Pistlar:

20. febrúar 2017 kl. 17:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagvöxtur á Íslandi i hæstu hæðum

Hagstofa Íslands greinir frá því í nýrri og endurskoðaðri þjóðhagsspá sinni að landsframleiðsla á Íslandi hafi aukist um 5,9% á árinu 2016. Er það umtalsvert meiri vöxtur en stofnunin gerði ráð fyrir í spá sinni í nóvember síðastliðnum. Þá var gert ráð fyrir að landsframleiðslan myndi aukast um 4,8% yfir árið. Tölurnar sem útreikningar Hagstofunnar byggjast á ná til þriðja ársfjórðungs 2016. Í ljósi reynslunnar má jafnvel leyfa sér að ætla að hagvöxtur síðasta árs reynist enn meiri þegar upp verður staðið. Varðandi spá fyrir nýhafið ár verður að hafa í huga að þar er ekki tekið tillit til nýs loðnukvóta.

Það kemur ekki á óvart að óvíða finnst annar eins hagvöxtur og er nú á Íslandi. Samkvæmt spá OECD frá því í nóvember var gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu yrði 2,9% árið 2016. Innan OECD var spáð 1,7% hagvexti, sama hagvexti og spáð var innan evrusvæðisins og í Þýskalandi. Í Bandaríkjunum var spáð 1,5% hagvexti og 2% í Bretlandi. OECD segir heiminn vera fastan í litlum hagvexti (low-growth trap).

Aðrar hagtölur jákvæðar

En það er ekki nóg með að hagvöxtur sé óvenju mikill hér á Íslandi. Aðrar hagtölur eru einnig jákvæðar. Verðbólga er áfram undir verðbólguviðmiði Seðlabankans og hefur ekki verið það svo lengi samfellt áður. Atvinnuleysi mælist vart og störfum fjölgaði um 12 þúsund milli ára. Kaupmáttur eykst jafnt og stöðugt og ekki síst kaupmáttur í erlendri mynt þar sem krónan hefur styrkst mikið undanfarið. Í janú­ar nam er­lend greiðslu­korta­velta 17 millj­örðum króna sam­an­borið við 12 millj­arða í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða tæp­lega helm­ings­aukn­ingu.hagvöxtur

En víkjum aftur að hagvextinum en ágæt umfjöllun var um þetta í laugardagsblaði Morgunblaðsins, þaðan sem meðfylgjandi graf kemur. „Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri,“ segir meðal annars í samantekt yfir hina endurskoðuðu spá. Fjárfesting í hagkerfinu er talin hafa vaxið um 22,7%, einni prósentu meira en gert var ráð fyrir í nóvember. Hins vegar er nú talið að einkaneysla hafi aukist um slétt 7% eða 0,1 prósentustigi minna en talið var undir lok síðasta árs. Þá er talið að útflutningur hafi aukist um 9,5% frá árinu 2015 en fyrri spá gerði hins vegar ráð fyrir að vöxturinn á því sviði hefði numið 7,5%. Á hann fyrst og fremst rætur að rekja til mikilla aukinna umsvifa í þjónustuútflutningi.

Nú gerir Hagstofan ráð fyrir því að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði 4,3% en í nóvember hljóðaði spáin upp á 4,4%. Það yrði þá sjöunda hagvaxtarárið í röð. Á árunum 2018 til 2022 telur stofnunin að landsframleiðslan muni vaxa á bilinu 2,5-3% á ári hverju. „Í þjóðhagsspá er reiknað með að hagvöxtur í viðskiptaríkjum Íslands verði að jafnaði um 1,8% í ár og um 1,9% árið 2018 og á svipuðu reiki út spátímann,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. Er þar auk þess bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi uppfært spá sína í janúar og það sé spáð svipuðum hagvexti í heiminum og áður. Þó telur sjóðurinn að hagvöxtur í þróuðum ríkjum verði helst til meiri en áður var spáð en spáin hefur hins vegar verið lækkuð nokkuð fyrir nokkur nýmarkaðsríki.  

