c

Pistlar:

29. maí 2012 kl. 14:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ferðamennska til fjár

Fyrstu fjóra mánuði ársins fjölgaði erlendum ferðamönnum sem hingað koma um 20% sé miðað við síðasta ár. Það er staðfesting á þeim gríðarlega vexti sem er að eiga sér stað í ferðaþjónustu hér á landi og augljóst að væntingar um að ein milljón ferðamanna leggi leið sína hingað á ári eru síður en svo óraunsæjar. Hversu vel við erum í stakk búin til að taka við þessum fjölda er annað mál en stefnan í ferðaþjónustu virðist frekast byggjast á væntingum en nákvæmu skipulagi. Við höfum því ákveðið að láta slag standa og nú þegar eru helstu ferðamannastaðir landsins orðnir allt of ásetnir og Íslendingar sjálfir treysta sér illa til að sækja þá. Landsmenn virðast vera tilbúnir að fórna því fyrir meiri ferðamennsku og augljóst að sumir telja þetta betra og náttúrvænna fyrirkomulag en uppbygging orkufreks iðnaðar. Um það má þó augljóslega deila.

Fjárfesting í ferðaþjónustu hefur í gegnum tíðina verið vandasöm og lengi vel var það þumalfingursregla að hótel þyrfti að fara að minnsta kosti þrisvar á hausinn áður en hægt væri að láta enda ná saman í rekstri þess. Augljóst er að lágt gengi krónunnar ýtir á eftir hraðri aukningu ferðamanna en margvísleg kynning er einnig að skila sér. Það er hins vegar svo komið að  fjárfesting í ferðaþjónustu skiptir miklu nú um stundir. Háttar svo til að á stórum landssvæðum er eina atvinnuvegafjárfestingin á sviði ferðaþjónustu og ljóst er að margir eru að taka talsverða áhættu með uppbyggingu sinni.

Lítil nýting fjárfestingu

Útgjöld erlendra ferðamanna voru áætluð um 133 milljarðar króna á árinu 2011 eða um 13% hærri en árið 2010. Erfitt hefur verið að fá ferðamenn til að auka eyðslu sína hér á landi og sömuleiðis er erfitt að fá þá til að koma utan háannatíma. Það þýðir að fjárfesting vegna ferðaþjónustu er aðeins í hámarksnýtingu þrjá mánuði á ári. Aðra hluta ársins eru ferðaþjónustuaðilar að reyna að þreyja þorrann. Ljóst er að það bíður mikið starf við að ná meira jafnvægi í ferðamennskuna, fá erlenda ferðamenn til að eyða meira hér og tryggja að laun í ferðaþjónustu séu samkeppnisfær.

Icelandair áætlar að farþegafjöldi ársins verði um tvær milljónir sem er um 15% aukning frá farþegafjölda síðasta árs.  Félagið hefur líklega seint eða aldrei verið jafn sterkt fjárhagslega og hefur varið miklum fjármunum í uppbyggingu hótelstarfsemi undanfarið ár. Nægir að nefna þrjú hótel því til sönnunar; Hótel Natura, Hótel Marina og nú um næstu mánaðamót mun 100 herbergja hótel á Akureyri taka til starfa. Verður forvitnilegt að sjá hvernig þessar fjárfestingar nýtast uppbyggingu þessa ferðarisa Íslands.