c

Pistlar:

30. ágúst 2012 kl. 17:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Málstaður Íslands í Icesave-málinu

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) stefndi íslenska ríkinu í desember síðastliðnum til að þola viðurkenningardóm um að brotið hefði verið gegn tilskipun um innstæðutryggingar og/eða meginreglu 4. gr. EES samningsins um bann við mismunun. ESA telur brotið felast í því að íslenska innstæðutryggingakerfið hafi ekki tryggt greiðslur til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í Amsterdam og London á Icesave-reikningunum. Mismunun er byggð á því að innstæðueigendur í íslenskum bönkum hafi sætt betri meðferð. Gert er ráð fyrir að málflutningur hefjist í lok september næstkomandi en erfitt er að segja hvenær niðurstaða liggur fyrir.

Undanfarið hefur mátt heyra og sjá víða að kvíði sækir að fólki vegna málaferlanna. Hinn þekkti rithöfundur og þjóðfélagsrýnir Hallgrímur Helgason sagði í Facebook-færslu að hann sæi fyrir sér að Íslendingar yrðu látnir greiða 500 milljarða króna næstu áratugi með tilheyrandi volæði. Aðrir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hafa tekið í sama streng og hafa rifjað upp baráttu Icesave-kosninganna með það í huga að vinna síðbúinn sigur fyrir já-menn.

Erfið málsvörn?

Stundum er erfitt að skilja af hverju mönnum er svona umhugað um að halda því fram að erfið málsvörn bíði okkar Íslendinga í Icesave-málinu fyrir EFTA-dómsstólnum. Einnig er erfitt að sjá út frá hvaða upplýsingum menn kjósa að tjá sig þegar þeir telja sig vita allt um ESA og dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins. Að þar sé víst og öryggt að Ísland muni tapa, meðal annars vegna veiks málsstaðar. Staðreyndin er sú að oft er það þannig að mál þurfa að hafa sinn gang og þau geta þróast á meðan á málsmeðferðinni stendur. Jafnvel með ófyrirséðum hætti. Fyrirséð er þó að síðasti Icesave-samningurinn væri búinn að kosta ríkissjóð útgreiðslu á erlendum gjaldeyri upp á 60 til 80 milljarða króna samkvæmt útreikningum verðbréfafyrirtækisins Júpíters. Svavarssamningurinn (Icesave I) væri búinn að kalla yfir ríkissjóð skuldbindingu upp á um 150 milljarða nú þegar.

Nú þegar málaferlin eru að hefjast vert að hafa í huga að það er óravegur í að Íslendingum verði gert að borga nokkuð, jafnvel þó málið tapaðist hjá EFTA-dómstólnum. Hvort slík niðurstaða gefur mótaðilum okkar í Icesave einhver tilefni til málshöfðanna er óvíst, bæði vegna þess að ekki verður séð hvernig kröfugerð getur risið upp af samningsbrotamáli ESA og svo hitt að þrotabúið stendur undir forgangskröfum og gott betur. Og verður væntanlega búið að greiða allt löngu áður en nokkur innheimtumál komast áleiðis.

En er eitthvað sem segir að Icesave-málið sé tapað? Ef skoðað er hvernig tekið hefur verið á öðrum viðbrögðum Íslendinga í kjölfar hrunsins þá sést að bæði neyðarlögin og gjaldeyrishöftin hafa fengið staðfestingu ESA og EFTA-dómstólsins. Er ástæða til að ætla að viðbrögð Íslendinga gagnvart innstæðum bankanna fái aðra niðurstöðu?

Icesave-málið er það stærsta sem farið hefur fyrir EFTA-dómstólinn

Stundum hafa uppgjafarsinnar haldið því fram að Ísland tapi öllum málum sem ESA höfðar á hendur okkur. Þá hafa menn ekki skoðað málaskrá ESA en þar sést að eftirlitsstofnunin hefur höfðað 13 mál á hendur Íslandi. Þar af eru nokkur vegna þess að ekki var staðið við ákvæði innleiðingar EES-samningsins. Eitt mál var fellt niður enda hafði Ísland þá gert þær breytingar sem farið var framá. Flest málanna snérust um formsatriði og í sumum tilvikum þótti ekki einu sinni ástæða til að halda uppi vörnum í málinu. Segja má að aðeins í þremur málanna 13 hafi gengið efnisleg niðurstaða og tapaði Ísland þeim öllum. Um þessi þrjú mál sem töpuðust er ekki mikið að segja en þau eiga það sameiginlegt að þar var til þess að gera einföld mismunun á ferð. Í einu tilviki var til dæmis talið að um væri að ræða dulda ríkisaðstoð þar sem stjórnvöld kusu að innheimta hærri skatta á erlenda flugþjónustu en innlenda.

Sumir hafa viljað túlka þessa tölfræði þannig að ESA fari ekki í mál nema stofnunin sé örugg um að vinna. Það lýsir mikilli trú á þeim sem þar vinna. Hafa verður í huga að Icesave-málið er einstakt og ótvírætt stærsta mál sem komið hefur fyrir EFTA-dómsstólinn.

Neyðarlögin og gjaldeyrishöftin samþykkt

Fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan, nánar tiltekið í desember 2010, ákvað Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) að loka sjö kvörtunarmálum er varða íslensku neyðarlögin þar sem stofnunin taldi lögin ekki brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins. Sú niðurstaða var mikilvæg enda staðfesti hún rétt íslenskra stjórnvalda til viðbragða vegna hruns íslensku bankanna í október 2008. Í úrskurði sínum komst ESA að þeirri niðurstöðu að innstæðueigendur væru í annarri aðstöðu en almennir kröfuhafar og eigi því ríkara tilkall til verndar við greiðsluþrot banka. Það var niðurstaða stofnunarinnar að hvorki neyðarlögin né ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins hafi falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart almennum kröfuhöfum. Því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns. Það var ekki síður mikilvægt að stofnunin taldi jafnframt að hefði niðurstaðan orðið sú að þessar ráðstafanir hefðu verið taldar hamla frjálsu flæði fjármagns hefðu þær samt sem áður verið réttlætanlegar.

Nákvæmlega ári seinna, í desember 2011, staðfesti EFTA-dómstóllinn síðan gjaldeyrishöftin eins og þau voru framkvæmd hér á landi og taldi þau samrýmast EES-samningnum. Í dóminum kemur fram að samkvæmt 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins geti hvort tveggja aðildarríki ESB og EFTA-ríki gripið til verndarráðstafana ef þau eigi í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að slíkir örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarójafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða. Við meðferð málsins benti íslenska ríkið og Seðlabanki Íslands á að nauðsynlegt hafi verið að taka upp gjaldeyrishöft hér á landi í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Á það féllst dómurinn og í niðurstöðu hans sagði: ,,Engin gögn hafa verið lögð fyrir dómstólinn sem benda til þess að úrræðin sem gripið var til hafi brotið í bága við meðalhófsregluna."

 Ætti þetta ekki að auka Íslendingum bjartsýni varðandi málaferlin sem eru framundan?


Í næstu grein verður reynt að meta hversu raunhæft var að ætla Íslandi að borga út Icesave-reikningana á sínum tíma.