Minni vöxtur útflutnings

Hagstofan gerir ráð fyrir því að útflutningur muni á þessu ári aukast um 5,4%, samanborið við 9,5% í fyrra. Verður hann sem fyrr drifinn áfram af auknum umsvifum í ferðaþjónustu. Á móti mun vega samdráttur í útflutningi sjávarafurða. Gefur stofnunin sem skýringu að minni loðnukvóti hafi nú verið gefinn út en þar virðist ekki tillit tekið til nýrrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um úthlutun heildarafla íslenskra skipa upp á tæp 200 þúsund tonn, sem er nærri tvöfalt meira en í fyrra og gæti gefið 17 til 20 milljarða í útflutningsverðmæti en vertíðin fer vel af stað. Árin 2018-2019 gerir Hagstofan ráð fyrir rúmlega 4% vexti útflutnings.

Kraftur í innflutningi

Í ár er gert ráð fyrir því að innflutningur muni vaxa um 9,9%. Þá er gert ráð fyrir að innflutningur skipa og flugvéla verði meiri á árinu en gert var ráð fyrir í spá stofnunarinnar í nóvember. Þá er gert ráð fyrir að afgangur vöru og þjónustu verði 4,1% af vergri landsframleiðslu og er það meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fyrrnefndri haustspá. Má breytinguna helst rekja til batnandi viðskiptakjara og meiri útflutnings.

Þá er gert ráð fyrir að afgangurinn verði tæplega 4-5% af vergri landsframleiðslu á spátímanum til 2022 og að viðskiptajöfnuður muni verða jákvæður um 2,7-3,6% af vergri landsframleiðslu.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.

mynd
16. febrúar 2017

Verður 2017 ár rafmagnsbílsins?

Með Morgunblaðinu í morgun fylgdi stórt og mikið fylgirit um rafmagnsbíla. Fróðlegt er að lesa hvað er að gerast á þeim vettvangi en margir spá því að árið 2017 verði árið sem rafbíllinn slær í gegn. Lestur á blaðinu staðfestir þá skoðun margra sérfræðinga en gríðarlegar breytingar eru nú að eiga sér stað á helsta samgöngutæki mannkynsins, bílnum. Evrópusambandið vinnur að tilskipun um að öll ný meira
mynd
12. febrúar 2017

Aukið öryggi sjómanna

Fyrirferðamikill forstjóri sagði í Vikulokunum í Ríkisútvarpinu í gær að sjómenn ættu að fá hærra kaup vegna þess hve margir sjómenn hefðu farist við Íslandsstrendur í gegnum tíðina. Það er einkennileg röksemd. Nær væri að segja að öryggi sjómanna ætti að vera á oddinum vegna þess hve margir sjómenn hafa slasast eða beðið bana í gegnum tíðina. Sem betur fer hefur þar orðið mikil breyting eins og meira
mynd
7. febrúar 2017

Hans Rosling 1948 - 2017

I am not an optimist. I’m a very serious possibilist. It’s a new category where we take emotion apart and we just work analytically with the world. Þessi orð eru eftir læknirinn og fræðimanninn Hans Rosling sem nú er látinn, aðeins 68 ára að aldri. Það er eðlilegt að heimsbyggðin minnist hans en ekki var annað hægt en að hrífast með þegar Rosling lét gamminn geysa í fyrirlestrum meira
mynd
31. janúar 2017

Mannfólkið fram yfir hugmyndafræði

Í lok árs 1957 og byrjun árs 1958 fór Halldór Kiljan Laxness í mikla heimsreisu með Auði konu sinni. Hann kom þá í fyrsta skipti til hinna fornu stórvelda Kína og Indlands og skildi Guðbrandsbiblíu eftir í hvoru landi - gjöf til stórveldanna, erindi sem hinn íslenski menntamálaráðherra hafði beðið hann að sinna enda var Halldór þá nokkurskonar menningarsendiherra Íslands. Móttökurnar meira
mynd
23. janúar 2017

Pólitísk eyðilegging í kjölfar tæknibyltingar

Árið 1942 kom út bók Joseph Alois Schumpeter (1883 – 1950), Kapítalismi, jafnaðarstefna og lýðræði (Capitalism, Socialism and Democracy). Hún átti eftir að verða metsölubók og enn þann dag í dag er vitnað til hennar eins og lesa mátti í áramótaleiðara breska efnahagsritsins The Economist. Schumpeter hefur alltaf verið hafður í hávegum hjá blaðinu sem nefnir einn af dálkum sínum eftir honum. meira
mynd
17. janúar 2017

