónsson

Höfundur er blaðamaður en starfar í dag sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Meira