Pistlar:

7. mars 2013 kl. 10:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kosningavíxlarnir streyma út

Fyrir skömmu var á þessum vettvangi greint frá blygðunarlausum tilraunum ríkisstjórnarinnar til að framlengja líf sitt með kosningavíxlum. Þá uppskar ég hörð mótmæli frá tveimur pólitískum aðstoðarmönnum ráðherra ríkisstjórnarinnar hér í umsagnakerfinu. Tilefnið þá var fundur ríkisstjórnarinnar á Selfossi 25. janúar síðastliðin þar sem hún deildi út gjöfum til heimamanna. Veitt voru loforð fyrir margra milljarða króna fjárútlátum og fjárskuldbindingum sem í fæstum tilvikum höfðu verið samþykkt á fjárlögum. Þannig er ríkisstjórnin búin að binda hendur fjárveitingavaldsins um ókomna tíð í tilraun sinni til að vinna atkvæði sunnlenskra kjósenda. Mörg verkefnin eru þörf en önnur eru umdeilanleg. Í sumum tilvikum má velta fyrir sér hvort þarna sé um skynsama nýtingu skattpeninga að ræða eins og bent var á í grein hér 4. febrúar síðastliðin.

Bakkavíxlarnir

Í gær skrifar Óli Björn Kárason blaðamaður grein í Morgunblaðinu þar sem tekið er undir þetta og ný og fleiri dæmi eru tínd til. Greinin heitir „Loforð sem öðrum er ætlað að efna." Eitt þeirra atriða sem Óli Björn tínir til er nýlegt ferðalag sitjandi atvinnu- og nýsköpunarráðherra norður í kjördæmi sitt á Húsavík. Þar skrifaði Steingrímur J. Sigfússon undir fjárfestingaverkefni sem hefur í för með sér að ríkissjóði er ætlað að tryggja 3,4 milljarða vegna uppbyggingar iðnaðarsvæðis á Bakka en þar er nú ætlunin að reisa kísilver. Það er synd að segja að þessum tölum hafi verið hampað í umræðunni og í þingumræðu mátti skilja málið svo að kostnaður ríkissjóð væri ekki meiri en tveir milljarðar króna. Voru þar blekkingar á ferð í ljósi þess að núna telur ríkisstjórnin nauðsynlegt aðp leggja til sem svarar 15% af heildarfjárfestingakosti verkefnisins?  

Ráðherrann lagði fram tvö frumvörp vegna stóriðjuverkefnisins á Bakka í byrjun vikunnar. Í umsögn fjárlagaskrifstofu er á það bent að í „frumvörpunum eru engin áform um hvernig fjármagna megi þessi auknu útgjöld". Með öðrum orðum; gamla ráðuneyti Steingríms J. veit ekkert hvar á að finna fjármuni fyrir þessum Bakkavíxlum.


Fréttablaðið tekur síðan undir þetta í forsíðufrétt sinni í dag og bendir á að ríkið veitir ívilnanir vegna verkefnisins umfram þær sem lög kveða á um. Umtalsverður skattaafsláttur verði gefinn. Nú skal það tekið fram að Húsvíkingar eru vel að því komnir að fá verkefni sem getur eflt atvinnuþróun á svæðinu enda hafa þeir barist fyrir því lengi. Það er hins vegar undarlegt að sjá þessa niðurstöðu sem hefur í för með sér umtalsverðan kostnað ríkissjóðs, skattaívilnanir umfram það sem lengi hefur sést og það vegna verksmiðju sem mun skila frá sér koltvísýring langt umfram það sem álverksmiðja gerir. Sama álverksmiðja og heimildir eru fyrir að þessi sami ráðherra hafi stoppað á lokaspretti fyrir rúmu ári síðan! Gagnrýnar spurningar hafa verið spurðar af minna tilefni.