Tæknin tekur yfir - Veröld ný og góð

Árið 1998 voru starfsmenn Kodak 170.000 talsins og félagið seldi um 85% af öllum ljósmyndapappír í heiminum. Allt virtist leika í lindi og framtíðin virtist blasa við fyrirtækinu og starfsmönnum þess. Eigi að síður var  viðskiptamódel þeirra ónýtt og félagið lýst gjaldþrota þremur árum síðar. Saga sem við höfum svo sem oft áður heyrt, en segja má að ný tækni - sú stafræna - hafi kippt meira
mynd
8. janúar 2017

Vinnslustöðin 1946-2016

Íslendingar eiga mikið undir því að sjávarútveginum vegni vel og Vestmannaeyjar eiga mikið undir því að Vinnslustöðin gangi vel. Í þeirri miklu og viðvarandi umræðu sem fer fram um fyrirkomulag sjávarútvegs á Íslandi er of þarft að kíkja á sögu þess rekstrar sem við blasir í dag. Áhugavert innlegg um það er ný bók eftir Atla Rúnar Halldórsson blaðamann en hann er höfundur bókarinnar Sjötug og meira
mynd
4. janúar 2017

Vélvæðing og gervigreind um áramót

Vélvæðing og gervigreind voru leiðarstef í mörgum þeim hugleiðingum sem lesa mátti um áramótin. Stóra spurningin er vitaskuld sú hvort gervigreind (artificial intelligence) bæti líf okkar eða hreinlega taki það yfir? Egill Helgason, pistlahöfundur á Eyjunni, gerði þetta að umræðuefni undir heitinu Vélarnar taka yfir og störfin hverfa. Semsagt, frekar dystópía en útópía og kom ekki á óvart að hann meira
mynd
28. desember 2016

Skattaraunir sólkonungsins

Sólkonungurinn Loðvík 14 (1638 –1715) ríkti lengur en dæmi eru um, eða frá fjögurra ára aldri þar til hann var nærri 77 ára gamall. Faðir hans dó árið 1642 þegar Loðvík var 4 ára. Hann ríkti því í 72 ár og 110 daga yfir fjölmennasta ríki Evrópu á þeim tíma, lengur en nokkur annar franskur konungur eða nokkur annar af helstu einvöldum Evrópu. Til samanburðar má nefna að Elísabet II meira
mynd
19. desember 2016

Fjölmiðlasagan skráð

Blaðamennska er ekki starf, heldur skapgerðargalli var einu sinni haft í flimtingum meðal blaðamanna. Hvað sem hæft er í því er blaðamennska og starfsemi fjölmiðla mikilvægur liður í lífi þjóðarinnar og snar þáttur í atvinnu- og menningarsögu okkar. Þessu öllu er gerð ágæt skil í bókinni Í hörðum slag, Íslenskir blaðamenn II sem Blaðamannafélag Íslands hefur nú gefið út. Í bókinni greina 15 meira
mynd
14. desember 2016

Markmið fyrir okkur öll

Stundum er eins og áhuginn slokkni í augum fólks þegar viðmælendur þeirra fara að ræða um markmið eða aðra heldur óáþreifanlega hluti. Jafnvel eitthvað sem á að gerast í óskilgreindri framtíð og hafa áhrif eftir enn lengri tíma. Samt er það nú þannig, að hverjum manni er nauðsynlegt og jafnvel hollt að setja sér einhver markmið, til skemmri eða lengri tíma, eitthvað áþreifanlegt til að stefna meira
mynd
30. nóvember 2016

Framleiðni, arður og hagræði í sjávarútvegi

Á árinu 2015 störfuðu um 7.800 manns í sjávarútvegi sem nemur um 4,2% af vinnuafli landsins og hefur þetta hlutfall ekki verið lægra frá árinu 2008 þegar það náði lágmarki í 4% en þetta má  lesa um í nýlegri skýrslu Íslandsbanka um sjávarútveginn. Skýrslan er hin prýðilegasta samantekt um þessa mikilvægu atvinnugrein og verður hér tæpt á nokkrum atriðum hennar. Skýrslan sýnir að við erum meira
mynd
23. nóvember 2016

Efnahagslegur auður tryggir ekki félagslegar framfarir

Þau tíu svæði innan Evrópusambandsins (ESB) sem skapað hafa íbúum sínum bestu samfélagslegu innviði eru í Finnlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Sístu tíu svæðin eru í Rúmeníu og Búlgaríu. Þetta má sjá á nýjum lista Social Progress Imperative (SPI) stofnunarinnar yfir gæði félagslegra framþróunar innan ESB. Þessi listi var kynntur í Brussel í október síðastliðnum en eins og lesendur meira
mynd
20. nóvember 2016

Fátækt minnkar jafnt og stöðugt

Í nýjustu skýrslu sinni um fátækt (Poverty and Shared Prosperity Report 2016) sem kom út nú í október varpar Alþjóðabankinn (World Bank) fram nýjum tölum sem hljóta að vekja mikla athygli. Tölurnar sýna meðal annars að fjöldi fólks sem býr við algera örbirgð (e. extreme poverty) hefur fallið um 1,1 milljarð manna á síðustu 25 árum. Á sama tíma fjölgaði mannkyninu um 2 milljarða manna þannig að meira
mynd
12. nóvember 2016

Meiri eða minni fátækt - það er spurningin!

Þeim sem lifa við algera örbyrgð (e. extreme poverty) hefur fækkað um meira en helming undanfarin 30 ár. Kannanir sýna hins vegar að almenningur gerir sér alls ekki grein fyrir þessu og það sem meira er, flestir telja að fátækt í heiminum hafi og sé að aukast. Þessu er reyndar ólíkt varið með íbúa nýja heimsins og gamla heimsins. Í gamla heiminum (Evrópu og Norður-Ameríku) er það trú manna að meira
mynd
5. nóvember 2016

Traust staða sjávarútvegsins

Skuldir sjávarútvegsins hafa minnkað verulega frá árinu 2009 þegar þær náðu hámarki og fjárfestingar hafa um leið vaxið undanfarin fjögur ár. Þetta er meðal þess sem fram kom á Sjávarútvegsdeginum 2016 sem fram fór á Hotel Hilton Nordica í vikunni í samstarfi SFS, SA og Deloitte. Skuldir sjávarútvegsins hafa lækkað á þessu tímabili úr 494 milljörðum króna í 333 milljarða. Þegar þær vor mestar voru meira
mynd
1. nóvember 2016

Goðsagnakennd hagspá

Það er bókmenntaleg vísun í hagspá þeirri sem greiningardeild Arion banka kynnti í morgun. „Fljúgum ekki of nálægt sólinni,” var heiti kynningarinnar og sjálfsagt verið að minna á örlög Íkarosar, persónu úr goðafræði Grikkja, en örlög hans urðu að bræða vængi sína með því að fljúga of nálægt sólinni og steypast í hafið í framhaldi þess. Vængir Íkarosar voru úr vaxi en hagspá Arion er meira
mynd
27. október 2016

28 stjórnarskrár Venesúela

Líkindi eru til þess að verðbólga í Venesúela verði á milli 700 og 800% á þessu ári og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur látið frá sér að spá um að hugsanlega fari verðbólgan upp í 2200% á næsta ári í Venesúela. Hagfræðileg viðmið duga varla lengur til þess að fanga ástandið í landinu. Hagkerfi landsins er hrunið og heilbrigðis- og velferðakerfið hefur farið eina öld aftur í tímann. Ljóst er að meira
mynd
20. október 2016

Háskinn í hagkerfinu

Í síðasta pistli ræddi ég um stöðugleikann, einfaldlega af því að hann er ekki fyrirferðamikill í umræðu dagsins, nú þessa síðustu daga fyrir kosningar. Það er auðvitað umhugsunarvert að þegar við Íslendingar eyjum hann loksins þá virðumst við taka honum sem sjálfgefnum. En auðvitað er ekki svo, handan við hornið eru nýir háskar í hagkerfinu. Háskar sem geta reynst okkur erfiðir ef við búum meira
Sigurður Már Jónsson

Sigurður Már Jónsson

Höfundur er blaðamaður en starfar í dag sem upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Meira